12.03.1975
Neðri deild: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2364 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

179. mál, sveitarstjórnarlög

Garðar Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég þóttist hafa beðið um orðið áðan með því að berja myndarlega í borðið, og ég hélt að hæstv. forseti hefði tekið eftir því. En ég ætla aðeins að segja örfá orð í sambandi við þetta frv. sem hér er enn komið á dagskrá og enn borið fram illu heilli.

Þetta mál hefur komið fyrir þingið tvisvar sinnum og í hvorugt skiptið náð fram að ganga, og við þetta frv., eins og það lítur út núna, hafa fjölmargir menn gert rökstudda aths. og þ. á m. stjórnlagafræðingurinn Ólafur Jóhannesson, núv. hæstv. ráðh., fyrrv. félmrh. Hannibal Valdimarsson og margir aðrir. Bent hefur verið á marga galla í þessu frv. og það hefur komið í ljós að ágreiningur er um mörg atriði í frv., bæði innan þings og meðal þeirra sem þetta mál skiptir svo miklu. Samt sem áður leyfa þeir sér að koma með frv. gersamlega óbreytt, lagfæringalaust, og vekja upp drauginn í annað sinn, — var þó síður hér að fornu að vekja ekki upp sama drauginn nema einu sinni. Ég vil aðeins minna á nokkur atriði, sem mér finnst athugaverð í þessu frv., og hef tekið kostinn að taka greinarnar í þeirri röð, sem þær eru í frv.

Ef við tökum 1. gr., þ. e. a. s. 110. gr., sem á að skjóta inn í núv. sveitarstjórnarlög, þá ern talin upp þau landshlutasamtök sem ákvæði þessara laga eiga að gilda um. Og þá er enn aðeins talað um Fjórðungssamband norðlendinga og þýðir það að eina kjördæmið, sem ekki á að hafa sér landshlutasamtök, er Norðurl. v. Þm. Norðurl. v. gerðu auðvitað mjög ákveðnar aths. hér bæði í hittiðfyrra og í fyrra þegar þetta mál var til umr., en þetta hefur ekki verið lagað. Geri ég ekki ráð fyrir að þeir muni sætta sig við það nú, enda lágu fyrir, þegar þetta frv. var rætt fyrst, mótmæli frá bæjarstjórn Sauðárkróks sem hv. þm. geta kynnt sér með því að fletta umræðukafla þingtíðinda frá þeim tíma.

Í næstu gr., sem er mjög alvarleg að mínu mati, segir í fyrri setningu að sérhvert sveitarfélag eigi að skylda til þess að eiga aðild að samtökum sveitarfélaga í sínum landshluta. Það eiga alls ekki öll sveitarfélög í landinu hlut að þessum samtökum. Og af hverju skyldu þau ekki eiga hlut að samtökunum? Ósköp einfaldlega vegna þess að þau vilja það ekki. En nú leggja þessi menn til að það eigi að skylda sveitarfélögin til þess að taka þátt í þessum samtökum. Ég sé á listanum yfir flm. að þar eru tveir hv. þm. Sjálfstfl. Hvar er nú frelsishugsjónin sem þeir hafa haft mjög hátt um að undanförnu? Nú er það valdboðið sem skal gilda. Það á að skylda heil sveitarfélög í landinu, fjölmörg sveitarfélög, til þess að taka þátt í þessum hrærigraut. En þessum hv. þm. er að sjálfsögðu alveg sama um allt frelsi ef þeim býður svo við að horfa, og það vissum við reyndar fyrir.

Í síðari setningunni kemur á fyrsta stað í frv. það sem á eftir að koma oftar í því, það eru heimildarákvæði. Og heimildarákvæðin gera frv. allt svo loðið og laust í reipunum að ef hlutaðeigandi landshlutasamtök fara eftir öllum þeim heimildum sem þarna eru, þá verða þau kannske ekkert lík þegar upp er staðið. Það er svo margt sem getur verið með sitt hvorum hætti og skal ég kannske víkja að því síðar. En þarna er heimilt að veita sýslufélögunum aðild, en það er ekki skylt.

Í 112 gr. eru í 4 liðum talin upp hlutverk landshlutasamtaka. Sannleikurinn er sá að þetta er geysilega fallegur listi, eiginlega hreinn óskalisti. Og það er: að vinna að sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga og héraða í umdæmum sínum og landshlutans alls, — þetta minnir mann á framför landsins alls sem var eitt aðalstefnumál Framsfl. í kosningunum, — að vinna að áætlanagerð — að vinna að öðrum verkefnum, að vinna að framkvæmdum. Það er unnið að öllum þessum hlutum og það verður ekkert öðruvísi né betur unnið að þessum hlutum jafnvel þótt þessi lög verði samþ. Landshlutasamtök sveitarfélaga hafa þegar starfað í mörg ár og virðist það alls ekki hafa verið þeim neinn fjötur um fót þótt þau hafi ekki fengið lögfestingu. Það væri kannske einhver munur á hv. „lobbíistum“ frá Fjórðungssambandi Norðurlands eftir því hvort þeir væru lögfestir hér í stólnum niðri í gangi eða ekki. Ég sé enga þörf á því og engan mun á því hvort þessi landshlutasamtök fá lögfestingu eða ekki.

Í 113. gr. er fjallað um kosningar, hvernig kjósa á fulltrúa á aðalfund samtakanna. Sannleikurinn er sá, að þeir, sem hafa kynnt sér þessa hluti, gera sér grein fyrir því að kosningar á þessar samkomur eru ekki með lýðræðislegum hætti. Þær eru ekki þannig að raunverulegur styrkleiki stjórnmálaflokkanna komi þar fram, það vitum við. Og það væri hægt að kjósa í þessar stofnanir með miklu lýðræðislegri hætti. En hvað varðar þessa menn um lýðræði þegar þeir eru búnir að kasta frá sér frelsinu, hv. þm. Sjálfstfl.? En þó er þarna talinn upp mjög ákveðinn og fastur listi, hvernig kjósa á í hinum ýmsu sveitarstjórnum. Það er eftir höfðatölureglunni og nákvæmlega tilgreint hvernig að skuli farið. Þá vekur það kannske hjá manni í fyrsta skipti einhverja von um að þarna séu þessir hv. flm. loksins búnir að festa sig við eitthvað. En lesi menn aðeins lengra, þá kemur þó í ljós ein heimildin enn þrátt fyrir nákvæma niðurskipan á kosningaaðferðinni. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „En heimilt er einstökum landshlutasamtökum að ákveða fulltrúa með öðrum hætti en greint er í 2. mgr., enda séu ákvæðin um það í samþykktum samtakanna, sem ráðh. staðfesti.“ Það má eftir þessu kjósa í þetta hvernig sem hverjum sýnist þrátt fyrir nákvæma upptalningu áður. Þetta er glundroðinn. Það virðist nefnilega vera að þessir hv. þm. kæri sig ekkert um frelsið þar sem það skiptir máli en vilji aðeins það frelsi sem hefur í för með sér glundroða. Og svo er hér viðtengingarháttur í annarri hverri setningu, t. d.: „Eigi sýslufélög aðild, þá skal“ o. s. frv. Og það segir ekkert annað en það, að þarna er enginn hlutur fastákveðinn, allir hlutir loðnir og eins og í þoku, og minnir á minkabú í rigningu.

Í 114. gr. er rætt um stjórn á þessum landshlutasamtökum. Það skyldi nú auðvitað vera að menn hefðu eftir þriggja ára umhugsunartíma og dygga þjónustu við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga nú loksins komið sér niður á það hversu margir skyldu stjórna þessum fyrirtækjum? Nei. Það segir í 2. mgr. 114. gr., með leyfi forseta: „Á aðalfundi skal kosin stjórn samtakanna, 5–11 menn.“ Þarna er verið að sveifla eins og menn sjá, enginn fastur punktur og allt á reki. Og ef lesið er áfram, þá kemur í ljós að þar kemur ein heimildin enn, að kjósa megi sér allt annað form á stjórn samtakanna með því að kjósa sér framkvæmdaráð. Hins vegar sé ég ekki nokkra ástæðu til þess að setja slíkt í lög, því að hvert einasta félag í landinu, stórt eða smátt, hvernig svo sem því er stjórnað eða hagað, má auðvitað kjósa sér framkvæmdastjórn, eins eða fleiri manna, og algerlega óþarfi að setja það í lög. En það virðist bara sett til að teygja eitthvað úr þessu frv. sem er hvorki eitt né neitt.

Í 115. gr. er auðvitað og ætti að vera langmerkilegasti og nákvæmasti kaflinn, þar sem fjallað er um tekjur samtakanna sem einhverjar þurfa að vera til þess að halda uppi starfsemi þeirra. En tekjur samtakanna samkv. þessari gr. geta auðvitað verið með hvaða hætti sem er, því að þær eru samkv. samþykktum aðalfundar hvers sambands út af fyrir sig. Og í 116. gr. er dregið saman í nokkrum setningum að allt sé heimilt alls staðar: „Nánar skal kveða á um skipulag og stjórn einstakra samtaka“ o. s. frv.

Herra forseti. Þetta frv. hefur ekki náð fram að ganga á undanförnum þingum af eðlilegum ástæðum, vegna þess að mætustu menn hafa bent þessum villuráfandi hv. flm. á að það væri engin þörf á þessu frv. nú. Það er unnið að heildarsamræmingu í sambandi við sveitarstjórnarmál á Íslandi, samskipti ríkis og sveitarfélaga, og þess vegna mundi ég álíta að það væri hæfilegur dráttur á þessu frv. að leyfa því að bíða þangað til þeirri endurskoðun er lokið. Ég mun ekki flytja um þetta langa ræðu. Langar ræður um lítilfjörleg, illa unnin, sundurlaus og óákveðin mál eiga ekki við, en ég vil aðeins vekja athygli þeirra hv. nm., sem fá þetta frv. til meðferðar, á því hvort þeir vilji festa það í lög að Norðurl. v. megi ekki hafa sitt sérsamband. Vilja þeir festa það í lög að skylda sveitarfélög til þess að taka þátt í þessu eða hinu félaginu? Og vilja þeir ekki bíða þess að endurskoðuninni, sem ég nefndi áðan, ljúki þannig að við gætum fengið þessi mál öll tekin saman í heild? Þarna er verið að bæta einu apparatinu við þær stofnanir sem vinna að sveitarstjórnarmálum á Íslandi. Það eru sveitahreppar, kauptúnahreppar, kaupstaðir, sýslufélög, Samband ísl. sveitarfélaga sem vinna að öllum þessum verkefnum, og ég sé enga ástæðu til þess, án þess að líta á málin í heild, að sé verið að bæta við einni stofnuninni enn í lög, sem hefur þó unnið, að því er mér er sagt, með sæmilegum árangri sums staðar á landinu þó að ég hafi alls ekki orðið var við það að t. d. mitt sveitarfélag hafi nokkurn tíma haft nokkurt gagn af þessu starfi sambands sunnlenskra sveitarfélaga. En það er önnur saga, og ég ætla ekki að færa það mál inn á hv. Alþ. En ég vil biðja hv. n. að taka þetta mál til gaumgæfilegrar athugunar, skoða málflutning stjórnlagafræðinga í þessum efnum, kanna viðhorf félmrn., líta yfir málflutning fyrrv. félmrh. og hraða ekki þessu og hrapa ekki að málinu, eins og hæstv. ráðh. Ólafur Jóhannesson orðaði það þegar málið var til umr. árið 1972.