18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

327. mál, vetrarvegur um Breiðdalsheiði og tenging Djúpvegar við þjóðvegakerfi landsins

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Ég get ekki gert að því þótt hv. 5. þm. Vestf. verði fyrir vonbrigðum. Það fylgir nú lífinu að menn verða oft fyrir vonbrigðum. Ef ég hef átt þá sneið hans, að afturkippur hafi komið í þetta mál á þeim mánuðum sem ég hef farið með samgöngumálin, þá vísa ég því heim til föðurhúsanna. Ég get hins vegar tekið skýrt fram, að ég hef hvorki haft afskipti til lofs né lasts í þeim efnum, heldur hefur vegamálastjórnin haldið áfram framkvæmdum sínum án minna afskipta.

Það er hins vegar, held ég, góð og gegn regla, sem hefði átt að fylgja betur í mörgum stórframkvæmdum heldur en gert hefur verið, að rannsaka málin áður en byrjað er. Höfum við fyrir því reynslu ( mörgum málaflokkum að svo hefði þurft að gera, og hefur vanræksla á því sviði orðið framkvæmdum til tjóns. Það, sem mér sýnist þarna vera að vinna, er að bera saman þær leiðir sem hugsanlegar eru til framkvæmda til þess að ná því takmarki sem að er stefnt með því að gera Breiðadalsheiði að vetrarvegi. Við það eru allar þessar ákvarðanir og öll þessi vinna miðuð, en ákvarðanir liggja að sjálfsögðu ekki fyrir nema þeirri rannsókn sé lokið. Ég vil líka taka það fram, að upptalningin á blaðinu er ekki miðuð við það hvert verkið sé líklegast, heldur aðeins að það sé samanburður á þessum þrem leiðum sem muni ráða niðurstöðu tillögugerðar þeirra sérfræðinga sem vinna að þessum málum.

Um síðara atriðið í fsp., um rannsókn á vegagerð yfir Þorskafjarðar- eða Kollafjarðarheiði, að henni er unnið af fullum krafti og munu niðurstöður þeirrar athugunar liggja fyrir fyrr en seinna. Ég álít að það sé síst að lasta embættismann eins og vegamálastjóra, sem jafnan svarar Alþ. og alþm. vel og greiðlega, þó að hann sé ekki að gefa fyrirheit um að niðurstaða liggi fyrir áður en hann sjálfur álítur að það sé tímabært að það verði raunverulega. Við það eru þessi svör miðuð.