12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta geta verið tiltölulega fá orð. Hv. þm. Stefán Jónsson hefur þegar í ítarlegu og velrökstuddu máli komið inn á flest þau atriði, sem ég hefði viljað drepa á.

Það er þegar ljóst, að því skýrar sem þetta mál er dregið fram í dagsljósið, því meira óbragð er að því. Það þolir greinilega ekki fulla dagsbirtu. Og ýmislegt, sem kom fram í ræðu hv. þm. Stefáns Jónssonar, sem hefur haft mikið fyrir því að kynna sér þetta mál ítarlega og kynna sér það frá mörgum hliðum, — meginrökin í máli hans hafa sannfært mig um það, að málið þolir ekki fulla dagsbirtu. Það er m.a. þess vegna, sem ekki hefur verið orðið við því sem hann fór fram á, að þessu máli yrði frestað nægilega til þess að hið rétta og sanna í málinu mætti koma í ljós. Meginsjónarmiðin í hans ræðu voru og verða sönn, það má sem sagt ekki og á eflaust ekki að vinna að þessu máli á fullkomlega eðlilegan hátt. Það er þegar búið að dæma allt mengunartal sem markleysu eina og athugun öll í þeim efnum skal vera í lágmarki og síðan eigum við vitanlega að láta allt skeika að sköpuðu. Ég hefði sannarlega trúað þessu á hv. þm. Steingrím Hermannsson. Ég efast enn um það, að hann sé í hjarta sínu sannfærður um að allt sé í lagi. Eða á þetta bara að fara í gegn hvað sem öllum aðvörunum líður og við svo súpa seyðið af síðar, eins og hefur verið um önnur mál skyld þessu?

Ófagur var vitnisburður hv. þm. Stefáns Jónssonar um þennan auðhring, Union Carbide, og ekki til að vekja traust á honum þrátt fyrir ýmis falleg orð, sem hv. síðasti ræðumaður lét hér falla um ameríska kaupsýslumenn og þá aðallega, að mér skildist, kappgirni þeirra og hörku. En það, sem hv. þm. Stefán Jónsson kom hér inn á, var ekki fallið til þess að vekja traust á þessu fyrirtæki, síst á því sviði sem ég óttast mest að vanefndir verði á, þ. e. a. s. varðandi mengunina. Og ég dreg enga dul — frekar en ég gerði hér við 1. umr. málsins — á ótta minn við áhrif erlends fjármagns á íslenskt atvinnulíf. Það þarf engin ósköp til í okkar þjóðfélagssmæð, að um ofurefli verði að ræða. Og ef þetta er fyrsti áfanginn í sókn til erlendrar stóriðju hér á landi, eins og manni virðist vera, þá gæti svo farið, að það yrði þröng fyrir dyrum ýmissa, jafnvel þeirra sem dá og dýrka nú stefnu hins erlenda fjármagns inn í íslenskt atvinnulíf. En sem sagt, ítarleg ræða Stefáns Jónssonar var þannig, að ekki þarf þar um að bæta. Ég dreg hins vegar enn þá í efa þjóðhagslega hagkvæmni þessarar framkvæmdar. Enn hefur þessi stóriðja og nauðsyn orkusölu til hennar umfram okkar eigin þarfir til brýnustu nauðsynja mitt í allri olíukreppunni — þessi staðreynd hefur enn ekki verið rökstudd svo, að hún komi inn í mitt höfuð sem heilagur sannleikur. Eitthvað er þar, sem hljómar ekki nógu sannfærandi og samrýmist ekki fullkomlega öllu talinu um orkuskort okkar sjálfra, og eitthvað einnig, sem ekki kemur heim og saman að mínu mati. Og fjáröflun okkar til þessara framkvæmda, sem var rakin allnákvæmlega af hv. síðasta ræðumanni, kemur ekki heldur heim og saman við neyðaróp stjórnvalda um fjármagnsskort og væntanlegan niðurskurð opinberra framkvæmda. Þegar hinn margvísi talsmaður stórkapítalísmans, sem hér var að ljúka máli sínu, hefur lýst fjármálahlið samninganna eins sannfærandi og hann gerði, þá hrekkur maður enn meira við og spyr sjálfan sig enn og aftur: Hvað ræður ferðinni, hvað veldur þessum ákafa að koma þessu í gegn? Það er greinilegt, að hvað sem öllu öðru líður, hversu mikið ósamræmi sem er í hverju einu sem snertir þetta mál, þá er greinilegt að þetta mál á og skal fram, og sá grunur læðist óneitanlega að manni, að svo mikla faðerniskennd hafi hv. þm. Steingrímur Hermannsson gagnvart þessu afkvæmi að það ráði ferðinni óþægilega mikið hjá þessum hv. þm.

Ég hélt sannarlega, að hið breytta ástand á öllum sviðum hlyti að kalla á endurmat, einnig gagnvart þessu máli, og það endurmat sýnist mér ekki hafa farið fram. Það endurmat hefði mér sýnst átt að fara fram, hefði verið frumskylda stjórnvalda að sjá innlendum aðilum fyrir nauðsynlegri orku umfram alla útlenda aðila eða aðila, sem við værum í samtengingu við. Og hvað sem öllum bréfum líður um að orkusala til útlendinga útiloki ekki sölu raforku til húshitunar, þá verð ég að lýsa því yfir að mig varðar ekkert um slík skrif. Mig varðar einungis um það, að íslendingar hafi forgang að þessari orku og við eigum að nýta þá orku á þann besta veg fyrir okkur, sem við mögulega getum. Þar eru vissulega stór verkefni í dag, sem bíða og þarf að sinni, en ég efast sannarlega um að verði sinnt eins vel, þegar þessi stefna er tekin. En það er fleira, sem bendir í þá átt, að það eigi ekki að huga eins rækilega að eigin orkuþörf, það eigi að fara inn á nýjar brautir.

Við 1. umr. þessa máls var ég með ýmsar fsp. sem snertu ekki þetta mál beint, og hæstv. iðnrh. greindi mér þá frá því, að hann mundi svara fsp., sem ég þá beindi m. a. til hans. Síðan hefur ýmislegt orðið þann veg, að ég ítreka þessar spurningar og æski svara. Í síðasta sunnudagsblaði Morgunblaðsins birtist erindi Jóhannesar Nordals, fagnaðarboðskapur hans til fundarmanna á þingi Sambands ísl. rafveitna, og þessi fagnaðarboðskapur bendir allur í þá átt, sem ég vék að við 1. umr. málsins. Aðalatriði þessarar hugvekju seðlabankastjórans eða hrollvekju, sem kannske væri nær að kalla hana, er aukin stóriðja. Og ég sé ekki neina fyrirvara þar á. Ég sé ekki rúmast þar neina viðvörun um mengun eða hættu á því að lífríki Íslands bíði tjón af þessari stóriðju, því síður að stóraukin þátttaka erlends fjármagns í íslensku atvinnulífi boði neina vá. Fagnaðarerindi skal það allt vera að dómi seðlabankastjóra, sem jafnframt er formaður stóriðjunefndar. Þarna virðist fulltrúi Mammonshugmynda einna tala. En orð þessa manns verða ekki tekin sem markleysa, sem óskbyggja. Það hefur áður á sannast að hann hefur meiri lög að mæla en landsfeður sjálfir, að því er virðist.

Ég ræddi við 1. umr. um Austurland, sem ég tel nátengt þessu máli, nátengt þann veg, að málmblendiverksmiðja í Hvalfirði hlýtur að skoðast sem fyrsti áfangi í nýrri stórsókn stóriðju á Íslandi, meira og minna erlendrar stóriðju. Það bendir margt til þess einmitt í þessari tilvitnuðu grein, að mest verði um það hugsað, að erlent fjármagn verði í framtíðinni í meiri hluta, enda margoft komið fram að þessi valdamikli embættismaður, sem ég vitna hér f, telur engin tormerki á því, nema síður sé. Mig langar til að koma fram með nokkrar aths. varðandi grein þessa og vona, að hæstv. iðnrh. taki þar af öll tvímæli um þau atriði.

Það er rétt, það hafa verið sett lög um Bessastaðaárvirkjun, heimildarlög, en ákvörðun um framkvæmdir vantar að sjálfsögðu. Ég fagnaði því mjög, hversu hæstv. ráðh. brá vel við í haust varðandi þessi áform austfirðinga. Nú segir í grein Jóhannesar Nordals, að hugsanlegt sé, að Bessastaðaárvirkjun biði væntanlegrar stórvirkjunar á Austurlandi. Og óskhyggjan er sterk og orðin verða ekki talin markleysa. Ég vona satt að segja að hæstv. ráðh. afneiti þessu með öllu. Í greininni er lögð tvívegis sérstaklega þung áhersla á það, að gífurlegt starf sé óunnið á Austurlandi í sambandi við rannsóknir á stórvirkjun þar. Í framhaldi af því, sem kvisast hefur æ ofan í æ um tilboð erlendra aðila um hlutdeild í virkjunarrannsóknum eystra, bæði hvað snertir fjármagn og tækniþekkingu, þá hvarflar að mér, hvort hér sé verið að þrýsta á að nota þessa möguleika til að flýta þessu mikla starfi, þessu gífurlega óunna starfi, þ. e. a. s. taka hverju sem býðst, jafnvel því að erlendir aðilar ráði ferðinni meira og minna. Við 1. umr. þessa máls kom afneitum hv. þm. Steingríms Hermannssonar mjög sterkt hér fram og ég vil fá jafneindregna afneitun hæstv. ráðh. á því, að útlendingar komi ekki inn í þessar virkjunarrannsóknir okkar, eins og maður er ætíð að heyra meira og minna um. Og þó að það snerti ekki beint þetta mál, þá minni ég enn og aftur á það til þess að þurfa ekki að gera um það sérstaka fsp. í þinginu því að annars hefði ég verið til þess neyddur, að áætlun um erlenda stóriðju á Reyðarfirði vekur mér ætíð jafnmikinn ugg. Og Jóhannes Nordal seðlabankastjóri gerir svo sannarlega ráð fyrir stóriðju við Reyðarfjörð einan staða á Austurlandi, og það hlýtur að vera, að þar sé um mikil áform að ræða í tengslum við þá stórkostlegu virkjun, þ. e. a. s. Austurlandsvirkjun hina stærstu, sem Jóhannes hefur greinilega í huga. Þetta fer mjög í takt að vísu við till. þá sem hefur verið flutt í Nd. nú í annað sinn af hv. þm. Sverri Hermannssyni, sem er greinilega á sömu skoðun. Og það samræmist vel umleitunum útlendinga um það að komast í samband við okkur á Reyðarfirði um að koma á fót þar orkufrekum iðnaði.

Hv. þm Steingrímur Hermannsson sagði, að fyrirheit um þetta væru engin. Ég var nú að vona að hann segði, að þau mundu ekki verða gefin. Spurningin verður þess vegna: Verða þau gefin í framtíðinni, fyrirheit um þessa stóriðju, og verður Austurlandsvirkjun skoðuð eingöngu með þetta í huga? Ég vara hér við í fullri einlægni. Mér er annt um þennan stað, mér er annt um lífríki hans, mér er annt um byggð hans í dag, og mér er annt um eðlilega þróun þessarar byggðar. Ég mun því beita mér eystra sem annars staðar gegn öllum áformum um stóriðju á þessum stað, beita öllum áhrifum mínum til þess að koma í veg fyrir öll þau áform, sem ekki eru innan þeirra takmarka, sem ég tel fullnægjandi. Eina hugsanlega iðjuverið væri í mínum huga nú áburðarverksmiðja af smærri gerð. Við risaáformum vara ég og vildi gjarnan ítreka spurningar mínar til hæstv. iðnrh. þar af leiðandi og fá um þær svör frá honum, því að glöggt er hvað seðlabóndi hyggst fyrir, og þá verður annarra hlutskipti að hafa fyrir honum og öðrum stóriðjupostulum eitthvert vit. Afgreiðsla málblendimálsins bendir ekki til þessar vitrænu leiðar því miður, og því er uggur minn um Reyðarfjörð meiri en ella.