12.03.1975
Efri deild: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2350 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

149. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka iðnn. þessarar hv. d. fyrir störf hennar og sérstaklega form. hennar og frsm. N. hefur lagt mjög mikla vinnu í könnun þessa máls, og eins og kom fram í ræðu hv. frsm., kallað fyrir sig fjölmarga aðila og aflað hinna margvíslegustu upplýsinga.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. lýsti sig andvígan því, að ríkið eða ríkissjóður tæki þátt í svona stórfelldum atvinnurekstri, ætti meiri hluta í þessu fyrirtæki. Ég skil sjónarmið hans ákaflega vel. Nú er það þannig að ég tel það mikils virði og í rauninni frá mínu sjónarmiði er það eðlilegt og sjálfsagt að íslendingar eigi meiri hluta þess fyrirtækis sem hér er um að ræða. Þá er spurningin að vísu hvort mætti fullnægja því sjónarmiði á annan veg en hér er gert ráð fyrir, þannig að það væri ekki aðeins íslenska ríkið, sem þar kæmi til, heldur að almenningi væri t. d. einnig gefinn kostur á að kaupa hlutabréf í þessu félagi. Ég teldi margt mæla með því að slíkt væri heimilað. Hvort þetta yrði gert að almenningshlutafélagi, þ. e. hluti íslendinga í þessu, að hve miklu leyti ríkið væri þar aðili eða almenningur, skal ég ekki ræða hér, en mér finnst það vissulega vera til athugunar og vek athygli á því að í lok 2. gr. frv. segir: „Þó skal ekki minna en 51% af hlutafé félagsins jafnan vera í eigu ríkisins“ o. s. frv. „nema samþykki Alþingis komi til.“ Ef Alþ. vill getur það auðvitað á hvaða stund sem er breytt þessu þannig að það sé ekki ríkissjóður einn, sem þarna eigi hlut að máli, heldur geti íslendingar, íslenskir ríkisborgarar, keypt þar hluti. En þá þarf alveg sérstaklega að hafa eitt í huga sem er grundvallaratriði. Þar sem hinn erlendi aðili mun eiga 45% af fyrirtækinu, þá þarf að tryggja að hinir íslensku aðilar, ríkið og þeir aðrir sem síðar kynnu að koma til, kæmu fram á hluthafafundi og aðalfundi sem einn aðili. Það þarf því, ef að þessu ráði yrði síðar horfið, að gefa t. d. almenningi kost á að eignast hlut í fyrirtækinu, að ganga þannig frá, að allir þessir íslensku aðilar kæmu fram sem samaðilar eða sem einn aðili á slíkum fundum til þess að tryggja rétt og hlut Íslands í þessu efni.

Það voru nokkrar fsp., sem hv. 7. landsk. þm., Helgi F. Seljan, bar fram til mín. Hann vék fyrst að hugvekju Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra, sem hann kallaði svo, í sunnudagsblaði Morgunblaðsins, þ. e. erindi sem hann flutti á ráðstefnu Sambands ísl. rafveitna. Hv. þm. undraðist mjög að Jóhannes Nordal skyldi í erindi þessu ræða mjög um stóriðju og möguleika á því sviði. Þetta kemur mér dálítið spánskt fyrir. Svo er nefnilega mál með vexti, að eitt af fyrstu verkum vinstri stjórnarinnar, sem þessi hv. þm. studdi eindregið alla tíð, var að skipa nefnd manna til þess að kanna möguleika á orkufrekum iðnaði hér á landi, m. ö. o. stóriðju. Hún skipaði Jóhannes Nordal sem formann þeirrar n., viðræðunefndar um orkufrekan iðnað. Verkefni hennar var að kanna hvaða erlendir aðilar hefðu áhuga á að ráðast í orkufrekan iðnað og nýta til þess íslenska orku. Í rauninni má segja að þetta erindi Jóhannesar Nordals og hugleiðingar hans um stóriðju séu að nokkru leyti árangur af því starfi sem vinstri stjórnin fól honum haustið 1971. Þess vegna er næsta furðulegt að þessi hv. þm. skuli lýsa undrun yfir því að formaður þessarar n., sem átti að gegna þessu hlutverki, skuli skýra frá því hvað í n. hafi verið rætt í þessum efnum.

Hv. þm. sagði að það veki alltaf ugg í sínu brjósti þegar nefnd er stóriðja við Reyðarfjörð, því að hann væri andvigur stóriðju og mundi beita sér gegn allri stóriðju. En þó gerði hann þar á eina undantekningu, og það er áburðarframleiðsla sem er ein tegund stóriðju. Nú er að vísu fullkomin ástæða til þess að ræða hér nokkuð ítarlega hugtökin iðja eða almennur iðnaður og stóriðja, og ég get tekið undir flest af því sem hv. frsm. meiri hl. sagði um það efni nú áðan. Það er auðvitað ákaflega erfitt að setja þar mörk, hvað er iðnaður, hvað er almenn iðja og hvað er stóriðja. Sementsverksmiðjan var talin stóriðja á sínum tíma, áburðarverksmiðjan var það líka. Það var á sínum tíma talað um stórútgerð hér á landi sem þýddi það, að togarar voru gerðir út gagnstætt bátaútgerðinni. Þegar talað er um stóriðju þá er auðvitað ákaflega erfitt að setja þar takmörk. En það kemur sem sagt í ljós, bæði hjá þessum hv. þm. og eins hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefáni Jónssyni, að þeir virðast vera á móti því sem þeir kalla stóriðju, nema það sé áburðarframleiðsla. Vegna þess að þeir leggja svo gífurlega áherslu á ótta sinn við mengun og andstöðu gegn hvers konar náttúruspjöllum, þá blasir við augum allra manna hér sá reykur sem kemur jafnan frá áburðarverksmiðjunni í Gufunesi, og býst ég við að þar séu ýmis efni í sem ekki er sérstök hollusta fyrir mannfólkið. En aldrei hefur heyrst frá þessum hv. þm. að nauðsyn væri á því að reyna að breyta þar til, heldur vilja þeir meiri áburðarframleiðslu. En látum það liggja á milli hluta. Þeir eru á móti stóriðju, nema það sé áburðarverksmiðja.

Spurningin er þá sú, hvort það á að koma inn í undanþágur hjá þeim t. d., ef hafin væri í stórum stíl framleiðsla á heykögglum eða fóðri eða t. d. ef hafin væri í stórum stíl ylrækt, eins og mjög hefur komið til orða, ýmist með notkun raforku eða jarðhita. Talið er af kunnugum mönnum, að hér megi framleiða grænmeti og önnur matvæli í stórum stíl, ekki aðeins til innanlandsnota, heldur og til útflutnings. Það er ein tegund stóriðju. Ég held, að það væri þörf á því einhvern tíma, hvort sem það verður nú eða síðar, að þessir hv. þm. gerðu okkur grein fyrir því, hvað þeir í rauninni eiga við með andstöðu sinni gegn stóriðju, hvort það er mengunarhættan, sem af henni kann að stafa, eða hvort það er öllu heldur hitt, að þeir séu andvígir því að erlent fjármagn komi til í því sambandi.

Loks var fsp. frá hv. 7. landsk. þm. út af því, hvort erlend fyrirtæki mundu eiga að annast hér rannsóknir eða ráða stefnu í rannsóknum á virkjunarmöguleikum íslendinga að meira eða minna leyti. Hann krafðist yfirlýsingar frá mér í þá átt að erlendir aðilar megi á engan hátt koma inn í virkjunarrannsóknir íslendinga. Ég held að hv. þm. hafi ekki gert sér grein fyrir hvað hann er í rauninni að spyrja um. Við virkjunarrannsóknir hér á landi, áætlanir og hönnun ýmissa stærri mannvirkja hafa útlendingar og útlend fyrirtæki verði meira og minna notuð og eru, án þess að nokkurn tíma hafi verið að því fundið af hálfu þessa þm. eða hans flokksbræðra. Þannig má nefna t. d., að við undirbúning Sogsvirkjananna allra voru hafðir erlendir ráðunautar varðandi rannsóknir og alla hönnun þeirra mannvirkja. Það voru aðallega norsk fyrirtæki. Þegar undirbúin var virkjun Þjórsár, hin fyrsta, þ.e. a. s. við Búrfell, voru íslenskir verkfræðingar að sjálfsögðu þar við störf, en það var fengið stórt bandarískt fyrirtæki, Harz að nafni, til ráðuneytis um þessar rannsóknir og alla áætlunargerð. Varðandi undirbúning Sigölduvirkjunar var ráðið til aðstoðar svissneskt fyrirtæki, sem heitir Electrowatt, til að annast meira og minna, að sjálfsögðu eins og áður í samráði við íslenska verkfræðinga og aðra sérfræðinga, undirbúning og hönnun að Sigölduvirkjun, og sú ákvörðun var tekin af vinstri stjórninni. Þegar ákveðið var að ráðast í Kröflu, og Kröflustjórn ákvað að semja við ágætt og viðurkennt og reynt íslenskt ráðgjafarfyrirtæki, þá þótti óhjákvæmilegt að hafa þar einnig bandarískt ráðgefandi fyrirtæki með í ráðum. Var það sameiginlegt álit bæði þessa íslenska ráðgjafarfyrirtækis og Kröflustjórnar.

Mér er því ekki alveg ljóst hvað hv. þm. á við, ef hann ætlast til þess að erlendir aðilar megi aldrei koma nálægt neinum virkjunarrannsóknum á Íslandi eða áætlanagerð. Auðvitað verður að stefna að því að íslensk ráðgjafarfyrirtæki og íslenskir sérfræðingar verði fyrst og fremst við slík störf og að þeir fái bæði sín tækifæri og kraftar þeirra og þekking verði nýtt. Í annan stað er sjálfsagt, nú eins og verið hefur og hlýtur að verða, að það séu íslensk stjórnvöld sem ráði stefnunni og hafi alla yfirstjórn á slíkum málum. Það verður að sjálfsögðu áfram eins og verið hefur. Hins vegar get ég ekki gefið neinar yfirlýsingar um það, að erlendir aðilar, sérfræðingar eða ráðgjafarfyrirtæki, megi aldrei koma nálægt neinum rannsóknum eða virkjunaráætlunum á Íslandi. Það held ég að væri ekki Íslandi í hag fremur en það hefur þótt hingað til, m. a. við undirbúning þeirra stórvirkjana sem ég þegar hef nefnt. Hins vegar vil ég undirstrika það, svo að það valdi ekki neinum misskilningi, að að sjálfsögðu verður öll yfirstjórn og allt ákvörðunarvald og öll stefnumörkun í þessum málum í höndum íslenskra stjórnvalda og hvergi annars staðar.