27.02.1975
Neðri deild: 48. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Páll Pétursson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjh.- og viðskn. fyrir að taka til greina beiðni mína um endurskoðun á þessu frv., einkum ákvæði 6. gr., sem hljóðaði svo í frv.: „Ríkisstj. er heimilt í samráði við Síldarverksmiðjur ríkisins að selja Síldarvinnslunni á Norðfirði vélar og tæki úr þeim verksmiðjum Síldarverksmiðja ríkisins, sem ekki er fyrirsjáanleg þörf fyrir á næstunni, með mjög hagstæðum greiðslukjörum. Ríkisstj. ákveður verð og greiðsluskilmála. „N. leggur sem sagt til, að þessi grein falli niður, og ég þakka henni kærlega fyrir að hún skuli hafa flutt þessa brtt.

Enn fremur vil ég lýsa ánægju minni með hina nýju 6. gr., sem þarna kemur, sem hljóðar svo:

„Stjórn Viðlagasjóðs er heimilt í samráði við stjórn Bjargráðasjóðs að bæta tjón, sem orðið hafa af náttúruhamförum eða verða annars staðar á landinu.“

Ég tel þetta fullnægjandi afgreiðslu með tilliti til bóta vegna húsanna, sem eyðilögðust í snjóflóðinu á Siglufirði, og ítreka þakklæti mitt fyrir báðar þessar breytingar.

Vegna stórlega villandi ummæla hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar um laun búnaðarþingsfulltrúa vil ég upplýsa eftirfarandi:

Laun búnaðarþingsfulltrúa eru greidd af fjárveitingu til Búnaðarfélags Íslands, og það er að því leyti rétt að laun þeirra eru greidd úr ríkissjóði. En það er hins vegar fjarri lagi að telja, að þessi laun séu sömu og laun alþm. Þan eru ekki miðuð að neinu leyti við launakjör alþm. Þau eru ákvörðuð á hverju þingi, hverju búnaðarþingi fyrir sig, og fulltrúarnir ákveða launakjör sín Ég vil til fróðleiks upplýsa þau launakjör sem giltu á síðasta búnaðarþingi, þ.e.a.s. búnaðarþinginu 1974. Þá var kaup fulltrúa, þ.e. dagpeningarnir, 1500 kr. á dag. Dvalarkostnað fengu þeir enn fremur greiddan, og húsnæði og fæði fengu þeir greitt og til þess fengu þeir 2100 kr. á dag. Heildarkostnaður við búnaðarþing 1974 var 2 millj. 120 þús. Þar í eru innifalin að sjálfsögðu laun þingfulltrúa og laun aðstoðarfólks sem þurfti að kaupa sérstaklega fyrir þinghaldið. Ferðakostnaður fulltrúa, útgáfa þingtíðinda, húsaleiga, sem sagt heildarkostnaðurinn var 2 millj. 120 þús. kr. Heildarkostnaðurinn á búnaðarþingi árið 1973 var 1 740 534 kr. Kostnaður við búnaðarþing þetta ár liggur að sjálfsögðu ekki fyrir, þar sem búnaðarþing er rétt að hefja störf, en ég get þó glatt hv. þm. Gylfa Þ. Gíslason og aðra þá hv. þm., sem kunna að telja þessar greiðslur eftir, með því, að þar mun sparnaðar verða gætt og nú er t.d. stefnt að því að ljúka búnaðarþingi á hálfum mánuði í staðinn fyrir að undanfarin ár hefur það staðið í 3 vikur.

Ég vil svo að endingu leggja sérstaka áherslu á það, að ég tel að búnaðarþing sé mjög mikilvæg stofnun og þeim peningum, sem til þess þinghalds er varið, sé vel varið. Ég bendi á, að störf Alþ., afgreiðsla mála á Alþ. er vandaðri og betur undirbúin einmitt vegna starfs búnaðarþings, þar sem búnaðarþing fjallar m.a. um þau nýmæli sem uppi eru í landbúnaðarmálum á hverjum tíma.