14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2180)

206. mál, verðlagsmál

Flm. (Svava Jakobsdóttir) :

Virðulegi forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Austurl., Lúðvík Jósepssyni, leyft mér að flytja frv. til l. um breyt. á lögum nr. 54 frá 14. júní 1960, um verðlagsmál.

Allar þær breyt., sem við leggjum til, stefna að því að lögin megi verða almenningi meiri stoð en þau eru nú. Sjaldan eða aldrei hefur slík holskefla dýrtíðar skollið yfir landsmenn á jafnskömmum tíma og það sem af er valdatíð þessarar ríkisstj. Tvennar gengisfellingar hefur hún afrekað og á sama tíma og kaupgjald er bundið leyfir hún nær hömlulaust verðhækkanir á innlendri vöru og þjónustu. Tal manna um gjaldþrot heimilanna er sannarlega ekki út í bláinn, og víst er að fólk með lágar eða miðlungstekjur verður að velta fyrir sér hverjum eyri áður en hann er af hendi látinn. Við þessu á ríkisstj. ekki önnur ráð til handa þessu fólki en að það skuli nú herða sultarólina. Þennan boðskap flytur ríkisstj. og málgögn hennar ýmist í værukærum, róandi ábúðartón eða með beinum ógnunum eins og í forustugrein Morgunblaðsins 8. apríl s. l. þar sem verkafólki er ráðlagt að stilla kröfum sínum í hóf ella hafi það alvarlegar afleiðingar fyrir framtíð íslensku þjóðarinnar, hvorki meira né minna.

En svo mikið er víst að alþýða þessa lands lifir ekki á sultarboðskap einum saman. Það er vissulega lágmarkskrafa að þær breyt. verði gerðar á lögum um verðlagsmál að þau verndi almenning gegn dýrtíðinni svo fremi sem kostur er, og það er meira en lágmarkskrafa að lög um verðlagsmál hindri að ein stétt í þjóðfélaginu, kaupmannastéttin, hagnist verulega, t. d. þegar hækkanir erlendis valda stórfelldum hækkunum innanlands á nauðsynjavöru og þjóðarbúið í heild verður þannig fyrir stórfelldum áföllum. Einmitt um þetta atriði og atriði því skyld fjallar 1. gr. frv. Sú sjálfsagða regla gildir nú í störfum verðlagsnefndar að þegar gengi krónunnar er breytt er hámarksverð vörunnar tekið til endurskoðunar og álagningu breytt á þá lund að hún er aðeins látin ná til 30 % af hækkuninni sem af breytingunni stafar.

Við leggjum til að lögfest verði ákvæði sem gengur í sömu átt, en heldur lengra þó. Við leggjum til að verðlagsnefnd geti hvenær sem er tekið ákvörðun um hámarksverð til endurskoðunar, en að henni sé skylt að gera það ef gengisfelling, gengissig eða erlendar verðhækkanir valda verulegri hækkun á verði og álagningu innfluttrar vöru. Það skal tekið fram til að forðast misskilning að þegar talað er um hámarksverð í frv., þá er vitaskuld þar innifalin hámarksálagning og hverjir þeir kostnaðarliðir aðrir sem heyra undir valdsvið verðlagsnefndar, eins og þeir eru skilgreindir í 3. gr. gildandi laga. Vil ég því beina því til n. sem fær frv. þetta til athugunar, ef henni finnst ekki nógu skýrt kveðið að orði, að hún lagi þetta atriði.

Í sambandi við 1. gr. frv. beinist athyglin fyrst og fremst að þeirri staðreynd að hlutfallsreglan um álagningu verslunar veldur stórfelldum og óeðlilegum hagnaði verslunarinnar þegar erlend verðhækkun hækkar verð innfluttrar vöru verulega. Nærtækasta dæmið um slíkt er sykurverðið sem hefur hækkað verulega erlendis á allra síðustu tímum svo sem kunnugt er. Sé miðað við verðlag á sykri eins og það var um síðustu áramót hefur sykurverð sexfaldast síðan 1972. Ársforði íslendinga af sykri kostaði, sé miðað við útsöluverð, um 300 millj. kr. árið 1972. Sama magn af sykri kostaði um síðustu áramót um 1600–1800 millj. kr. Árið 1972 nam álagning verslunarinnar 80 millj. kr., en 600 millj. miðað við sykurverð um síðustu áramót. Á þessu tímabili, sem hér um ræðir, hefur því það fé, sem kaupmenn fengu í sinn hlut fyrir að selja sama magn af sykri, hækkað úr 80 millj. kr. í 600 millj. kr.

En með þessu er ekki öll sagan sögð því að síðan um áramót hefur sykurverð enn verið að hækka. Fyrir örfáum dögum eða 7. apríl athugaði ég verð á strásykurskílói í nokkrum verslunum í Reykjavík og grennd. Strásykurskílóið kostaði hvergi það sama en út frá því verði, sem fékkst úr þessari athugun, lætur nærri að meðaltalsverð á kílói af strásykri sé 400 kr. Samkvæmt því kostar ársneyslan út úr búð 3.9 milljarða.

Nú er athyglisvert að sjá hvað hver fær í sinn hlut af þessum 3.9 milljörðum. Hlutur ríkisins í formi söluskatts er 780 millj. eða 1/5 hluti, en hlutur verslunarinnar a. m. k. einn milljarður eða 25–26% sé miðað við útsöluverð, en þriðjungur sé miðað við smásöluverð. Innkaupsverð á sykrinum ætti samkvæmt þessu að vera á að giska 2.1 milljarður, en það fé, sem kaupmenn fá fyrir að selja sama magn af sykri, hefur frá því um áramót hækkað úr 600 millj. kr. í einn milljarð miðað við daginn í dag.

En við skulum líta á þetta dæmi frá sjónarhóli hafnarverkamannsins sem skipar sykrinum upp. Hann skipar upp sykri sem kostar komið á hafnarbakkann u. þ. b. 230 kr. kílóið, en þegar hann kaupir þetta sama kíló af sykri hjá kaupmanninum á því verði sem nú er, þá greiðir hann kaupmanninum eða versluninni 111 kr. af hverju kílói fyrir að rétta sér það yfir búðarborðið. Ég hef í þessu dæmi áætlað að kostnaður við innflutning sé u. þ. b. 20 kr., en það er raunar eini liðurinn í öllum ferli vöru frá hafnarbakka á búðarborðið sem ekki lýtur hlutfallsreglum. En sú óhugnanlega staðreynd blasir við augum að hafnarverkamaðurinn greiðir kaupmanninum 40% af tímakaupi sínu fyrir það eitt að rétta sér eitt kíló af sykri. Miðað við útsöluverð er hafnarverkamaðurinn hálfan annan klukkutíma að vinna sér inn fyrir einu kílói af sykri. Ranglætið og misskipting auðsins er hér svo hrópandi að telja má algert siðleysi ef ekki er við spornað.

Í 2. gr. frv. er lagt til að í 5. gr. gildandi laga bætist ákvæði er veiti verðlagsyfirvöldum rýmri heimild til rannsókna og eftirlits. Í 5. gr. er kveðið á um að bannað sé að halda vörum úr umferð í því skyni að fá hærri verslunarhagnað af þeim síðar. Við leggjum til að verðlagsstjóra sé heimilt að láta fara fram vöruskoðun hjá hverjum þeim sem grunaður er um slíkt. Reynsla undanfarinna ára hefur sýnt ljóslega að full þörf er á að herða á eftirliti í þessum efnum. Samkv. 10. gr. gildandi laga getur verðlagsstjóri að vísu krafið hvern sem er um upplýsingar, skýrslur og önnur gögn sem telja má nauðsynleg í starfi hans. Hins vegar er ekki óeðlilegt, þegar um er að ræða brot sem felst í því að halda vörum úr umferð í hagnaðarskyni, að verðlagsyfirvöldum sé veitt rýmri heimild til rannsókna.

Breyt., sem felast í 3, og 4. gr. frv., hafa báðar þann megintilgang að auðvelda fólki að átta síg á verðlagi, að átta sig á hagstæðasta verði á vöru og þjónustu á hverjum tíma og hvar þá vöru eða þjónustu sé að finna. Það er öllum ljóst að verð vöru getur verið ákaflega mismunandi í hinum ýmsu verslunum, og þegar þar við bætast sultarráðstafanir ríkisstj. sem hafa í för með sér verðhækkanir á verðhækkanir ofan, er ógerningur fyrir fólk að fylgjast með réttu verðlagi eða tryggja á nokkurn hátt að það sé að verja peningum sínum á sem hagkvæmastan hátt. Margir muna efalaust eftir sjónvarpsþætti skömmu fyrir síðustu jól þar sem fólk var tekið tali og spurt um verð á helstu nauðsynjavörum — vörum sem notaðar eru daglega á heimilum Þessi þáttur varð einna líkastur getraunaþætti. Fáir, ef nokkur, vissi með nokkurri vissu hvað smjör, franskbrauð eða kaffi kostaði, enda varla von. Verðið, sem gilti í dag, er orðið gamalt á morgun. Verð á sykri eða einu stykki af handsápu, svo að dæmi sé tekið, er eitt í þessari búðinni og annað í hinni, og ef fólk gerist svo djarft að spyrja kaupmanninn hvað valdi verðhækkun eða verðmismun fær það yfirleitt sama svarið: Þetta er ný sending. — Þetta svar er orðið nokkurs konar töfraþula kaupmanna sem almenningur stendur varnarlaus gegn.

Þegar ég var að semja þessar línur gerði ég sjálf athugun í 7 verslunum sem ég valdi af handahófi og kynnti mér verð á stykki af handsápu. Tegundin var hin sama, stærðin hin sama og athugunin var gerð á einum og sama klukkutímanum. Út úr þessari athugun kom verð á fimm vegu. Eitt stykki af handsápu kostaði 43 kr. þar sem það var lægst, en 57 kr. þar sem það var hæst. Í þeim verslunum, þar sem sápustykkið kostaði 57 kr., var mér tjáð að þetta væri alveg ný sending, en í verslun, sem seldi sápuna á 54 kr. stykkið eða 3 kr. lægra, var mér einnig tjáð sem skýring á verðinu að þetta væri alveg ný sending. Hvað veldur? Er ekki von að almenningur spyrji: Hvað er eiginlega þessi nýja sending? Eru það ný trúarbrögð eða er það náttúrulögmál? — Það mætti vitaskuld taka mýmörg dæmi um mismunandi verð á nauðsynjavöru í hinum ýmsu verslunum. Ég minntist fyrr í ræðu minni á að í þeim verslunum, þar sem ég kynnti mér verð á strásykri, hafði sykurkílóið hvergi kostað það sama. Sú athugun var líka gerð sama daginn og á sama klukkutímanum. Lægst var verðið 310 kr. kg, hæst 415 kr. kg.

Flm. þessa frv. eru þeirrar skoðunar að til að leiðbeina almenningi í þessu völundarhúsi verðlagsmála verði að koma annarri skipan á en nú er gert ráð fyrir í 7. gr. laganna. Þar er m. a. svo mælt fyrir að verðlagsstjóri skuli mánaðarlega birta skýrslu er sýni hæsta og lægsta verð á helstu nauðsynjavörum sem framfærsluvísitala byggist á. En slíkt kemur varla að hagkvæmum notum fyrir kaupendur í daglegum innkaupum. Í stað þess fyrirkomulags leggjum við til að verðlagsstjóri skuli mánaðarlega láta gera úrtakskönnun á hæsta og lægsta verði á þjónustu og helstu nauðsynjavörum, sem framfærsluvísitala byggist á, og birta í dagblöðum skýrslu um niðurstöður þeirra kannana og nafngreina þar seljendur hæsta og lægsta verðs. Með þessari skipan mundi almenningur fá upplýsingar um hvar vöruna er að finna á hagkvæmustu verði og þetta yrði því ómetanleg leiðbeining fyrir fólk. Okkur er ljóst að slík úrtakskönnun sannar ekkert um heiðarleik eða óheiðarleik kaupmannsins enda er í gildandi lögum og reglugerð ákvæði um eftirlit og brot á verðlagslöggjöfinni. En þetta mundi hvetja fólkið sjálft til að vera frekar á verði en því er unnt nú, auk þess sem það ætti að vera kaupmönnum hvati að halda verðlagi innan réttra marka og auglýsa vöruverð sjálfir, en á það skortir mjög eins og allir vita. Að mínum dómi er það algert siðleysi að auglýsa og bjóða vöru fala án þess að taka fram verð vörunnar. Þetta á áreiðanlega stóran þátt í því að slæva verðskyn almennings og er til þess fallið að innræta fólki að verð vöru skipti sáralitlu máli eða engu.

Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að þetta atriði, upplýsingar um verð, skiptir íbúa úti á landi ákaflega miklu. Ýmiss konar vörur verður fólk úti á landi að fá héðan úr Reykjavik, og það vantar ekki að verslanir skírskota til þessa fólks með því að taka fram að þær póstsendi. En í þessar auglýsingar vantar oftar en ekki upplýsingar um verð þótt ágæti vörunnar sé að öðru leyti tíundað. Þetta kostar fólk sérstakt langlínusamtal eingöngu til að spyrja um verðið og er þá varan orðin dýrari sem því nemur.

Ákvæði um verðmerkingar og upplýsingar um verð í gildandi lögum eru ekki strangari en svo að verðlagsstjóri getur fyrirskipað að verðmerkja vörur, festa upp verðskrár í verslunum og verkstæðum og annað slíkt sem hann telur auðvelda viðskipti og eftirlit með verðlagi. Til að herða á þessu ákvæði og gera það þar með virkara leggjum við til í 4. gr. frv. að skylt verði að verðmerkja allar söluvörur hvar sem þær eru boðnar eða auglýstar, hvort heldur er á sölustað í sýnigluggum eða í almennum auglýsingum og þá auðvitað í útvarpi, sjónvarpi sem dagblöðum. Einstaka kaupmenn og verslanir hafa sannað að þetta er hægt og við teljum ekki nema eðlilegt að gera öllum þetta að skyldu almenningi til hagsbóta.

6. gr. frv. þarfnast varla skýringa á þessum verðbólgutímum, en þar leggjum við til að dagsektir þær, sem um ræðir í 20. gr. laganna, verði hækkaðar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.