20.03.1975
Sameinað þing: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2598 í B-deild Alþingistíðinda. (2007)

120. mál, fiskvinnsluverksmiðja á Snæfellsnesi

Flm. (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Þáltill. þessi er flutt af öllum þm. Vesturl. ásamt 2. landsk. þm., Benedikt Gröndal.

Sem kunnugt er eru út af Snæfellsnesi ein bestu fiskimið landsins og það fólk, er byggir kauptúnin á nesinu, lifir að mestu leyti á þeirri vinnu er sjávaraflinn veitir. Á svæðinu frá Akranesi til Patreksfjarðar er engin fiskimjölsverksmiðja sem getur unnið feitan fisk eða fiskúrgang. Verksmiðjur þær, er til eru á Snæfellsnesi, geta ekki unnið loðnu né karfa, enda gamlar og þurfa senn endurnýjunar við.

Fiskframleiðendur í Ólafsvík, Rifi og Hellissandi stofnuðu á s. l. hausti hlutafólag er heitir Nesmjöl h. f. Félag þetta hefur látið gera athugun á kostnaði við verksmiðjubyggingu sem hentaði fyrir hlutaðeigandi staði. Stofnkostnaður við framkvæmdina er það mikill að hann er ofviða félaginu. Því er það að leitað er til opinberra aðila um að koma upp og reka verksmiðju á Snæfellsnesi.

Sem kunnugt er hafa Síldarverksmiðjur ríkisins reist verksmiðjur víðs vegar á landinu og bjargað þannig verðmætum og tryggt betur en annars hefði verið atvinnulíf á hlutaðeigandi svæðum. Verksmiðjur þessar eru á eftirgreindum stöðum: Skagaströnd, Siglufirði, Húsavík, Raufarhöfn, Seyðisfirði og Reyðarfirði. Margt mælir með því að fá verksmiðju á Snæfellsnesi því að mikil loðna er þar skammt frá landi.

Eins og fram kemur í fskj. því er fylgir grg. þessarar till., eru loðnuveiðar á 6. og 7, veiðisvæði, sem eru á Breiðafirði og við Snæfellsnes, allmiklar, og árið 1972 veiddust þarna um 100 þús. tonn af loðnu eða nær því fjórði hluti loðnuaflans í landinu það ár. S. l. ár veiddust á sama veiðisvæði rúmlega 136 þús. tonn eða tæplega fjórði hluti aflans. Það gefur auga leið að öll rök mæla með því að það sé byggð verksmiðja á Snæfellsnesi þar sem mikil loðnuveiði er skammt frá landi, auk þess sem þar eru fiskimið ágæt. Það sýnir sig að hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða og það kostar allmikið fjármagn og miklu meira en félag það, er ég áðum gat um, treystir sér til að ráðast í. Ég vænti því að Alþ. taki þessari till. vel. Það er von okkar flm. að Síldarverksmiðjur ríkisins sjái sér fært að koma þarna til móts við þá sem sjóinn stunda á Snæfellsnesi, eins og víða annars staðar á landinu, svo að hægt verði að nýta betur þann afla, er berst á land, en annars væri kostur.

Herra forseti. Ég vona að hv. alþm. taki till. þessari vel og samþ. hana eins og hún liggur fyrir á þskj. 168. Ég legg til að till. verði vísað til atvmn. og umr. frestað.