20.11.1974
Efri deild: 8. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

11. mál, launajöfnunarbætur

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að svara flokksbróður mínum hér út af uppmælingaraðlinum, en tel að það sé ekki einungis nauðsynlegt hans vegna, heldur vegna almenns misskilnings um þessa hluti.

Ég veit ekki betur en að grundvöllurinn að öllum uppmælingarstarfsgreinum í landinu sé miðaður við meðalafköst í tímavinnu. Það er hins vegar rétt að menn leggja meira og harðar að sér eftir að þeir hafa öðlast uppmælingaraðstöðu og fá laun sín greidd skv. þeim töxtum, en kemur svo aftur fram í því að það er staðreynd að allur meginþorri þessara manna endist verr á almennum vinnumarkaði og meðaltala af síðustu könnun í þessum starfsgreinum var sú að menn væru orðnir óhæfir til ákvæðisvinnu eftir fimmtugsaldur, sem er náttúrlega léleg ending. Það er vegna þess að þeir hafa lagt meira að sér, slitið sér meira út meðan þeir höfðu þessa aðstöðu, sérstaklega á verðbólgutímum þegar eftirspurn er eftir vinnuafli.

Meginmisskilningurinn í þessum efnum er það að menn skammta sér sjálfir kaupið eftir að þeir eru komnir í uppmælingaraðstöðu frekar en í tímavinnu. Þess vegna verður tímakaup þeirra hærra vegna eigin álags. Þetta verða menn að hafa í huga og reikna með alveg rétt, eins og t.d. hjá flugmönnum, þeir hafa sérstaklega hátt kaup vegna þess hve starfsaldur þeirra er skammur. Menn verða að líta á þetta frá fleiri en einum reikningi sem að þeim berst. Það má t.d. segja með nokkrum rétti að öll sjómannastétt okkar vinni í ákvæðisvinnu. Berist mikill afli að eiga sjómenn undir höndum sínum og álagi, líkamlegu álagi og andlegu e.t.v. líka meðal skipstjórnarmanna, hvað mikið þeir geta á sig lagt þegar afli stendur skamman tíma. Þetta er að vissu leyti ákvæðisvinna. Með þetta í huga mega menn ekki tala eins og fyrrv. forseti Alþýðusambandsins gerði sem taldi þetta vera bölvald innan verkalýðshreyfingarinnar. Þetta er visst frjálsræði sem mönnum er skapað til þess að afla sér tekna með því að leggja á sig lengri vinnutíma, meiri vinnuhraða og erfiði sem þeir eiga vissulega að fá umbun fyrir og styttri starfsaldur. Þessar röksemdir verða menn að hafa í huga þegar þeir eru að ræða um ákvæðisvinnuna. Þar fá menn ekki — á það vil ég leggja ríka áherslu — í ákvæðisvinnu fá menn ekki nema fyrir það sem þeir afkasta. Í tímavinnu er hægt að vera án þess að afkasta neinu. Það tel ég þeim, sem þurfa að greiða vinnureikningana að lokum, verra en hitt, að þeir borga þó ekki ákvæðisvinnumanninum fyrir neitt annað en það sem hann hefur gert og liggur fyrir.