06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2159 í B-deild Alþingistíðinda. (1721)

317. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Fyrirspyrjandi (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans og þá skoðun sem fram kom hjá honum, að hér væri um að ræða eitt allra stærsta viðfangsefni stjórnvalda í dag. Það er ljóst af þeirri upptalningu, sem fram kom í svari hans, að hér er um margþætt vandamál og viðfangsefni að ræða og þarf mikla vinnu og mikinn undirbúning, áður en hægt er að leggja fram frv. eða mótaðar till. um þetta efni. En ég fagna mjög þeirri yfirlýsingu hans, að stefnt skuli að því að leggja fram slík frv. og slíkar till. á næsta reglulegu Alþ. Ég er sannfærður um að þær till., ef þær verða í þeim anda sem fellur að skoðunum mínum og fram kom í máli hæstv. ráðh., munu valda þáttaskilum í stjórnkerfi hér á landi.