18.03.1975
Sameinað þing: 52. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (1944)

185. mál, vinnutími sjómanna

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svar hans, en ég harma að svo skuli nú vera komið að n. sú, sem þetta verkefni var falið, skuli, að ég hygg í reynd, vera hætt störfum þar sem þeir, sem hana skipa, telji þýðingarlaust að halda störfum áfram með hliðsjón af því að ekki muni nást samkomulag um neina lagasetningu að því er málið varðar. Það er því ljóst að sennilega er ekki meira að vænta af störfum þessarar n. Liggur því beint við að spyrja hæstv. ráðh. í áframhaldi af þessu: Hvað hyggst hann frekar gera í þessu máli. Það er að ég held óumdeild staðreynd, a. m. k. sjómannasamtakanna í landinu, að slík lagasetning er nauðsyn til þess að færa til samræmis við aðrar starfsstéttir í landinu vinnutíma sjómanna. Ég vil því í áframhaldi af þessu spyrja hæstv. ráðh, hvað hann hyggist fyrir í þessu efni þar sem ljóst er að n. mun ekki halda frekar áfram störfum.

Samkomulag virðist ekki vera um beinagrind að frv. í þessa átt. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. taki þá til sinna ráða að hrinda þessu í framkvæmd og lagt verði fyrir Alþ. hið allra fyrsta frv. sem felur í sér það sem gert var ráð fyrir af þeirri n. sem til þessa var skipuð, felur í sér grundvöll að vinnutíma sjómanna að verulegu leyti til samræmis við það sem allflestar, ef ekki allar stéttir þjóðfélagsins nú hafa.

Ég endurtek það, að það er mér mikil vonbrigði að svo skuli hafa farið. En ég a. m. k. vona að ekki verði gefist upp og áfram verði haldið og hæstv. ráðh. haldi áfram því starfi sem þegar er hafið og megi sjást sem allra fyrst frv. sem innifelur að verulegu leyti breyttan vinnutíma og styttan vinnutíma hjá sjómannastéttinni.