05.03.1975
Neðri deild: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2156 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Guðmundur H. Garðarsson:

Hæstv. forseti. Ég þakka að fá leyfi til að gera hér aths. og bera af mér sakir.

Vegna ummæla hv. 3. þm. Austf. um stöðu mína hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna þar sem ég hef starfað á annan áratug í fullu starfi áður en ég tók sæti á þingi, vil ég segja þetta: Ég tel mér heiður að því að hafa fengið tækifæri til að starfa í þágu íslensks fiskiðnaðar innan þessara sölusamtaka. Þjóðin hefur og getur verið stolt af störfum og árangri þessa fyrirtækis, en það er viðurkennt að það hafi náð mjög miklum árangri í sölu hraðfrystra sjávarafurða bæði í austri og vestri, þ. e. a. s. í Austur-Evrópu og Bandaríkjunum, og hafa allir sjútvrh. allt frá 1960 farið viðurkenningarorðum um störf þessa fyrirtækis. Ég vil svo segja það við þennan hv. þm., að ég á enga ósk honum betri til handa en þá, að fyrirtæki hans gerist aðili að þessum sölusamtökum, þannig að hraðfrystihúsinu á Kirkjusandi í Reykjavík megi vegna vel í nánustu framtíð.

Varðandi það sem hæstv. sjútvrh. sagði um afstöðu mína í þingflokki Sjálfstfl., þá ætla ég ekki að fara að tíunda í smáatriðum hvað þar gerðist. Hins vegar hlýt ég að segja það vegna ummæla hans hér áðan, að þegar hæstv. ráðh. kynnti þetta frv. í nóvemberbyrjun, þá las hann það upp og fór fljótt efnislega yfir frv. Ég minnist þess að ég spurði ráðh. um ákveðin efnisatriði sem hann svaraði fljótlega. Hins vegar vona ég að hæstv. ráðh., sem getur talað hér ótakmarkað, muni það einnig að ég skýrði honum frá því í desembermánuði, að eftir að hafa séð frv. prentað og eftir að hafa athugað það gaumgæfilega, þá gerði ég mér það ljóst — og ég ítrekaði það — þá gerði ég mér það ljóst að frv. bryti í bága við samvisku mína og stefnu þess flokks sem ég er á þingi fyrir, þ. e. varðandi það meginmarkmið Sjálfstfl. að hér á Íslandi skuli ríkja sem mest athafnafrelsi.

Síðan vil ég að lokum, hæstv. forseti, lesa það sem ég sagði í ræðu minni hér í d. 19. des.:

„Frv. það, sem hér um ræðir, lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Ég hef litið þannig á að þm. væru óbundnir þangað til kæmi að atkvgr. í þingsal, burtséð frá því hvað rætt er um í þingflokkum. Ég hef litið þannig á að þegar frv. eru kynnt, hvort sem er hér í sal eða á þingflokksfundum, þá gæfist þm. tími til umhugsunar og ákvörðunar síðar eftir því sem þeir hafa getað kynnt sér efni frv. betur og þá e. t. v. öðlast aðra skoðun eða staðfest betur sina fyrri skoðun á því hvaða afstöðu bæri að taka við atkvgr. Við nánari athugun sést að það frv., sem hér um ræðir, er raunverulega þess efnis að hér er um stórmál að ræða. Það er mjög stefnumarkandi og það getur haft mjög örlagaríkar afleiðingar til hins verra ef það verður samþ. í sinni upprunalegu mynd.“