18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2445 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

330. mál, símaafgreiðsla vegna brunavarna, læknisþjónustu og löggæslu

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Ég hefði ugglaust getað fallið frá orðinu eftir að hæstv. ráðh. hafði talað hér aftur, en ég hafði hugsað mér að vekja athygli á því, sem mjög mörgum landsmönnum er augljóst, að neyðarþjónustu hefur verið stórlega ábótavant og farið versnandi eftir því sem sjálfvirkni símans hefur breiðst út, en þó ekki náð til allra notenda. Flestar þær sveitalínur, sem liggja að sjálfvirkum stöðvum, eru illa settar að því er það snertir að ná til neyðarþjónustunnar. Ég vil því fagna því að ráðh. hefur heitið að gera á þessu athugun og reyna að koma hér á betri skipun en verið hefur. Ég veit að í ýmsu falli hafa sveitarstjórnirnar reynt að ráða á þessu nokkra bót,en þeim hefur þó verið ofvaxið að gera það svo að í fullkomnu lagi sé. Mikil nauðsyn er á því að einmitt hið opinbera eða Landssíminn sjálfur ráði á þessu fulla bót. Það er hörmulegt að vita til þess að orðið hafi af því slys að neyðarþjónusta hefur ekki verið í lagi við þá þéttbýlisstaði sem hafa átt að þjóna stærri landshlutum. Ég vil því fagna þeirri yfirlýsingu sem ráðh. gaf hér varðandi þetta efni.