14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2896 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

222. mál, Leiklistarskóli Íslands

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil þegar við 1. umr. þessa frv. láta í ljós eindreginn stuðning við efni þess og læt í ljós þá eindregnu ósk og von að frv. nái afgreiðslu á þessu þingi. Jafnframt get ég ekki látið hjá líða að átelja þann drátt, þann vítaverða og varhugaverða drátt sem orðið hefur á því að koma leiklistarmálum þjóðarinnar í viðunandi horf, en eins og segir í grg. þessa frv. fer leiklistarkennsla nú eingöngu fram í einkaskólum sem hljóta nokkurn opinberan styrk. Slíkt getur auðvitað ekki talist viðunandi lausn til nokkurrar frambúðar.

Á síðasta ári sem ég gegndi starfi menntmrh. Lagði ég fyrir hönd ríkisstj. fyrir þessa hv. d. frv. um Þjóðleikhús sem var endurskoðun á þjóðleikhúslögunum, — endurskoðun sem hafði verið undirbúin með starfi n. í alllangan tíma, — n. sem hafði unnið ítarlegt og mjög vandað starf. Í þessu frv., sem ég flutti fyrir hönd þáv. ríkisstj. á þingi 1970–1971, var gert ráð fyrir stofnun ríkisleiklistarskóla, þ. e. a. s. sameiningu þess skóla, sem Þjóðleikhúsið rak þá, og þess skóla, sem Leikfélag Reykjavíkur rak þá. Í 20. gr. þess frv. var gert ráð fyrir því að komið yrði á fót sérstökum ríkisleikskóla. Þetta frv. hlaut ekki afgreiðslu á fyrsta þingi. Er í sjálfu sér ekki óeðlilegt um jafnviðamikið frv. og þar var um að ræða að fleiri en eitt þing þurfi til að það sé afgr. En það var flutt aftur á næsta þingi og hlaut þá ekki heldur afgreiðslu og hefur síðan legið í algjöru þagnargildi þangað til nú að það sér ljós dagsins einu sinni enn eftir að það er orðið um 4 ára gamalt. Vegna þessa að Þjóðleikhúslagafrv. hefur ekki hlotið afgreiðslu þó að það sé orðið 4 ára gamalt og ákvæði í því voru um stofnun ríkisleiklistarskóla, þá hefur ekkert orðið úr framkvæmd,um í leiklistarskólamálum af hálfu ríkisins, nema hvað um hefur verið að ræða fjárveitingar á fjárlögum til styrktar einkaskólum.

Mér var á sínum tíma algjörlega ljóst að það sem hæstv. menntmrh. sagði í ræðu sinni áðan, að það er ekki frambúðarskipan að hafa ákveðinn leiklistarskóla í þjóðleikhúslögunum. Það er eðlilegt að sérstök lög séu sett um starfrækslu leiklistarskóla ríkisins, opinbers leiklistarskóla. Þess vegna hafði ég á sínum tíma, líka fyrir 5 árum, falið n. að semja frv. um sérstakan ríkisleiklistarskóla sem var nokkru síðbúnari en frv. um Þjóðleikhús og var svo síðbúið að ekki þótti fært að flytja það á síðasta þingi kjörtímabilsins, þinginu 1970–1971. En það var tilbúið þegar fyrrv. ríkisstj. tók við völdum og var sýnt hér á hinu háa Alþ. án þess að það fengi afgreiðslu, þannig að þessum málum hefur engan veginn verið sinnt á undanförmum árum í þeim mæli sem æskilegt hefði verið.

Nú er að vissu leyti farið inn á nýja braut með flutningi þessa frv., enda allar aðstæður gerbreyttar frá því sem þær voru fyrir 4–5 árum. En það er ekki seinna vænna. Lengur má ekki dragast að koma leiklistarskóla eða leiklistarkennslunni í viðunandi horf. Það tel ég vera gert með því frv. sem hér er flutt og mæli því eindregið með því að n. taki það til alvarlegrar og velviljaðrar meðferðar og mæli með samþykkt frv. þegar á þessu þingi.