11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

311. mál, lagning byggðalínu til Norðurlands

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Það er auðvitað rétt sem kom fram hjá hv. 6. þm. Norðurl. e., að mörgum kann að finnast það einkennilegt þegar það skeður nokkurn veginn jafnsnemma að byggðalína komi til að flytja rafmagn að sunnan og Kröfluvirkjun geti tekið til starfa. Vissulega er það rétt að æskilegra hefði verið frá þjóðhagslegu sjónarmiði að hafa nokkuð aðra röð þessara framkvæmda. En eins og málin hafa þróast hefur ekki verið hægt hjá því að komast. Á s. l. hausti, þegar ákveðið var af ríkisstj. að hraða framkvæmdum byggðalínunnar, lá það helst fyrir að Kröfluvirkjun mundi taka a. m. k. 4 ár. Hins vegar standa vonir til að henni geti orðið lokið fyrr.

En til viðbótar því, sem ég sagði áður varðandi Kröfluvirkjun, vil ég taka fram að það er einnig unnið að því að reyna að koma upp bráðabirgðavirkjun í Kröflu án þess að fullnaðarvirkjun tefjist á nokkurn hátt, þannig að þar yrði nú í haust unnt að framleiða nokkurt rafmagn — hefur verið talað um eina 6 mw. vél eða tvær 3 mw. eða eitthvað af þeim stærðum. Þetta mál er til könnunar og sumir eru bjartsýnir á að þetta megi takast. M. a. hefur stjórn Laxárvirkjunar haft mikinn áhuga á þessu efni og lagt fram mikla vinnu við það. Ég get ekkert um það fullyrt hvort úr þessu getur orðið, en það er unnið að könnun á þessu, sem að vísu mundi kosta allmikið fé, en ef hægt væri að hafa þetta færanlegar vélar sem unnt yrði að nýta annars staðar þegar Krafla er að fullu virkjuð, þá kæmi töluverður hluti af þeim kostnaði til baka.