25.02.1975
Sameinað þing: 42. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (1493)

98. mál, kostnaðarhlutur sveitarfélaga varðandi stofnun og starfrækslu fræðsluskrifstofanna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, það er langt síðan þessi fsp. var fram lögð. Að nokkru leyti er það mín sök að henni hefur ekki verið svarað fyrr og bið ég velvirðingar á því, að svo miklu leyti sem mér er um það að kenna.

Í fyrsta lið fsp. er spurt um kostnaðaráætlun varðandi fræðsluskrifstofur. Þessi kostnaðaráætlun var saman tekin fyrir áramótin og þá litu tölurnar út svona, en spurt er um kostnað fræðsluskrifstofanna hverrar fyrir sig og hversu mikið fé sveitarfélögum hvers umdæmis er gert að leggja fram. Því svara ég þannig: Í Reykjavík alls áætlað 11 millj. 180 þús. og hluti fræðsluumdæmis 4 millj. 940 þús. Reykjaneskjördæmi 6 millj. 180 þús., 2 millj. 440 þús. Vesturl. 4 millj. 980 þús., 1 millj. 840 þús. Vestfirðir 4 millj. 980 þús., 1 millj. 840 þús. Norðurl. v. sama upphæð, 4 millj. 980 þús., 1 millj. 840 þús. Norðurl. e. 5 millj. 480 þús., 2 millj. 90 þús. Austurl. 4 millj. 980 þús., 1 millj. 840 þús. Suðurl. 4 millj. 980 þús. samtals og 1 millj. 840 þús. hluti fræðsluumdæmis. Samtals var rekstrarkostnaður áætlaður fyrir áramótin 47 millj. 740 þús. og hluti fræðsluumdæmanna alls 18 millj. 670 þús. Þá var áætlaður stofnkostnaður á hverja skrifstofu samtals 1 millj. 100 þús. kr. Er auðséð á því, að það er ekki gert ráð fyrir að byggt sé yfir þessa starfsemi. Samtals verður þetta 1 millj. og l00 þús. kr. sem skiptist þá til helminga, 4 millj. 400 þús. á hvorn aðilann.

Þá er í 2. líð fsp. spurt um það, hvort fyrirhugað sé að tryggja sveitarfélögunum nýja eða aukna tekjustofna eða aðrar sérstakar viðbótartekjur til að standa undir kostnaðarhluta sveitarfélaganna við þessa framkvæmd grunnskólalaganna. Hluti sveitarfélaganna er í þessari áætlun samtals bæði rekstur og stofnkostnaður, áætlaður 23 millj. og 70 þús. Nú hefur ekki verið lagt hér fram né heldur er í undirbúningi frv. um sérstakan tekjustofn til þess að standa undir þessum kostnaði. Það er þó rétt, að þetta er viðbótarkostnaður hjá sveitarfélögunum, en hitt verður þá einnig að hafa í huga, að í grunnskólal. eru mörg ákvæði, þar sem fremur léttir á sveitarfélögunum heldur en hitt og þyngir aftur á ríkissjóði. svo að í heildina tekið held ég ekki rétt að segja að grunnskólalögin íþyngi sveitarfélögunum sérstaklega.

Þrátt fyrir það að þetta er ekki stór upphæð yfir allt landið, 23 millj., þá er hér eigi að síður vandamál á ferðinni, sem þarf úrlausnar. Og það er vegna þess að landshlutasamtök sveitarfélaga, sem ætlað er að annast þessar fræðsluskrifstofur, hafa ekki verið lögfest, þau hafa ekki möguleika til að innheimta gjöld af meðlimum sinum á sama hátt og t.d. ríki og sveitarfélög hafa. Og meðan landshlutasamtökin hafa þannig ekki aðra tekjustofna en þá, sem þau nú hafa og eru bundnir við önnur verkefni, þá er þetta mál sem krefst sérstakrar úrlausnar.

Þetta atriði hefur nokkuð verið rætt. Ég hef kynnt það í ríkisstj. t.d. og hefur verið haldinn fundur með ráðh. menntamála og félagsmála og svo fulltrúum landshlutasamtakanna um þessa hlið málsins. Ákvörðun hefur ekki verið tekin enn um þetta efni, en það er sem sagt verið að vinna að því. Ég hef heyrt því hreyft, að nú þegar þrengir að og menn tala um samdrátt í útgjöldum hins opinbera, þá hef ég heyrt því hreyft að það væri skynsamlegt að fresta þessari framkvæmd, fresta því að setja á stofn fræðsluskrifstofurnar. Nú hefur þetta í raun og veru þegar frestast nokkuð, þar sem ekki er enn farið að auglýsa stöðu fræðslustjóranna. Það er þess vegna sýnt að skrifstofur geta varla tekið til starfa fyrr en á miðju ári. Ég álít hins vegar að það væri ekki skynsamlegt að fresta því lengur en svo sem eins og fram um mitt ár að þessar skrifstofur taki til starfa.

Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að þessum skrifstofum er ætlað að taka við hluta af því starfi, sem nú er unnið í menntmrn. Það er ekki búið að ganga alveg frá reglugerðum og erindisbréfum þar að lútandi. En það er t.d. ætlunin að skrifstofurnar fjalli um undirbúning áætlana fyrir skólana, um skoðun reikninga, jafnvel um ráðningu kennara sem eru settir í stöður og svo um ýmis atriði varðandi innra starf skólanna. Þannig er málum háttað, að það er mjög á hlaðið það starfsfólk sem nú er í menntmrn., og það er varla hugsanlegt annað en það þyrfti að auka þar við mannafla ef fræðsluskrifstofurnar kæmu ekki til, eins og gert hefur verið ráð fyrir, og þær gætu þannig létt ýmsum þeim störfum af ráðuneytinu, sem það nú hefur.

Ég held að ég hafi þetta ekki lengra. Ég hef reynt að svara hinum beinu fsp. og svo látið fylgja með örlitlar skýringar.