08.04.1975
Sameinað þing: 58. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

189. mál, menntun í hjúkrunarfræðum

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að svara fyrirspurnum hv. 7. landsk. þm. í samfelldu máli á þessa leið:

Haustið 1972 innrituðust í Nýja hjúkrunarskólann 23 ljósmæður til rúmlega 2 ára náms í hjúkrunarfræðum. Haustið 1973 innrituðust engir nýir nemendur í skólann þar eð húsnæði og kennslukraftar leyfðu ekki að slíkur hópur væri tekinn inn til viðbótar þeim sem í námi voru. Hins vegar fengu nemar námsbrautar í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands kennslu í hjúkrunarfræðum við skólann veturinn 1973–1974. Seinni hluta þess vetrar hélt skólinn námskeið fyrir hjúkrunarkonur í framhaldsnámi. Haustið 1974 innrituðust engir nýir nemendur í skólann þar eð hann varð húsnæðislaus. Fyrir velvilja yfirvalda Borgarspítalans fékkst þó leyfi til að hafa kennsluhúsnæðið í Grensásdeild til nóvemberloka er ljósmæðrahópurinn frá 1972 útskrifaðist. Um miðjan febr. s. l. flutti skólinn í leiguhúsnæði að Suðurlandsbraut 18 sem í eru 2 kennslustofur til bóklegs náms fyrir 25–30 nemendur og ein lítil verknámsstofa. Hefur nú verið skipulagt 5 vikna námskeið fyrir hjúkrunarkonur og ljósmæður er starfa við heilsugæslustöðvar. Hefst námskeiðið í byrjun apríl n. k. Hafa 30 þegar tilkynnt þátttöku í því. Ákveðið hefur verið að Nýi hjúkrunarskólinn taki inn nýjan hóp ljósmæðra til hjúkrunarnáms næsta haust, sbr. auglýsingu í dagblöðunum undanfarna daga. Hvort tekinn verður inn annar hópur nýrra nemenda fer eftir því hvort fleiri nýnemar æskja eftir námi en Hjúkrunarskóli Íslands getur tekið við og einnig því hvort pláss til verklegs náms á sjúkrahúsum séu nægilega mörg til að fjölga nýjum nemum meira en orðið er.

Eins og kunnugt er fer meiri hluti almenns hjúkrunarnáms enn fram á sjúkrahúsum svo að fjöldi nýrra nemenda hlýtur að takmarkast við getu sjúkrahúsanna til að taka við nemum í öllum árgöngum námsins frá báðum hjúkrunarskólunum og hjúkrunarnámsbraut Háskólans. Verði ekki ráðlegt að taka inn tvo hópa nýrra nemenda á næsta hausti er í ráði að nýta afgang skólans til námskeiðahalds ellegar fyrir framhaldsnám fyrir hjúkrunarkonur, en á þessu stigi er ekki hægt að tilgreina nánar hvers konar námskeið eða framhaldsnám það yrði. Síðustu árin, 1972, 1973 og 1974, hefur Hjúkrunarskóli Íslands fullnægt eftirspurn þeirra umsækjenda sem að mati skólans hafa haft nægilegan undirbúning, en hins vegar sækja alltaf margir um skólavist sem ekki komast að vegna þess að þeir hafa ekki nægilegt undirbúningsnám. Árið 1972 voru nýir nemendur 101. Nokkur hluti þess hóps hefur þegar lokið námi. Væntanlega verða þeir, er ljúka námi 1975, alls 80. Haustið 1973 voru nýir nemendur 100 og 1974 voru þeir 101. Gera má ráð fyrir að um 84 nemendur ljúki námi 1976 og þá svipuð tala 1977.

Skortur hjúkrunarkennara hefur verið og er enn mjög mikill og starfsálag þeirra hefur verið óhóflega mikið því að alltaf hafa fleiri nýir nemendur verið innritaðir en eðlilegt má teljast miðað við þann fjölda hjúkrunarkennara sem mögulegt hefur verið að fá til starfa hverju sinni.

Þannig sem sagt leyfir menntmrn. sér að svara fsp. hv. þm. En út af þessu síðasta atriði, um skort á hjúkrunarkennurum, þá vil ég einnig láta þetta koma fram:

Reynt hefur verið að bæta úr hjúkrunarkennaraskortinum með því að veita sérstaka styrki til hjúkrunarkennaranáms. Í ár hefur menntmrn. boðið fram 2 námsstyrki, hvorn að upphæð 240 þús. kr., til hjúkrunarkennaranáms erlendis. Styrkveiting er bundin því skilyrði að styrkþegar komi að námi loknu til kennslu við hjúkrunarskóla hér, Umsóknarfrestur um styrki þessa rann út 1, þ. m. og bárust 4 umsóknir. Skólaárið 1971–1972 fengu tvær hjúkrunarkonur styrki til hjúkrunarkennaranáms, önnur 210 þús. kr., hin nokkru hærri styrk, og kenna þær nú báðar við Hjúkrunarskóla Íslands. Skólaárið 1972–1973 hlaut einn nemandi 210 þús. kr. styrk og hóf hann kennslu við Hjúkrunarskóla Íslands núna s. l. haust. Sumarið 1973 hófu tvær konur hjúkrunarkennaranám í Noregi og önnur hefur fengið samtals 314 þús. kr. styrk til þess, en hin 210 þús. kr. Ég vil bæta því hér við, að það er svo í fyrsta skipti núna í haust sem tekin er sérstök fjárhæð inn á fjárl. til þessara styrkveitinga. Áður hafði slíkur styrkur verið greiddur af almennu starfsfé rn.

Mér fannst rétt að láta þessar upplýsingar fylgja með hinu beina svari við fsp.