25.02.1975
Sameinað þing: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1851 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

302. mál, störf flutningskostnaðarnefndar

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans og sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar við þetta tækifæri.

Það er, eins og öllum hv. þm. er ljóst, mikið vandamál fyrir landsbyggðina að þurfa að búa við þau skilyrði að flytja yfirleitt vörur sínar í gegnum Reykjavík frá útlöndum. Þetta kemur auðvitað hastarlega niður á vöruverði úti á landi og hefur þau áhrif að vörur eru þar yfirleitt dýrari en hér í Reykjavík.

Ég get ekki stillt mig um, af því að ég hef ákveðin dæmi fyrir framan mig, að nefna tilvik um vörusendingar, sem gefa góða hugmynd um það, hvað hér er í húfi. Það eru timbursendingar sem flytja átti með skipi erlendis frá og til hafna á Austurlandi. Ég nefni tvö tilvik. Í öðru tilvikinu er millilandafragt 370 þús. kr., en framhaldsfragt eða strandfragt sömu sendingar frá Reykjavík og austur á Reyðarfjörð um 170 þús. kr. Í hinu tilvikinu er millilandafragtin tæplega 180 þús. kr., en strandfragtin til hafnar á Austfjörðum tæplega 100 þús. kr. M.ö.o.: flutningsgjald á sömu vöru er 35–40% hærra til Austfjarðahafna en það er til Reykjavíkur og hefur auðvitað tilsvarandi áhrif á vöruverðið á þessum báðum stöðum.

Ég vil endurtaka þakkir til hæstv. ráðh. og vonast til að þessi n., sem vinnur að gagnmerku starfi, starfi áfram og skili sem fyrst áliti og till. til, hv. Alþ.