25.02.1975
Sameinað þing: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

302. mál, störf flutningskostnaðarnefndar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Þessi fsp. á þskj. 41 var gerð af Vilhjálmi Sigurbjörnssyni, sem gegndi þingstörfum í fjarveru minni á haustþinginu og er á þessa leið, — hún er til samgrh. um störf flutningskostnaðarnefndar:

„1. Hvað líður störfum mþn., sem kjörin var í samræmi við þál. frá 10. apríl 1973 um stofnun verðjöfnunarsjóðs vöruflutninga og bætt skipulag á þeim flutningum?

2. Hvenær má vænta álitsgerðar n.?“Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) : Herra forseti. Út af fsp. á þskj. 41 vil ég gefa upplýsingar um störf n. sem fyrir liggja, en þannig er ástatt um störf þessarar n., að formaður hennar varð menntmrh. á s.l. hausti og hefur af skiljanlegum ástæðum þess vegna ekki getað sinnt þessum störfum. Hann hefur hins vegar sagt því starfi lausu og við því starfi hefur tekið hv. 5. þm. Austf. Þess vegna get ég ekki svarað síðari liðnum, hvenær nál. liggi fyrir. En maður, sem starfaði hjá n., Guðmundur Einarsson deildarstjóri í fjmrn., hefur gefið svo hljóðandi skýringar á þeim atriðum sem til meðferðar höfðu verið hjá n.:

Áætlað er, að árið 1971 hafi vöruflutningar skipst á milli flutningatækja á eftirfarandi hátt miðað við tonn og km. Bílar 91%, skip 7%, flugvélar 2%. Á leiðum, sem eru 300 km eða lengri, er áætlað að hlutdeild bila hafi verið 69%, skipa 26% og flugvéla 4–5%. Þróun undanfarandi ára hefur verið í átt til dýrari flutningsmáta, þ. e. hlutdeild bila og flugvéla hefur aukist á kostnað skipanna.

Helstu ástæður þessarar þróunar eru:

1. Bættar samgöngur í lofti og á landi, en tiltölulega litlar framfarir í flutningum á sjó, t.d. með hraða og vörumeðferð.

2. Bætt þjónusta flutningaaðila á landi og í lofti, t.d. heimkeyrsla á vörum.

3. Léleg aðstaða Skipaútgerðarinnar til vörumóttöku og að því er virðist lítill áhugi á að ná til sín flutningum.

4. Ósamræmi í skattlagningu flutningatækja. Talið er, að öll opinber gjöld af rekstri vörubila nemi um 1/3 hluta af tilkostnaði hins opinbera við þá.

5. Auknar kröfur um hraða og fljóta afgreiðslu, m.a. aukning verðmætisflutninga. Tilhneiging verður þá til að velja flutningatæki sem fljótari eru í förum þótt dýrari séu en önnur.

6. Flókin gjaldskrá í vöruflutningum á sjó. Það er augljóst, að með þessari þróun verða flutningar dýrari að sumu leyti og óhagkvæmari en vera þyrfti, a.m.k. frá félagslegu sjónarmiði.

Nokkrar fleiri skýringar eru hér:

1. Endurbætt leiðakerfi Skipaútgerðar ríkisins dregur úr hringferðum og teknar upp ferðir til Vestfjarða og Austfjarða. Kanna þyrfti möguleika á að flóabátar tækju að einhverju leyti við flutningum, t.d. Drangur á Norðurlandi.

2. Fækka skipum Skipaútgerðar ríkisins, en samvinna er tekin upp við flutningsaðila á landi um framhaldsflutning eftir því sem hagkvæmara reyndist.

3. Aukin tækni í vörumeðferð, t.d. með aukinni notkun gáma og aukinni hagræðingu við notkun þeirra.

4. Bætt aðstaða til vörumóttöku, sérstaklega í Reykjavík.

5. Aukin þjónusta við neytendur, þ.e.a.s. heimkeyrsla á vörum, og aukið söluátak, þ.e. reynt að hafa frumkvæði að ná flutningum.

6. Endurnýjun skipastóls sem þörf er á og þess þá gætt að ný skip séu sem nýtískulegust. Aðrar hugmyndir, er varða samgöngur á sjó:

Ný skip sem sigla beint milli ákveðinna staða, t.d. Reykjavíkur og Akureyrar, bílferja sem sigldi á milli Reyðarfjarðar og Bergen. Aðbúnaður sé allur miðaður við að farmgjöld verði sem lægst með viðunandi þægindum, þó að hluti farrýmis verði færanlegur, þannig að nota megi til vöruflutninga á vetrum, t.d. á nýjum bílum. Einföldun vörugjalda í höfnum.

Flutningar á landi.

1. Umferðarmiðstöðvar á krossgötum til að auðvelda umhleðslu gætu bætt nýtingu flutningatækja og aukið tíðni ferða til smærri staða, mundu auk þess skapa möguleika á flutningum milli staða, þar sem ekki er um að ræða beinar ferðir.

2. Aukin áhersla á bundið slitlag. Mjög mikill hluti vegakerfisins hefur nú þegar svo mikla umferð að lagning bundins slitlags væri arðbær fjárfesting. Mundi það draga mjög úr rekstrarkostnaði bíla.

3. Aukin notkun gáma.

Flutningar í lofti: Skipulag flutninga í lofti er tiltölulega gott. Þó eru þar undantekningar. Það er helst gæti staðið til bóta er:

1. Sérstök flugvél eða flugvélar staðsettar á Akureyri, sem flygju til hinna einstöku staða á Norðurlandi, Austurlandi og Vestfjörðum. Sérstök þörf er fyrir slíka þjónustu á Norðurlandi og Grímsey.

2. Bætt aðstaða í Reykjavik og úti á landi með tilliti til afgreiðslu.

3. Endurbættir flugvellir, m.a. í Reykjavik með nýjum flugvelli á Álftanesi — sem ég held að sé nú ekki um að ræða.

Flutningar almennt: Samræming í skattlagningu flutningatækja með tilliti til tilkostnaðar hins opinbera við þau. Aukin samræming í flutningi hinna ýmsu flutningatækja, m.a. við umferðarmiðstöð, og notkun gáma.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, að þessar upplýsingar, sem ég hef lesið hér, eru hugmyndir sem starfsmaður n. hefur tekið saman, en eru hvorki till. n. þeirrar, sem um hefur fjallað, né samgrn. A.m.k. vil ég taka það skýrt fram, að nýr flugvöllur á Álftanesi mundi ekki verða samþykktur af minni hendi. Hins vegar eru í þessu margar góðar ábendingar sem n. sú, sem nú mun taka til starfa á nýjan leik, mun taka til athugunar.

Þetta svar verð ég að láta nægja við fsp. vegna þeirrar breytingar sem orðið hefur á störfum n.