11.03.1975
Sameinað þing: 49. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2278 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

326. mál, heildarlöggjöf um vinnuvernd

Karvel Pálmason:

Herra forseti, Á þskj. 287 er fsp. frá Jóni Baldvin Hannibalssyni, sem hér sat á þingi um tíma, um hvað líði samningu heildarlöggjafar um vinnuvernd.

Ég hygg að almennt séu menn um það sammála nú og hafi verið nokkuð langan tíma, að brýna nauðsyn beri til þess að koma á heildarlöggjöf að því er varðar vinnuvernd. Í stjórnarsáttmála fyrrv. ríkisstj. var upp tekið ákvæði þess efnis að sett skyldi alhliða löggjöf um vinnuvernd, og fyrrv. tveir félmrh., bæði Hannibal Valdimarsson og Björn Jónsson beittu sér fyrir því að undirbúningur að slíkri löggjöf yrði hafinn.

Einnig má minna á að í stefnuræðu núv. hæstv. forsrh. á s. l. hausti var og frá þessu greint og þar gert ráð fyrir að slík löggjöf yrði væntanlega lögð fyrir það þing sem nú situr. Hér er um mikið og brýnt mál að ræða og ástæða til að fá um það vitneskju, hvar á vegi það er statt, og því er þessi fsp. fram komin, sem sagt spurning um það, hvað líði samningu heildarlöggjafar um vinnuvernd, sem bæði var í stjórnarsáttmála fyrrv. ríkisstj. og er enn í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstj.