20.03.1975
Sameinað þing: 54. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2619 í B-deild Alþingistíðinda. (2015)

176. mál, endurskoðun á opinberri þjónustustarfssemi

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Á þskj. 346 hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að hefja þegar í stað skipulega endurskoðun á opinberri þjónustustarfsemi með það fyrir augum að fela einstaklingum, félögum eða fyrirtækjum ýmsa þjónustu eða verkefni sem hið opinbera hefur nú með höndum.“

Um langan aldur hefur verið ágreiningur í stjórnmálum um opinbera þjónustustarfsemi, hversu víðtæk hún ætli að vera og í hverra höndum. Þó hefur nú á síðari árum ríkt nokkur einhugur um að samfélagsleg þjónusta ætti að eiga sér stað og vera í höndum hins opinbera. Um þetta þarf ekki mörgum orðum að fara og sýnast flestir sammála um þessi grundvallaratriði. En ennþá er nokkur ágreiningur um ýmislegt annað hvað snertir opinbera þjónustustarfsemi og þá það sem lýtur að almennum atvinnurekstri og sérstökum verkefnum. Um það hefur verið pólitískur ágreiningur milli flokka og milli manna eins og gengur og gerist, en segja má þó að nokkurt andvaraleysi eða afskiptaleysi hafi verið um þessi mál nú í seinni tíð og það er eins og menn hafi almennt sætt sig við að ríkisvaldið eða hið opinbera tæki meira og meira undir sig í þessum efnum. Ég leyfi mér að halda því fram að umræður hafi verið mjög af skornum skammti um þessi mál og það hafi slævt skoðanir manna og hugmyndir um það, hversu mikil starfsemi skuli vera á vegum hins opinbera hverju sinni. Þetta andrúmsloft eða þetta hugarfar hefur verið mjög áberandi í okkar velferðarþjóðfélagi á seinni árum, bæði meðal almennings, samtaka og allt inn á hið háa Alþ.

Ef við skoðum þær till. og þau frv., sem hv. alþm. leggja fram frá einu þingi til annars, kemur í ljós að þar er mikill urmull af till. eða frv. sem fela það í sér að ríkisvaldið, ríkisstj. setji á fót og fjármagni alls kyns þjónustustarfsemi. Nú er ég ekki að fetta fingur út í þær þarfir sem eru að baki slíkum till. og slíkri kröfugerð, en ég held því fram að slík þjónusta geti undir mjög mörgum kringumstæðum verði rekin og starfrækt, enda þótt ríkisvaldið sé ekki annars vegar. Nú skal ég ekki leggja dóm á hvort þessar till., sem t. d. eru lagðar fram hér á þingi séu orsök þessa hugarfars eða afleiðing þess, en staðreyndin er engu að síður sú að fólk almennt og þá þm. meðtaldir einblínir mjög á stóra bróður, þar sem ríkið er. Ég tel að mál sé að linni og nú þurfi að stokka upp og ganga þessa leið af meiri varúð en hingað til. Ég hef ekkert á móti því að ríkisvaldið eða ríkissjóður fjármagni og beiti sér fyrir ýmissi þjónustu, og ég er ekki á móti því að löggjafinn veki athygli á ýmissi starfsemi og hvetji til hennar, hjálpi til að koma henni á fót, en ég er þeirrar skoðunar að ríkið þurfi ekki þrátt fyrir slíkt frumkvæði að reka þessa starfsemi og geti stuðlað að því að hún sé á vegum annarra.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um röksemdir mínar fyrir þessum skoðunum. Þær eru gamalkunnar úr stjórnmálaumr., en eins og flestum er kunnugt hefur því verið haldið fram og ég leyfi mér að halda því fram hér, þegar þessi till. mín er á dagskrá, að að öðru jöfnu sé slík þjónusta betur rekin af öðrum en ríkinu, það sé gætt meiri sparnaðar og hagræðingar og þjónusta verði öll lipurri þegar arðsemissjónarmið eru ráðandi, þegar samkeppni er fyrir hendi. Nú er það oft svo að samkeppnisaðstaða hefur ekki skapast, þjónusta er óhjákvæmileg, en kringumstæður valda því að samkeppni er lítil sem engin. Undir þeim kringumstæðum, þegar þjónustan er óhjákvæmileg engu að síður, kemur mjög vel til greina að styrkja slíka starfsemi af hálfu hins opinbera, stofna um hana almenningshlutafélög eða ríkið eigi einhvern hlut í slíkum fyrirtækjum, veiti fyrirgreiðslu með ívilnunum eða einhverju slíku, en slíkar fyrirgreiðslur og slík aðstoð af hálfu hins opinbera sé háð árlegu mati frá einum tíma til annars, þannig að fyrirgreiðsla, sem einu sinni er komin á, verði ekki sjálfkrafa fyrir hendi alla tíð eftir það.

Ég hef nefnt í grg. með þessari till. ýmsa þjónustustarfsemi sem ég tel ástæðu til að endurskoða frá því meginsjónarmiði sem ég set hér fram, og þar nefni ég m. a. prentsmiðjurekstur, verksmiðjur, verkstæði, mötuneyti, skipaútgerð, ferðaskrifstofur, flutningastarfsemi, bókaútgáfu, innflutning o. s. frv., o. s. frv. Nú legg ég engan dóm á hvort það sé réttmætt að leggja þessa þjónustustarfsemi niður eða breyta forminu. Þar verður athugunin að skera úr um. En ég tel ástæðu til þess að slík starfsemi á vegum hins opinbera sé endurskoðuð, það sé stokkað upp og skoðað, hvort breytt viðhorf, nýjar aðstæður og nýir möguleikar geri það ekki kleift og geri það ekki eðlilegt að þess konar starfsemi sé falin öðrum: einstaklingum, félögum eða fyrirtækjum, þannig að ríkið sé ekki með þetta á sínum herðum.

Þessi þjónustustarfsemi, sem ég hef hér nefnt og fjölmörg önnur, sem á vegum hins opinbera er, er undir flestum kringumstæðum í samkeppni við frjálsan atvinnurekstur, hliðstæðan atvinnurekstur, hliðstæða þjónustustarfsemi, og oft eru aðstæður mjög ólíkar og ójafnar, þar sem opinber fyrirtæki njóta gjarnan skattfríðinda, fjármagnsfyrirgreiðslu, vægari afborgunarskilmála og öruggra viðskipta. Slík aðstaða er að sjálfsögðu ekki sanngjörn og veldur því að mörg einka- eða félagsfyrirtæki eiga erfitt með rekstur vegna ójafns leiks í samkeppni við hið opinbera þjónustufyrirtæki.

Enda þótt ekki sé ágreiningur um réttmæti félagslegrar þjónustu eins og trygginga-, fræðslukerfis-, rafmagns og símaþjónustu o. s. frv., eins og ég gat um hér í upphafi, er auðvitað mjög eðlilegt að slík þjónusta á vegum hins opinbera sé rannsökuð og endurskoðuð frá einum tíma til annars. Ég minni á að fyrir frumkvæði viðkomandi rn. var gerð úttekt á einni slíkri opinberri stofnun, Tryggingastofnun ríkisins, og niðurstöður þeirrar rannsóknar voru gefnar út með mikilli skýrslu í febr. 1973. Í þeirri skýrslu kom fram að margt var athugavert við rekstur þessarar stofnunar og bent var á ýmsar leiðir sem gætu leitt til sparnaðar og hagræðis í rekstri þessarar ríkisstofnunar. Því miður mun það vera svo að þessar till. hafa nú ekki nema að mjög takmörkuðu leyti komist til framkvæmda. En það breytir ekki því að þessi athugun og þær till., sem þarna sáu dagsins ljós, voru þess eðlis að athugun og rannsókn á opinberum stofnunum er fyllilega réttmæt.

Forstjórar og stjórnaraðilar opinberra þjónustustofnana fara fram á hækkanir á rekstrargjöldum og hækkanir á iðgjöldum, afnotagjöldum til sinna stofnana eftir því sem reikningar þeirra og starfsemi segja til um, og er ekkert nema gott um það að segja og eðlilegt að svo sé gert. Hins vegar er það allt of sjaldgæft, að um leið og orðið er við slíkum hækkunarbeiðnum sé á sama tíma farið ofan í rekstur viðkomandi stofnana og skoðað, hvort ekki megi eitthvað bæta á þessum stofnunum þannig að til þessara hækkana þurfi ekki að koma. Ég geri ráð fyrir því að forstjórar slíkra stofnana setji fram hækkunarbeiðni sína af fyllstu skyldurækni og samvískusemi og vilji veg sinnar stofnunar sem bestan og mestan og reyni því að efla reksturinn og efla starfsemina sem mest á hverjum tíma. En það er of gagnrýnislaust látið viðgangast að þeir bæti við fólki og starfsemi, og það þarf meira aðhald og meira eftirlit með því að vel sé á þessum peningum baldið. Því er það innifalið í þessari till. minni að endurskoðun verði gerð á opinberri þjónustustarfsemi hvað þetta snertir án þess að lagt sé til að slík starfsemi sé um leið falin öðrum ef og enda þótt niðurstaðan yrði sú að annmarkar sæjust.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál. Það er mjög almenns eðlis og þarfnast nokkurrar athugunar. Ég tel eðlilegt að n., sem þetta mál fær til meðferðar kanni hvaða möguleikar eru á slíkri endurskoðun sem till. felur í sér. Ég lít svo á að till. sé tímabær einmitt nú, vegna þess að stjórnvöld hafa fullan hug á að grípa til sparnaðar og draga úr ríkisbákninu og ríkisútgjöldum, og ég held að slík endurskoðun sem hér er rætt um geti verið liður í slíkum almennum sparnaðar- og samdráttaraðgerðum, ekki síst á þeim tímum sem við blasa nú.

Ég legg til, herra forseti, að þessu máli verði vísað til allshn.