28.02.1975
Efri deild: 51. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 1985 í B-deild Alþingistíðinda. (1584)

168. mál, ráðstafanir vegna snjóflóða í Norðfirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að um það eru engar deilur með þm., eftir því sem ég best veit, að bæta beri hið mikla tjón í Norðfirði á þann hátt sem hæstv. ríkisstj. gaf loforð um, svipað og gert var í Vestmannaeyjum. Um það er ekki deilt. Reyndar má gjarnan fara að hugleiða það, hvar eigi að draga mörkin þegar um slík tjón eru að ræða. Það hefur viða um landið orðið mikið tjón nú í vetur í slæmum veðrum. Það er t.d. alveg ljóst, að Bjargráðasjóður ræður á engan máta við slík tjón. Hvar á að draga línuna? Hvenær fellur það undir Bjargráðasjóð og hvenær undir Viðlagasjóð? Á Viðlagasjóður að verða föst stofnun með kannske 1–2% söluskattsstig sem tekjur. Ég held að það sé kominn tími til að hugleiða þetta. Ég vil aðeins skjóta því hér að að það mætti e.t.v. efla Bjargráðasjóð, en þetta þarf allt að skoða.

Hins vegar stend ég fyrst og fremst upp til að lýsa andstöðu minni við að hækka söluskattinn um 1%. Ég hlustaði á einhvern reyndasta mann í verkalýðsmálum segja það nú fyrir tveimur kvöldum, að hann minntist þess varla að óskynsamlegra hefði verið gert í þeirri stöðu, sem nú er í verkalýðsmálunum, þeim samningum sem nú eiga sér stað, og ég vil taka undir það. Ég held að þetta sé rétt, enda hefur það komið greinilega fram í mótmælum sem borist hafa við þessari auknu skattheimtu. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því, að Viðlagasjóður þarf aukið fjármagn. Hann á að vísu miklar eignir, en þær heimtast ekki á þeim tíma sem nauðsynlegt er. Ég geri mér einnig grein fyrir því, að það væri æskilegt að Viðlagasjóður gæti lokið framkvæmdum sínum í Vestmannaeyjum á sem skemmstum tíma. Hins vegar tölum við mikið nú um nokkurn samdrátt í ýmsum framkvæmdum, og ég segi það í fullri hreinskilni, að mér sýnist engin ástæða til þess að ætla vestmanneyingum ekki einnig nokkra seinkun á sumum þeim framkvæmdum sem eftir eru, eins og ég geri ráð fyrir að þurfi að verða á ýmsum öðrum sviðum. Auk þess heyrist mér á blöðum að vestmanneyingar standi nú aðallega í málaferlum við Viðlagasjóð, svo að það er ómögulegt að vita hvað tekjuþörfin verður mikil endanlega. Það er leitt til þess að vita að svo skuli vera.

Viðlagasjóður skuldar töluvert í Seðlabankanum, áætlað 827 millj. í árslok 1975. Það er spurning hvort nauðsynlegt er að greiða þá skuld strax. Ég hef ekki séð nein rök færð fyrir því. Má sú skuld ekki standa eitthvað áfram?

Ég fyrir mitt leyti kýs helst í þessu sambandi að þetta 1% söluskattsstig verði framlengt ekki aðeins út þetta ár eða til 30. júní 1976, eins og hér er lagt til heldur til ársloka 1976, eins og raunar kom fram hjá hv. 1. landsk. þm. að hann væri tilbúinn að fallast á. Mér sýnist að með því móti náist endar saman hjá Viðlagasjóði. Þá stendur skuld Viðlagasjóðs við Seðlabankann lengur en verið hefur og seinka þarf einhverjum framkvæmdum í Vestmannaeyjum. Þetta hvort tveggja sýnist mér, miðað við það ástand sem nú er í þjóðfélaginu, eðlilegt og stórum æskilegra en að hækka söluskattinn eins og hér er lagt til. Auk þess sýnist mér það nú orðin mikil spurning, hvort ekki þarf að fara að taka söluskattinn sem slíkan allan til athugunar. 20% innheimta er ekki orðin lítil innheimta. Það er ekki orðið lítið verk fyrir verslunina að innheimta þessi 20%. Hvenær kemur að því að það verður að fara að greiða versluninni innheimtuþóknun? Mér verður sérstaklega hugsað til hinna fjölmörgu litlu verslana um land allt sem áreiðanlega eiga í þessu sambandi í mjög miklum erfiðleikum. Ég held að það þurfi að athuga hvort þarna á ekki að fara yfir í aðra skattaleið eða aðra innheimtuleið, eins og lengi hefur verið talað um, en ekki að hækka söluskatt svo jafnt og þétt sem verið hefur.

Ég fyrir mitt leyti hefði því kosið að fylgja brtt. um innheimtu þessa þannig að 1% söluskatturinn yrði framlengdur út árið 1976. Slík brtt. liggur ekki fyrir. Ég hef ekki kosið að flytja slíka brtt. sjálfur, en ég mun þá til vara — getum við sagt — fylgja brtt. á þskj. 334, a-lið. Ég treysti mér ekki til að fylgja b-lið. Við vitum að tekjur ríkissjóðs eru og munu reynast mjög af skornum skammti og ekki nægar til að ná þar endum saman. Ég held að það sé alveg ljóst, þrátt fyrir það sem hv. 1. landsk. þm. sagði, að það er veríð að skoða leiðir til þess að skera niður ríkisútgjöld og er ekki við því að búast að þessum 400 millj. verði bætt á ríkisbaggann í ár. Hins vegar er unnt að framlengja enn söluskattinn, ef þörf krefur, eftir 30. júní 1976 þannig að hann nái út árið. Hins vegar tek ég undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, ég mun að sjálfsögðu ekki standa gegn því að staðið verði við það loforð, sem gefið hefur verið um uppbyggingu á Norðfirði, og mun því greiða atkv. með frv. ef sú brtt. nær ekki fram að ganga sem ég hef lýst stuðningi mínum við.