06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta það sem fram kom í máli mínu áðan, að það þýðir ekkert að segja að aldrei hafi vantað fjármagn hjá þeirri stofnun, sem hefur verið fjármögnuð á þennan hátt, sem raun ber vitni um og ég gerði stuttlega grein fyrir. Það er ekki þannig í rekstri okkar ríkisstofnana, að það séu þar tveir kassar, annar tómur kassi sem reksturinn á að greiðast úr og í hinn tilfellinu fullur kassi sem hægt er að greiða af stofnkostnaðinn. Þetta er ekki svona, heldur er þetta allt enn einfaldara, þetta er allt í samhengi. Það voru sérstakar tekjur ætlaðar til þess að standa undir stofnkostnaði við dreifingu sjónvarpsins á sínum tíma, og það voru tollar og aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum. En þegar innflutningur þeirra dróst saman, þá dró einnig úr þessari tekjulind og þá er það sem það gerist að hægir á útfærslu sjónvarpskerfisins og líka á styrkingu þess. Og þar sem það gerist á sama tíma, að svo er þrengt að útvarpinu eins og ég áðan lýsti, þá auðvitað styður það að þeirri þróun að hægja enn meir á þessum framkvæmdum, það fer ekki hjá því. Þessa yfirdráttarskuld, sem náði hámarki í 150 millj. heldur er þetta allt enn einfaldara, þetta er kr. í vetur þegar fór að nálgast gjalddaga, verður að greiða. Það er sveifluhreyfing í þessu. Það koma inn miklar tekjur á gjalddögum, en svo aftur minna þess á milli og þá myndast yfirdrátturinn. Það er alveg vonlaust að ætla sér að skýra þessa skuld með því, að útvarpið hafi farið svona mikið umfram áætlanir og sóað fé í dagskrárgerð og annað. Það hefur vafalaust farið eitthvað fram úr áætlun eins og annar rekstur sem fjallað er um í fjárlögum. En án þess að ég fari ítarlega út í þetta, þá minni ég á að eitt árið, 1972, afgr. við hér á hv. Alþ. Ríkisútvarpið með nálægt 50 millj. kr. halla vitandi vits. Þetta kunni ekki góðri lukku að stýra. Þess vegna er það, að ef við ætlum okkur að gera átak til að ljúka við að flytja sjónvarpið til allra landsmanna og til að endurbyggja dreifikerfið, sem nú þegar er komið á þann aldur að það þarf að fara að endurnýja það af eðlilegum ástæðum og það því fremur sem það var sett upp í nokkrum flýti í byrjun, þá verðum við að gera hvort tveggja, við verðum að tryggja til þess beinar tekjur að hluta, og ég er sammála hv. fyrirspyrjanda um það, að við hljótum einnig þar eins og annars staðar, þar sem um framkvæmdir er að ræða sem kosta töluvert fé, að byggja þær að nokkru leyti á lánsfé.

Þetta vildi ég láta koma fram í framhaldi af ummælum hv. fyrirspyrjanda áðan. Annars þakka ég honum fyrir að vekja máls á þessu, því að umræður um þetta atriði og þær upplýsingar eða skýringar, sem ævinlega koma fram í slíkum umr., hljóta að styðja að því að gert verði nauðsynlegt átak til að bæta úr ástandi sem er mjög slæmt, ekki aðeins á Austurlandi, í kjördæmi okkar hv. fyrirspyrjanda, heldur einnig mjög víða um landið.

Svona til gamans í lokin vil ég geta þess, sem er eiginlega svo ótrúleg saga að það er varla hægt að fara með hana úr þessum ræðustól, að til mín komu tveir menn í gær frá nýlega stofnuðu framfarafélagi í einu sveitarfélagi, Framfarafélagi Mosfellssveitar. Þeir sáu nánast ekki glóru í sínum sjónvarpstækjum þar og segjast hafa búið við mjög léleg skilyrði lengi. Það er nú það.