04.03.1975
Sameinað þing: 45. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2109 í B-deild Alþingistíðinda. (1680)

139. mál, lánveitingar úr Byggðasjóði

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Það er dálítið sérkennilegt að heyra í þessum Suðurnesjakór, og vantar nú ekkert nema fjmrh. og er hann þó sagður þeirra lagvissastur.

Sérkennilegt var að heyra til hv. 3. þm. Reykn. og hv. 5. þm. Reykn., því að báðir sneru þeir með ómerkilegum hætti út úr reglum og þeim orðum sem hafa fallið í þessu sambandi. 5. þm. Reykn. þóttist hafa heyrt að tilgangur sjóðsins væri að mismuna (Gripið fram í: Hefur þm. ekki heyrt það líka?) Ég veit hvað hv. þm. á við, en hann sneri út úr þeim orðum, sem þá voru sögð, og var gefin skýring á því, þannig að það er óþarft fyrir hann eftir þá útskýringu að hlaupa með það í hið háa Alþ.

Ég taldi ekki í mínum fáu orðum að reyknesingar hefðu það svo gott vegna álverksmiðjunnar að það þyrfti ekki endurnýjunar við á skipastól þeirra. Þetta lá ekkert í mínum orðum. Og það er alveg óþarft fyrir hv. 3. þm. Reykn., Gils Guðmundsson, að beina því til mín að ég vilji fylgja fram þeirri stefnu að reyknesingar nái ekki vopnum sínum í þessum efnum, vegna þess að ég hygg að aðrir geti staðfest það, að ég hef einna harðast beitt mér fyrir breytingu í þessu efni. Og hún hefur reyndar náð fram — það gerðist í morgun — sú breyting, að sú viðmiðun verði ekki lengur hjá Byggðasjóði að lána ekki til nýbyggingar skipa innanlands og endurbygginga á svæði frá Þorlákshöfn og að Akranesi. Þessi ákvörðun hefur verið tekin. Hitt er alveg ljóst mál, að þeir, sem Byggðasjóði stjórna, fara eftir þeim reglum, sem honum eru settar, og eðli málsins vegna hljóta að skoða hug sinn mjög vandlega áður en þeir fara að beina nokkru fjármagni, sem máli skiptir, inn á það svæði. Það vil ég að hv. þm. Reykn. festi sér í minni.