06.03.1975
Sameinað þing: 47. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2176 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

323. mál, sjónvarpsmál á Austurlandi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég veit að ég á ekki að hafa hér neinn teljandi ræðutíma og skal því ekki nota nema örstuttan tíma. Ég vildi aðeins segja það í sambandi við þær afsakanir, sem hér eru hafðar uppi um að ekki sé hægt að ráða bót á dreifingarmálum sjónvarps á Austurlandi, að það hafi orðið hallarekstur á sjónvarpinu, og því var m. a. skotið inn að þetta mundi að einhverju leyti stafa af því að ég hefði verið tregur til að leyfa hækkanir á gjöldum sjónvarps, — þá ætla ég aðeins að biðja menn um að athuga það, að tekjur sjónvarps og útvarps hafa hækkað meira en vísitölur sem ráða kaupgjaldi og öðru slíku á undanförnum árum. Það þarf að skoða það, hvernig menn verja þessum fjármunum, eins og hér hefur verið minnst á. Það á ekki að blanda saman rekstri fyrirtækis og stofnframkvæmdum. Það er röng stefn.a. Þeir, sem ætla að standa þannig að þessum málum að líta eftir í kassanum hvað mikið verður eftir til stofnframkvæmda, komast aldrei í stofnframkvæmdir.