10.03.1975
Neðri deild: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2236 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

167. mál, söluskattur

Eðvarð Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Það þarf ekki miklu við það að bæta, sem frsm. þessa frv. hefur þegar sagt, en þó vildi ég aðeins láta nokkur orð fylgja með.

Eins og hann tók fram hefur orðið á undanförnum mánuðum einhver sú mesta hækkun á framleiðslukostnaði hér á landi sem við þekkjum til. Þetta gerist á sama tíma og kaup hefur verið bundið, verðlagsbætur hafa ekki verið greiddar á kaup og samningar verkalýðsfélaganna frá í fyrravetur þannig að engu gerðir.

Það er ákaflega mikið talað um þá erfiðleika sem við sé að etja í okkar efnahagslífi. Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu nú. En þegar þannig er ástatt eins og nú er, að framfærslukostnaðurinn hækkar með þeim ógnarhraða sem verið hefur og kaup er bundið, þá er augljóst að það hlýtur að stefna að verulegu uppgjöri í launamálum.

Það hefur ekki verið sparað að leggja á það verulaga áherslu, að almenn laun væri ekki hægt að hækka eins og nú stæðu sakir. Þegar þannig er ástatt virðist alveg augljóst, að það verður þá að reyna að leita annarra leiða. Í þeim viðræðum og þeim kröfum, sem verkalýðshreyfingin hefur gert undanfarið, hefur það skýrt verið tekið fram, að hverjar þær félagslegar umbætur sem hið opinbera, ríkisstj., gæti af hendi látið yrðu metnar til jafns við kauphækkanir. Þá er augljóst, að einhvers konar niðurfærsla á verðlaginu virðist vera það sem hvað helst gæti til greina komið.

Það er að mínum dómi algerlega rangt í þeirri verðlagsþróun, sem búin er að vera hjá okkur í mörg undanfarin ár, að þá séu brýnustu matvæli heimilanna söluskattsskyld. Ég held, að þetta sé leið, sem bókstaflega aldrei hefði átt að vera farið inn á. Nokkur matvæli hafa verið undanþegin söluskatti og verið tekin út úr, þótt áður hafi verið söluskattsskyld, og það, sem þetta frv. leggur til, er einmitt að haldið verði áfram á þeirri braut og á matvælin verði ekki lagður söluskattur. Það virðist vera augljóst eins og verðlagsþróunin hefur verið allra síðustu mánuði, að þegar frá 1. ágúst og til 1. febr. hið almenna verðlag, eins og vísitalan sýnir það, hækkar um 25%, þá skuli matvælin, allra brýnustu nauðsynjarnar, hækka um hvorki meira né minna en rösklega 42%, þá virðist blasa við að hér verðum við að reyna að hamla á móti. Sumt af þessu getum við ráðið við í verðmynduninni innanlands. Annað er þess eðlis að við ráðum lítið við, eins og sumar erlendu vörurnar sem hafa hækkað gífurlega mikið. Við ráðum minna við það, þó að sú spurning vakni raunar að þegar brýnustu nauðsynjar fólks hækka um mörg hundruð prósent, þá eigi þeir, sem afgreiða vöruna, selja okkur vöruna, að fá sömu þóknun í prósentum talið og þeir höfðu meðan varan var á nokkurn veginn sambærilegu verði við aðrar vörur. Ég á hér t. d. við sykurinn og fleira mætti raunar nefna.

Það virðist þess vegna, að þegar við stöndum frammí fyrir vandamálum, eins og nú eru, þá sé einhver alveg sjálfsagðasta lausnin, sjálfsagðasta ráðstöfunin, sem þarf að gera, að reyna að færa niður eða halda sem allra mest í skefjum verðlaginu á allra brýnustu nauðsynjunum, matvælunum. Hækkun hefur orðið gífurlega mikil einnig á öðrum nauðþurftum, eins og rafmagni og hitunarkostnaði. Þegar það bætist við þau ósköp, sem matvælin hafa hækkað, þá sjá allir hve erfitt það hlýtur að vera, að þeir, sem minnstar hafa tekjurnar, geti náð endum saman við rekstur sinna heimila.

Þessi mál hefur allmikið borið á góma í þeim samningaviðræðum, sem farið hafa fram að undanförnu, öðrum þræði við atvinnurekendur beint varðandi kaupgjaldið og hins vegar einnig við stjórnvöld einmitt varðandi ráðstafanir sem gætu orðið til þess að auðvelda samninga, og sjálf kauphækkunin þyrfti ekki að vera í sama mæli og annars yrði, ef stjórnvöld koma verulega til móts við aðila vinnumarkaðarins. Hvort tveggja hefur verið rætt, niðurfærsla beinna skatta og einnig lækkun söluskatts og þá fyrst og fremst á nauðþurftum fólks. Ég ætla ekki hér að greina frekar frá þeim viðræðum, aðeins segja það, að mjög einfalt virðist vera í raun og veru að fara söluskattsleiðina. Hins vegar er hægt að lækka beina skatta með þeim hætti, að það komi þessu sama fólki verulega að notum. Ég ætla ekki að fara að gera hér upp á milli leiða nú. En alveg burtséð frá því, hvað kann að verða um þessi samningamál nú, þá tel ég vera alveg nauðsynlegt að Alþ. taki til alvarlegrar meðferðar hvort brýnustu lífsnauðsynjar fólks eigi að vera háðar söluskattsálagningu. Að mínum dómi eigum við að hverfa frá því, og því fyrr því betra. En ég þarf ekki að endurtaka það, sem hér var sagt áðan, að við verðum innan ekki langs tíma að fella niður tolla, og ef á að vinna upp þær fjárhæðir með auknum söluskatti, þá sjáum við hvert stefnir einmitt með þessar lífsnauðsynjar, og því fyrr sem Alþ. gerir þetta upp við sig, því betra.