20.03.1975
Sameinað þing: 55. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2025)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Aldrei hefur stjórnmálaflokkur afhjúpað sig jafngersamlega sem marklausan áróðursflokk og Sjálfstfl. hefur gert þá rúmlega 6 mánuði sem flokkurinn hefur verið í ríkisstj. að þessu sinni.

Á meðan Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu kenndi hann vinstri stjórninni um allar verðhækkanir og í kosningunum s. l. sumar tókst honum að blekkja þúsundir manna sem trúðu því að Sjálfstfl. mundi stöðva dýrtíðarvöxtinn ef hann kæmist til valda.

Nú er komin nokkur reynsla á þetta stefnuloforð Sjálfstfl. Samkv. útreikningum Hagstofu Íslands kemur í ljós að á 6 fyrstu valdamánuðum núv. ríkisstj. hækkaði matvöruliður vísitölunnar um 42.1%. Á sama tíma hækkaði hiti og rafmagn í vísitölunni um 49% og sími og póstur um 55% og nýlega hafa útvarps- og sjónvarpsgjöld hækkað um 50–57%. Þessar verðhækkanir eiga þó enn eftir að aukast vegna síðustu gengislækkunar. Þegar afleiðingar hennar hafa komið fram mun verðhækkun á matvörum nema 50–60% á 7–8 mánuðum valdatíma ríkisstj.

Þannig hefur stefna Sjálfstfl. í dýrtíðar- og verðlagsmálum birst almenningi.

Þegar Sjálfstfl. var í stjórnarandstöðu gerði hann mikið úr síhækkandi fjárl. og eyðslustefnu vinstri stjórnarinnar. En hvað gerðist við afgreiðslu á fyrstu fjárl. ríkisstj. íhalds og framsóknar? Þá hækkuðu fjárl. meir en nokkru sinni áður á milli ára eða úr tæpum 30 milljörðum í tæpa 50 milljarða. Og til að undirstrika sérstaklega hina nýju fjármálastefnu Sjálfstfl. þá hækkuðu almenn rekstrargjöld ríkisins meir en allt annað eða um 76%.

Á meðan Sjálfstfl. var utan ríkisstj. fjösuðu forustumenn hans um skattpíningarstefnu vinstri stjórnarinnar og um brýna þörf á því að lækka skatta og opinber gjöld. En hvað hafa forustumenn flokksins gert eftir að þeir náðu stjórnartaumunum í sínar hendur? Þeir hafa heimilað 10% hækkun útsvara, hækkun á fasteignagjöldum, hækkað söluskatt, bensinskatt, rafmagnsskatt og ýmis fleiri gjöld og auk þess auðvitað hækkað öll þau gjöld sem þeir hafa komist yfir að hækka á vegum Reykjavíkurborgar.

Ein af ásökunum forustumanna Sjálfstfl. á hendur vinstri stjórnar var að hún hefði enga heildarstefnu í efnahagsmálum. Allir máttu skilja á málflutningi þeirra sjálfstæðismanna að þeir hefðu hina einu réttu heildarstefnu, að þeir kynnu ráðin gegn öllum efnahagsvanda. Og hver hefur reynslan orðið? Hver er heildarstefnan? Fyrst eru fjárl. ríkisins stórhækkuð, svo á að skera þau niður eftir nokkra mánuði. Fyrst er samþ. gengislækkun 2. sept., 17%, síðan önnur gengislækkun 13. febr., eða eftir rúma 5 mánuði, 20%. Dálagleg yfirsýn yfir efnahagsmálin það. Stefna ríkisstj. í málefnum atvinnuveganna hefur þó slegið allt annað út. Haldið er uppi vaxtaokurstefnu sem í reynd þýðir að atvinnufyrirtæki verða að greiða í mörgum tilfellum 18–24% vexti af nauðsynlegustu rekstrarlánum. Gengislækkanir eru framkvæmdar á þann hátt að bannað er með lögum að hækka fiskverð eðlilega til að halda niðri kaupi sjómanna. Síðan er gengishagnaður, sem tekinn er beint af útgerðinni sjálfri, lagður á alls konar sjóði eða úthlutað af ráðh. og hans nánustu samstarfsmönnum eftir persónulegum reglum. Þannig er einum útgerðarmanni eða útgerðarfélagi úthlutað háum fjárhæðum í styrki eða lán, jafnvel svo að millj. skiptir, á sama tíma og aðrir útgerðaraðilar í sömu grein fá enga fyrirgreiðslu.

Sannleikurinn er sá að stefna ríkisstj. í málefnum atvinnuveganna hefur í rauninni verið eitt samfellt rækjustríð. Þar hafa árekstrar um minni háttar atriði og fjas og fálm og fát verið aðaleinkennið.

Nú er augljóslega að koma upp hið alvarlegasta ástand í atvinnumálum landsmanna. Almenn verkföll geta skollið á hvenær sem er. Ljóst er að kaupmáttur launa mjög fjölmennra hópa launafólks hefur þegar minnkað um 30–40% í tíð núv. ríkisstj. Þeir, sem njóta láglaunabóta, hafa einnig orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu, flestir sem nemur 18–25%, á þessum sama tíma. Þó má segja að stefna stjórnarinnar í afkomumálum aldraðra og öryrkja hafi verið enn þá miskunnarlausari því að bætur til þeirra aðila hafa verið enn þá minni en sem nemur láglaunabótunum.

Nú er svo komið vegna stefnu ríkisstj. í kjaramálum og endurtekinna gengislækkana að kaupgjald hér á landi er orðið í hrópandi ósamræmi við kaup í nálægum löndum. Þannig er nú kaup verkamanna í Danmörku og Noregi meir en helmingi hærra en hér á landi. Ljóst er, að lagist atvinnuástand í þessum löndum má búast við að margir ráði sig til starfa þar og flýi beinlínis þau launakjör sem hér gilda. Þegar eru líka erlend fyrirtæki farin að auglýsa í hérlendum blöðum eftir iðnaðarmönnum í vissum greinum og bjóða þá auðvitað tvöfalt og þrefalt kaup á við það sem hér er greitt.

Og enn boðar hæstv. ríkisstj. nýjar efnahagsráðstafanir. Nú er það fyrst og fremst niðurskurður verklegra framkvæmda á vegum ríkisins um allt að 3500 millj. kr. og samdráttur í útlánum stofnlánasjóða atvinnuveganna. Þær till. ríkisstj., sem fjalla um skattalækkun og skyldusparnað, eru óverulegar og mest til að sýnast. Lækkunin á beinum sköttum, tekjuskatti og útsvari, verður mjög lítil borið saman við s. l. ár. Yfirleitt verður lækkunin 10–30 þús. kr. á skattþegn, en stundum þó minni. Auðvitað er þessi skattalækkun aðeins hluti af þeirri skattahækkun sem ríkisstj. hefur áður staðið fyrir.

Kjarni hinna nýju efnahagsaðgerða er niðurskurður verklegra framkvæmda um 3 500 millj. kr. og boðun um samdrátt í útlánum stofnlánasjóða. Á sama tíma og ríkisstj. er að berja í gegnum Alþ. frv. um járnblendiverksmiðju í Hvalfirði sem felur í sér að þar á að byggja verksmiðju sem á að kosta 9–10 milljarða kr. og þar á einnig að gera nýja höfn og leggja vegi vegna verksmiðjunnar sem kosta um 500 millj. kr., þá á að skera niður verklegar framkvæmdir úti um land, þ. e. a. s. hafnarframkvæmdir, skólabyggingar, sjúkrahúsabyggingar, vegaframkvæmdir og annað af því tagi, um 3500 millj. kr.

Framlag íslendinga til byggingar járnblendiverksmiðjunnar mun nema 7600 millj. kr. Það stendur ekki á fjármagni til þeirra framkvæmda. Hins vegar er sagt að draga verði úr eða stöðva með öllu lánveitingar til byggingar frystihúsa, stöðva lánveitingar til smíði fiskiskipa og draga stórlega úr lánum til landbúnaðar og iðnaðar. Bygging járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði gerir það óhjákvæmilegt að ráðist verði í nýja stórvirkjun við Hrauneyjarfoss, álíka stóra og Sigölduvirkjun. Hrauneyjarfossvirkjun, sem raunverulega er ákveðið að ráðast í sem næstu stórvirkjun, þó að norðlendingar séu blekktir með því að tala við þá um rannsóknir á stórvirkjun nyrðra, mun kosta 12–14 milljarða kr.

Það verður góð byggðastefna í framkvæmd að efna til 7–8 milljarða kr. framkvæmda á Keflavíkurflugvelli, 9–10 milljarða í Hvalfirði og 12–14 milljarða við Hrauneyjarfoss, en skera jafnframt niður fjárveitingar til framkvæmda úti á landi og draga úr uppbyggingu í sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði. Það er sannarlega von að ríkisstj. þurfi að leggja fram nokkrar kr. í Byggðasjóð til að breiða yfir þessa byggðajafnvægisstefnu.

Þáttur Framsfl. í þeirri íhaldsstefnu, sem nú er fylgt af ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar, er kapítuli út af fyrri sig.

Framsfl. taldi sér það til gildis að vera aðili að vinstri stjórn og hann vildi þá eiga sinn hlut í uppbyggingar- og framfarastefnu þeirrar stjórnar. Þá studdi Framsfl. bætt launakjör og aukin réttindi vinnustéttanna, þá fylgdi hann hinni miklu uppbyggingu í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði og þá fylgdi hann till. um stórauknar bætur til gamalla og öryrkja. En hver er stefna Framsfl. nú? Nú lætur flokkurinn þá ofstækisfyllstu í Sjálfstfl. reka sig til að beita bolabrögðum í sambandi við kjör útvarpsráðs. Nú beygir flokkurinn sig fyrir kröfu íhaldsins um að klípa af þeim peningum sem lögum samkv. áttu að ganga til niðurgreiðslu á olíukostnaði þeirra sem verða að hita upp íbúðir sínar með olíu. Nú — eftir hálfs árs samstarf framsóknar við íhaldið — stóð flokkurinn að því að ráðstafa gengishagnaði útgerðarinnar með þeim hætti að ekkert af þeim hagnaði mætti renna til smáútgerðarinnar í landinu. Nú beygir Framsfl. sig fyrir þeirri kröfu íhaldsins að halda skuli áfram frjálsri verslun, frjálsri gjaldeyrissölu, jafnvel þótt gjaldeyrissjóðurinn sé þegar tæmdur. Og nú samþykkir Framsfl. stórfelldan niðurskurð verklegra framkvæmda á landsbyggðinni, á sama tíma og verja á risafjárhæðum í fjárfestingu á Keflavíkurflugvelli og í Hvalfirði. Það er sannarlega von að framsóknarmenn um allt land spyrji: Hvað hefur eiginlega komið fyrir þm. flokksins? Svarið ætti þó að liggja ljóst fyrir þegar reynslan er höfð í huga. Þm. Framsfl. fylgja alltaf íhaldssamri stefnu og eru síst betri en íhaldið sjálft þegar þeir eru í slagtogi með íhaldinu og láta sérfræðinga þess teyma sig áfram.

Þann tíma, sem ríkisstj. hefur verið við völd, hefur hún miskunnarlaust haldið uppi þeim áróðri í blöðum sínum og í öðrum fjölmiðlum að ráðstafanir hennar í efnahags- og kjaramálum hafi verið óhjákvæmilegar vegna mikilla áfalla sem þjóðarbúið hafi orðið fyrir. Áróðurinn um þessi miklu áföll, sem stundum eru nefnd markaðshrun eða stórfellt verðfall útflutningsvara, er endurtekinn í sífellu og blátt áfram laminn inn í þjóðina. Óumdeilanlegar staðreyndir sýna þó að árið 1974, s. l. ár, var mjög mikið framleiðsluár, eitt það mesta í sögu þjóðarinnar. Sjávarafli var annar sá mesti sem um getur. Nýlega birt skýrsla Þjóðhagsstofnunar sýnir líka að meðaltalshækkun varð á verði útfluttra vara þjóðarbúsins sem nam 21%, mælt í dollurum. Það var því hvorki um markaðshrun né heldur gífurlegt verðfall að ræða á s. l. ári. Það verðfall sem varð á fiskmjöli og fiskblokk, var jafnað upp og meira en það með verðlagi á öðrum útfluttum vörum.

Sá vandi, sem að okkur sótti á árinu 1974, var mjög mikil og áframhaldandi verðhækkun á innfluttum vörum. Sú verðhækkun nam um 34% og við það bættist svo að um gífurlega mikinn aukinn innflutning var að ræða á því ári. Viðskiptakjör þjóðarinnar versnuðu, það er rétt. Það þurfti því fyrst og fremst að draga úr innflutningi og þá einkum öllum vafasömum eða ónauðsynlegum innflutningi.

Núv. ríkisstj. er tvímælalaust veik stjórn þó að hún eigi að nafninu til marga stuðningsmenn á Alþ. Stjórnin ætti að segja af sér. Hún ræður augljóslega ekki við þau vandamál sem þarf að leysa. Mikill léttir yrði það mörgum manni, ef stjórnin gæfist nú formlega upp og vildi efna til almennra alþingiskosninga á næsta sumri, leyfa þjóðinni að kveða upp sinn dóm. — Góða nótt.