18.03.1975
Sameinað þing: 53. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

164. mál, hafís að Norðurlandi

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 303 till. til þál. um viðbrögð gegn hugsanlegum hafískomum að Norðurlandi. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna afleiðingar truflana á vöruflutningum til byggðarlaga á Norðurlandi, ef hafís kynni að leggjast þar að landi, og gera áætlanir um hvernig bregðast skuli við slíkum vanda. Jafnframt er ríkisstj. falið að kanna á hvern hátt unnt er að bregðast við hafískomum, ef stórfyrirtækjum yrði valinn staður á Norðurlandi.“

Það er svo að hafískomur á Norðurlandi hafa sem betur fer verið fátíðar á þessari öld og siglingar til norðlenskra byggðarlaga því lítið truflast af þessum sökum. Engu að síður er það skoðun mín og ég hygg margra að til þurfi að vera áætlun um hvernig bregðast skuli við slíkum vanda ef svo vildi til að hafís legðist að Norðurlandi og truflaði samgöngur.

Fyrir nokkrum árum starfaði stjórnskipuð n. að athugunum á þessu máli. Hún skilaði áliti 1968. Að sögn formanns hennar, prófessors Ólafs Björnssonar, hafa till. hennar legið síðan fyrir, en lítið áþreifanlegt verið gert í að framkvæma þær, annað en það að nokkur fyrirtæki munu fá sérstaka fyrirgreiðslu til þess að liggja með fóðurvörur og aðrar slíkar birgðir yfir veturinn. Á hinn bóginn hafa ekki verið gerðar ráðstafanir til þess að unnt yrði að haga birgðahaldi olíu og annarra mikilvægra vara þannig að hægt væri að grípa til þeirra ef um hafís yrði að ræða.

Það er tilgangur minn með þessum tillöguflutningi að vekja athygli á þessu og að það verði í framhaldi af þessum tillöguflutningi rannsakað hvernig þessu megi koma fyrir þannig að ekki verði truflanir af þótt svo kynni að fara að hafís legðist að landi.

Síðari hl. till. er fram kominn af því marggefna tilefni að embættis- og stjórnmálamenn, sem fjalla um staðarval stórfyrirtækja, t. d. orkufrekra stórfyrirtækja, virðast flestir hverjir haldnir þeirri skoðun að staðarval slíkra fyrirtækja sé útilokað á Norðurlandi sökum hafíshættu. Ég tel að hér sé um vanhugsun og vanþekkingu að ræða, og það er annar tilgangur minn með flutningi þessarar till. að sérfróðir menn verði fengnir til og gögn um þetta mál dregin fram í dagsljósið og með því verði sýnt fram á að hér sé um vanþekkingu að ræða, að það sé hægt með ýmsu móti að komast hjá rekstrarerfiðleikum stórfyrirtækja þótt um nokkra haftskomu yrði að ræða.

Ég vil í þessu sambandi benda á það, að á tíma viðreisnarstjórnarinnar var skipuð n. manna til þess að athuga í samræmi við samning þann, sem gerður var þegar stóriðja reis í Straumsvík, kosti þess að velja stórfyrirtæki stað á Norðurlandi. Þessi n. skilaði áliti 1972. Hún ræddi mjög þetta hafísvandamál og þá grýlu sem hefur verið upp vakin í því sambandi af ýmsum aðilum. N. komst í sem skemmstu máli að þeirri niðurstöðu að það væri ekki tæknilega til fyrirstöðu um staðarval stórfyrirtækja á Norðurlandi að um nokkra hafíshættu yrði þar e. t. v. að ræða. N. rökstuddi þetta álit sitt með því að nú væri unnt að gefa út hafísspár í nóv. sem giltu ár fram í tímann. Þessar spár væri unnt að leiðrétta mánaðarlega í samræmi við ríkjandi vindátt. Hún benti líka á það að með myndum frá gervihnöttum væri fundin ný og áhrifarík aðferð til að fylgjast með hreyfingu hafíss, og í þriðja lagi væri það jafnvel svo að þótt hafís legðist að landi, þá væri hann yfirleitt ekki svo þéttur að sérstaklega útbúin skip gætu ekki komist leiðar sinnar í gegnum ísinn með eða án aðstoðar frá flugvélum.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því að það hafa verið gerðar hafísspár undanfarin ár. Á því var byrjað 1968 í sambandi við starf áður nefndrar hafísnefndar. Þá hófst tilraun til þess að gera hafísspár hér á landi. Páll Bergþórsson veðurfræðingur var ráðgjafi þeirrar n. í þessu efni. Hann athugaði samhengi hitafars á Jan Mayen og hafískomur í marga áratugi og hann telur að það séu mjög vaxandi möguleikar á því að gera haldgóðar spár um hafískomur með þeirri aðferð sem hann hefur beitt í þessu sambandi. Hann telur að það hafi verið samsvörun milli sjávarhita við Jan Mayen og hafíss 1965, 1967 og 1968. Hann hefur, síðan þessar tilraunir voru gerðar, spáð fyrir um hafískomur og telur að þær spár hafi yfirleitt reynst réttar að einu ári undanskildu, 1971 minnir mig það væri, þá spáði hann nokkrum hafís, en þá var þrálát suðaustanátt á hafinu fyrir norðan Ísland og þá reyndist sú spá ekki rétt. Það var talsvert mikið um hafís þá norður í hafi, en hann leitaði sem betur fer ekki upp að landinu vegna vindáttarinnar.

Í þessu efni hefur talsvert áunnist, og ég held að það sé ástæða til þess að vekja athygli á því að halda þessu starfi áfram. Nú er það svo að bæði okkar hafrannsóknarskip og hafrannsóknarskip annarra þjóða gera umfangsmiklar athuganir á hafinu fyrir norðan landið og þær athuganir geta orðið til þess að treysta þessar hafísspár. Það liggur í augum uppi að það er allmikið gagn að því að geta strax að hausti sagt til um það, eins og raunar hefur komið í fréttum, að sáralitlar líkur séu á að hafís komi upp að landinu að vori til. En það er auðvitað ekki nóg að hægt sé að þróa spár áfram, heldur þarf að verða hægt að bregðast við því, ef hafís skyldi koma, á einhvern viðunandi hátt.

Þessi till. er komin fram til að vekja athygli á þessu og eins hinu, að tæknilega séð ætti ekki að vera því neitt til fyrirstöðu að stærri fyrirtækju.m yrði valinn staður á Norðurlandi af þessum sökum og væri vel ef þessi tillögugerð ýtti á að báðir þessir þættir, sem hér er á minnst, fengju farsæla lausn.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að gera frekari grein fyrir þessari till. Hún segir í sjálfu sér ákaflega skýrt hvað fyrir mér vakir með þessum tillöguflutningi. Ég legg til, að till. verði vísað til hv. allshn. til fyrirgreiðslu.