08.04.1975
Sameinað þing: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2764 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

336. mál, endurskoðun laga um ljósmæðranám

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör og skil mætavel að það sé ekki hægt að upplýsa mikið um málið á þessu stigi þar sem n. er enn að störfum og er að kanna hina ýmsu möguleika sem til greina koma. Ég, eins og sjálfsagt fleiri hv. alþm. hlýddi í gærkvöldi á form. Ljósmæðrafélags Íslands tala um Daginn og veginn þar sem hún lýsti einmitt miklum áhyggjum yfir þróun þessara mála yfirleitt og það voru einmitt hennar orð sem ollu því að ég minntist á það áðan, að hætta væri á því að ljósmæðranámið sem sjálfstæð námsbraut yrði þurrkað algerlega út. Ég var einmitt með þetta sama í huga varðandi fsp. mína, og ég ítreka að ég held að hér þurfi að finna nýja og betri leið í námi heilbrigðisstétta okkar en þá, sem hún minntist á, ef það er rétt með farið.

Þegar talað er um fjölbrautaskóla, samtengingu námsbrauta af skyldu tagi og valgreinar ýmiss konar, þá hlýtur það mætavel að eiga við menntun okkar heilbrigðisstétta og þar á ljósmæðranámið að skipa verðugan sess, ekki einangraðan, heldur í samhengi við almennt nám í skyldum greinum með svo aftur möguleikum til viðbótarmenntunar. Sama má raunar segja um sjúkraliðana okkar. Það er mál að linni því kerfi blindgötunnar, sem framhaldsmenntun okkar er í, að eitt reki sig þar ekki á annars horn, heldur sé samhæfingin sem mest og best, valið sem fjölbreyttast og ekki bundið við eina lífstíðarákvörðun svo sem nú er í allt of mörgum tilfellum.

Ég ítreka það aðeins, að ég vona það að þessi n. komist að þeirri niðurstöðu að ekki síst í námi heilbrigðisstétta okkar hafi þessi nýja skipan fjölbrautanna, sem nú er að ryðja sér rúms, sérstakt gildi. Það á og ber að hagnýta sér til hins ítrasta án þess að nokkru því, sem nú er í gildi, sé ýtt til hliðar eins og menn virðast bera ugg í brjósti út af varðandi ljósmæðranámið.