20.11.1974
Neðri deild: 9. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

15. mál, happdrættislán ríkissjóðs vegna Norðurvegar og Austurvegar

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Þegar frv. það til 1., sem hér liggur fyrir, er rætt fer ekki hjá því að hv. þm. hljóti að reyna að gera sér grein fyrir því hver fjárþörfin er til samgöngumála á landi í heild, svo að ekki sé farið út í aðra þætti samgöngumálanna, og hvernig því fé verður skipt sem til ráðstöfunar er hverju sinni. Það orkar ekki tvímælis að það verður að sinna fyrst og fremst þeim verkefnum sem þjóna frumþörfum landsbúa.

Ég ræði ekki sérstaklega í þetta sinn þann þátt samgöngumálanna sem varðar þéttbýlisstaðina. Á ég þar við varanlega gatnagerð í þéttbýli, einkum hinna smærri sveitarfélaga. Þessi þáttur samgöngumálanna hefur hingað til legið að mestu á herðum þeirra sjálfra og orðið til þess að minni sveitarfélögin hafa alls ekki valdið verkefnunum. En ég vek athygli á því að ríkisvaldið kemst ekki hjá því að standa að stórátaki í þessum efnum á næstu árum, bæði með beinum fjárframlögum og útvegun á lánsfé, hvort heldur það verður með sölu happdrættisskuldabréfa eða fjármögnun á annan hátt í gegnum lánastofnanir. En þessi háttur heyrir til frumþarfanna og ég hef ekki um það fleiri orð að sinni og sný mér að þeim þætti er varðar þjóðvegakerfið sjálft, hvort heldur þar er rætt um hraðbrautir, landsbrautir eða þjóðbrautir eða hverju nafni sem það kynni að nefnast.

Í 7. gr. frv., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir því, eins og bent hefur verið á af ýmsum hv. ræðumönnum, að frv. ber það með sér að 1 200 millj. eigi að fara til vegagerðarinnar er tengi saman Reykjavík og Akureyri. Ég geri mér grein fyrir þörfinni á þessari fjölförnu leið og veit að þar eru margir staðir sem þyrftu endurbyggingar og umbóta við. En ég verð þó að taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram, t.d. varðandi Skeiðarársandsveg, að hann er að mínu mati ein af þeim framkvæmdum sem hafa verið framkvæmdar og sinna frumþörf íbúanna. Á ég þar við þá þörf, sem austfirðingar höfðu á því að fá greiðari samgöngur við Reykjavík. Í öðru lagi tel ég að vegagerð eða vegabætur á Austfjörðum, eins og þar er víða háttað, sé þess eðlis að þær séu að sinna frumþörfum íbúanna á því svæði. Og af því að menn nefna að það sé ástæða til að tíunda það, sem helst krefst úrlausnar í eigin kjördæmum, vil ég víkja að mínu eigin kjördæmi.

Það hefur verið á það bent að í umr. um hringveg hefur verið skilið eftir Vestfjarðakjördæmi og raunar stór hluti af Vesturlandskjördæmi. Ég vil þá í upphafi þakka fyrir þá eindrægni sem var hér á Alþ. í sumar þegar sett voru lög um happdrættislán vegna Djúpvegar. Sá vegur er nú vel á veg kominn. Það er þegar hafin töluverð umferð um hann og ég tel að sú vegagerð, enda þótt henni sé ekki lokið, sé ein af slíkum sem uppfylli frumþörf þeirra íbúa sem við Djúp búa. Þá hafa sumir sagt við mig, sem til Vestfjarða hafa komið, að við ættum hér góða heiðarvegi og svo er fyrir að þakka að þeir finnast þar. Þar vil ég t.d. nefna nýjan veg sem fyrir nokkru var lagður um Gemlufallsheiði. En það er nú svo að enda þótt Gemlufallsheiði kunni stundum á vetrum að vera fær, þá er ekki hægt að komast á milli bæja í sveitunum sitt hvorum megin við heiðina. Og ég vil vekja athygli á því einmitt, að þessir vegir eru lífæðar ekki aðeins fyrir þessar sveitir, heldur fyrir þorpin eða þéttbýlisstaðina, þar sem um þá þyrfti að flytja neysluvörur daglega.

Það væri ástæða út af fyrir sig til þess að nefna ýmsa staði, sem eru sérstakir þröskuldar í samgöngukerfinu á Vestfjörðum. En ég vil þó nefna hér aðeins einn og þann sem að mínu mati er í dag veigamestur. En það er Breiðadalsheiðin, eina leiðin sem til þessa tíma hefur legið til og frá Ísafirði og öðrum þéttbýlisstöðum við utanvert Djúp. Það liggur alveg ljóst fyrir t.d. að ef mjólkurframleiðsla leggst ekki hreinlega niður á Vestfjörðum á næstu árum, þá verður meginmagn þeirrar mjólkur, sem flutt verður til Ísafjarðar, flutt úr Vestur-Ísafjarðarsýslu. Og það er hvorki hvetjandi né heldur horfir vel ef svo fer að áfram verði Breiðadalsheiði lokuð að meðaltali a.m.k. hálft árið.

Það hafa á undanförnum dögum átt sér stað viðræður á milli fulltrúa sveitarstjórnanna í Vestur-Ísafjarðarsýslu og Ísafirði um það að sveitarfélögin í sýslunni gerðust þátttakendur og eignaraðilar að væntanlegu sjúkrahúsi sem eflaust verður reist á næstu árum á Ísafirði. Og það er hvorki hvetjandi né líklegt að þær hugmyndir nái tilgangi sínum eða settu marki ef það liggur fyrir að notin verða aðeins 6 mánuði á árinu.

Það hafa margir komið að máli við mig, eftir að boðið var út happdrættisskuldabréf vegna Djúpvegar og eftir að ljóst var að bréfin runnu út eins og heitar lummur, að næsta átakið væri að bjóða út happdrættisskuldabréfalán til þess að gera jarðgöng í gegnum Breiðadalsheiði. Þar háttar svo til að þetta mál verður ekki leyst að mínu mati á annan veg, þar sem ekki er hægt einu sinni að leggja þannig veg að hann sé fær snjóbílum á vetrum. Ég efast ekki um það, að jarðgangagerð hlýtur að geta þróast á Íslandi eins og aðrar verklegar framfarir og framkvæmdir. Tilgangur minn með að kveðja mér hljóðs og segja um þetta mál örfá orð var að óska eftir því að sú hv. n., sem tekur þetta mál til athugunar, líti þar vítt um á hvern hátt verður hægt að fá heildarmynd af þeim framkvæmdum, sem knýjandi er að vinna, og taka eitthvert tillit til landsins alls.