11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

148. mál, orkumál Norðurlands

Heimir Hannesson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka frekari þátt í umr. um orkumál norðlendinga, enda er kannske mál að linni í bili. En ég gat ekki á mér setið að vekja athygli á ummælum hv. þm. Stefáns Jónssonar, þegar hann sagði: Við kotkarla er að eiga. — Ég er ekki viss um að hv. þm. noti þetta orðalag alltaf þegar hann er að ferðast um kjördæmið og tala við sína. (StJ: Ég sagði, að það væri ekki við kotkarla að eiga þar sem væri Alusuisse, og ég vænti þess að ræðumaður kunni að segja satt.) Það var ekki við kotkarla að eiga, nei.

Ég hjó eftir öðrum ummælum hv. þm. í sambandi við þær opinberu umr. sem átt hafa sér stað í sambandi við orkumál norðlendinga, og við skulum ekkert vera að leyna því um hvað er að ræða. Það var stjórn Laxárvirkjunar og formaður hennar sem lét frá sér fara opinber ummæli um þessi mál sem hann kallaði „ónefndir aðilar“. Ég held að það sé síður en svo, eins og hv. þm. Oddur Ólafsson hefur bent á, nokkuð óeðlilegt við það þegar erfiðleikar eru að það sé vakin athygli á því hvaða leiðir séu til ráða. Stjórnarformaður Laxárvirkjunar vakti athygli á að það væri tæknilegur möguleiki að auka orkuna með nokkurri stífluhækkun í Laxá, auðvitað ef samkomulag næðist, þannig að ég vil algerlega vísa því til föðurhúsanna að það sé verið að boða einhver lögbrot þarna. Mér finnst það mjög ómakleg ummæli hjá hv. þm., mjög ómakleg.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því í framhaldi af þeirri fsp., sem hv. þm. Oddur Ólafsson kom hér með, að þetta er að sjálfsögðu bara einn hluti málsins, sem bæjarstjórn Akureyrar vildi kanna og fól síðan stjórnarmönnum í Laxárvirkjun. Ég veit ekki betur en þær viðræður séu enn í gangi. Það var verið að kanna þann möguleika að koma upp nú á þessu ári 5 mw. samstæðu við Kröflu sem á þessu ári yrði tengd orkuveitusvæði Laxárvirkjunar. Þetta mál er, eftir því sem ég best veit, enn þá í athugun og var kannske það mál sem hefur haft mestan forgang af hálfu norðanmanna, þó að hinn möguleikinn hafi verið ræddur. Ég sé síður en svo nokkurt athugavert við það, þó að menn kanni alla möguleika þegar erfiðleikar eru, og vil að því leyti taka mjög undir það sem hv. þm. Oddur Ólafsson sagði áðan og fagna því.