25.02.1975
Efri deild: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1864 í B-deild Alþingistíðinda. (1500)

162. mál, áhrif olíuverðhækkana á hitunarkostnað íbúða

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta skulu vera fá orð. Við heyrum öðru hverju í fjölmiðlunum hátíðlegar yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún láti sér annt um að hafa samstarf við stjórnarandstöðuna í hverju efni og síðan fáum við allt í einu — ég segi allt í einu — frv. sem að sumu leyti fela í sér framhald þeirra ráðstafana, sem áður hafa verið gerðar, en að öðru leyti eru um margt nýjungar, án þess að hafa fengið nokkurt tækifæri til þess að kynna okkur þær nýjungar sem þar eru á ferðinni. Þessi fögru orð og fyrirheit hæstv. ríkisstj., við sjáum sem sagt ekki efndir þeirra, við sjáum einmitt andstæðuna. Það er ekki út af þessu frv. sérstaklega, sem ég tala hér um þetta. Í Nd. er einnig verið að ræða frv., að mörgu svipaðs eðlis og hér er um að ræða, en þar er líka um nýja hluti að ræða sem vissulega hefði verið full ástæða til að hafa samstarf og samráð við stjórnarandstöðu um, og það því frekar sem ljóst var að vilji stjórnarandstöðunnar í þessum efnum til að leysa þessi mál var ríkur. Þetta verður sem sagt að átelja, eims og hv. þm. Ragnar Arnalds gerði reyndar áðan.

Ég var austur á landi í þeim landshluta, sem hefur orðið harðast fyrir barðinu á olíuverðhækkuninni, núna á dögunum, og þegar nýjasta olíuhækkunin skall yfir var það ekki að ófyrirsynju að menn spyrðu að því, hvort það væri ekki nokkuð öruggt að olíustyrkurinn hækkaði eitthvað. Og í einfeldni minni svaraði ég því hiklaust til, að ég tryði engu öðru en því að það yrði reynt að gera það af bestu getu. Ég treysti stjórnvöldum til þess að mæta þessari stórfelldu hækkun með einhverjum hætti. Og það var greinilegt að fólk reiknaði með því almennt að olíustyrkurinn, uppbótin á þennan gífurlega rekstrarlið heimilanna, þessi uppbót yrði hækkuð. Og það átti ekki síst við um fylgismenn hæstv. viðskrh., að þeir trúðu hér engu öðru en því að þeirra hlutur yrði a.m.k. jafnréttur og áður hafði verið.

Ég verð að lýsa, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds, yfir algerri andstöðu við þá ráðstöfun sem gert er ráð fyrir í c-líð 2, gr. Hæstv. viðskrh. sagði áðan að fjármunum til Orkusjóðs til jarðhitarannsókna og hitaveituframkvæmda, eins og þar er orðað, væri vel varið. Ekki skal ég úr því draga. Hann sagði að margir hefðu áhuga á því réttilega að koma á hjá sér hitaveitu og það yrði að flýta fyrir því og gera þeim það kleift. Í mínum augum lítur málið út á nokkuð annan veg. Ég álít að með þessu móti sé almennt jafnrétti í þessum efnum ekki aukið, enn sitji þeir, sem sísta aðstöðu hafa í þessum efnum, við enn þá lakara borð en áður hefur verið, þó að á sama tíma sé vitanlega verið að auka möguleika annarra til þess að búa við betri kjör. Það er svo sérkapítuli út af fyrir sig þegar verið er að ræða orkumálin hvað það skýtur skökku við, það ofurkapp sem manni skilst að sé lagt á það að selja okkar raforku til erlendra aðila, og færi betur á því að fjármagninu væri varið einmitt í þá átt sem hæstv. viðskrh. vék að og gera það þá svo myndarlega að allir gætu sem allra fyrst setið þar við sama borð.

Þessari grein hlýt ég að mótmæla algerlega. Menn hafa reiknað með þessu. Menn vilja ekki trúa öðru en að hlutur þeirra verði jafnréttur eftir sem áður gagnvart þessu, að svo miklu leyti sem mögulegt er, og þeir fái í einhverju bætta þá stórkostlegu olíuverðshækkun, sem orðið hefur frá því að þessi lög voru sett í fyrra.

Ég vil líka taka mjög eindregið undir það með hv. þm. Ragnari Arnalds, sem hann vildi fá ótvírætt fram hjá hæstv. viðskrh., um rafmagnshækkunina til húshitunar, þar sem hún hefur fylgt olíuverðshækkuninni, en það er mér kunnugt um að hún hefur gert mjög víða eystra. Menn hafa yfirleitt reiknað með því, að þar sem olíuverðshækkunin hefur komið þarna beint inn í, þá fengju þeir þetta að einhverju bætt, enda um það gefnar yfirlýsingar á ginum tíma. Og það er vissulega rétt og gott að fá um það upplýsingar hér einnig, hver séu hlutföllin í dag milli annars vegar kyndingarkostnaðar með olíu og svo aftur kostnaðar hjá þeim, sem hafa hitaveitu, hver hlutföllin eru í dag, miðað við þau hlutföld sem giltu á síðasta ári. Ég hygg nefnilega, að það fari ekkert á milli mála að þau hlutföll hafi raskast stórlega þeim í óhag sem við olíuverðshækkunina búa að fullu, Nú er sem sagt meiningin að öll hækkunin, sem hefur orðíð frá síðasta ári og þangað til nú, verði látin óbætt. Fólk á sem sagt að taka þessa stórkostlegu hækkun á sig og hljóta engar bætur fyrir þá hækkun sem orðið hefur. Þetta tel ég miður, og ég hefði ekki trúað því á hæstv. ríkisstj. og enn síður hefðu fylgismenn hennar trúað því að svo muni verða.