18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2430 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

123. mál, reksturstekjur Landssíma Íslands o.fl.

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Það er eflaust öllum ljóst, hvað vakir fyrir fyrirspyrjanda. Það er að vekja athygli á því misrétti sem símnotendur eiga við að búa úti á landsbyggðinni að því er varðar kostnað við síma, og einnig hinu og ekki síður, að þetta sjálfvirka símakerfi svonefnda reynist oftast nær ekki mjög sjálfvirkt. Hæstv. ráðh. veit það eflaust eins vel og aðrir þm. dreifbýlisins, hversu erfitt er að ná sambandi út í kjördæmin og hve mikil þörf er þar úrbóta, og ég vænti þess að hann geri það sem í hans valdi stendur til að bæta úr því ófremdarástandi.