14.04.1975
Neðri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2905 í B-deild Alþingistíðinda. (2196)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, er mjög stutt og mjög einfalt. Þess vegna mun ég ekki þurfa að flytja langa framsöguræðu. Þetta mál er flutt til þess að leysa vandamál sem lengi hefur verið á döfinni, og ég veit ekki betur en flestir ef ekki allir séu sammála um að þennan vanda þurfi að leysa.

Þannig er mál með vexti að um tveggja áratuga skeið hefur viss hópur launakvenna í landinu notið fæðingarorlofs á fullum launum lögum samkv. Það eru þær konur sem vinna í opinberri þjónustu. Með lögum frá 1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var þessum konum tryggt fæðingarorlof, og reglugerð frá sama ári kvað nánar á um að þetta orlof skyldi greitt í 90 daga samtals. Eftir þessari reglu hefur líka verið farið í öllum þeim sveitarfélögum sem ég þekki til, og ýmsir atvinnurekendur, sem bolmagn hafa til þess haft, hafa einnig framkvæmt þessa reglu. Þetta hefur mönnum þótt heilbrigð og sjálfsögð regla til verndar hinum nýfæddu borgurum og mæðrum þeirra. Það þarf ekki að leiða nein sérstök rök að því, að það er náttúrlega mjög erfitt fyrir konu, sem nýbúin er að fæða barn, að standa kannske eftir tvær vikur við afgreiðslu allan daginn eða þá við færiband í frystihúsi, en þannig er ástatt um konur sem stunda t. d. þessi störf. M. ö. o.: konum annars staðar í atvinnulífinu hafa ekki verið tryggð réttindi til fæðingarorlofs í svona langan tíma. Konur í verkalýðsfélögunum hafa ekki lengra fæðingarorlof en 3 vikur samkv. kjarasamningum. Í kjarasamningum sumra félaga er einungis um 12 virka daga að ræða, en í fyrra náðu verkamannafélögin samningum sem fólu það í sér, að fæðingarorlof varð 3 vikur. En það vantar samt mikið á að þessar konur hafi sömu réttindi og þær sem í opinberri þjónustu vinna og hafa 3 mánuði. Það segir sig sjálft að jafnvel þótt þessi árangur hafi náðst í kjarasamningum að þessu leyti, þá eru þessar konur mjög illa settar og ekki síður nýfædd börn þeirra. Nú þessa dagana og vikurnar er mest talað um réttindi kvenna, en við skulum ekki gleyma því að það er stór hópur manna sem á sér líka töluverðan rétt og er þannig settur að hann getur ekki barist fyrir rétti sínum sjálfur. Þetta ern börnin. Og ef nýfætt barn á nokkurn rétt til nokkurs annars en þess sem við getum kallað almenna umhyggju, þá er það umhyggja móður þess. Menn hafa líka lengi verið sammála um að það sé nauðsynlegt bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu barns, að móðir þess geti haft það á brjósti fyrstu vikur af ævi þess. Það liggur í augum uppi að þær konur, sem eru háðar tekjum af atvinnu sinni og verða að vera mættar til þeirra starfa fjarri barni sínu um — við skulum segja hálfum mánuði eftir fæðingu, þær geta ekki haft barn sitt á brjósti. Þær geta aðeins annast þetta nýfædda barn einhvern tíma þegar þær koma heim þreyttar og varla búnar að ná sér eftir fæðingu síðla dags og að nóttu til.

Það liggur í augum uppi að á þessum velferðardögum okkar er ekki hægt að kalla þetta ástand til sóma. Ég held að við séum öll sammála um að á þessu þurfi að ráða bót. Menn hafa lengi haft uppi kröfur um það að það sé nauðsynlegt að greiða öllum konum, hvar í stétt sem þær standa, fæðingarorlof á fullum launum til þess að þær þurfi ekki að yfirgefa nýfædd börn sín fyrstu vikur ævi þeirra. Hins vegar hefur það vafist fyrir mönnum hvernig ætti að fjármagna þessar launagreiðslur. Það er ósköp einfalt mál að segja: Vitanlega á atvinnurekandinn að greiða þetta kaup beint til launþegans. — En á það er líka að líta að margur smáatvinnurekandi hefur ekki bolmagn til þess að greiða tvöfalt kaup í nokkra mánuði og mundi þá tvímælalaust fremur ráða sér annan vinnukraft en konu sem er líkleg til þess að fæða barn. Það er líka sú hætta á ferðinni, ef það væri í lög leitt, að allir atvinnurekendur ættu að greiða 3 mánaða fæðingarorlof beint til launþegans, að e. t. v. yrði erfiðara uppdráttar fyrir konurnar að berjast fyrir kjörum sínum að öðru leyti þegar svo væri. Þess vegna held ég að eina raunhæfa leiðin til lausnar þessum vanda sé að launagreiðslur þessar séu fjármagnaðar af sjóði sem allir atvinnurekendur eru skyldugir til að borga í, eins og er um Atvinnuleysistryggingasjóð. Atvinnuleysistryggingasjóður er fjármagnaður að 1/4 algjörlega af atvinnurekendum sjálfum, að 1/4 af sveitarfélögum og að helmingi til af ríkinu. Í framlagi sveitarfélaga og ríkis er vitanlega líka skattframlag atvinnurekenda og launþega til viðbótar því sem atvinnurekendur eru skyldugir til að leggja fram sérstaklega. Þess vegna má segja að það sé ákaflega eðlilegt að Atvinnuleysistryggingasjóður standi undir þessum greiðslum. Þarna er að sönnu um atvinnuleysi með vissum hætti að ræða, en atvinnuleysi þó, sem orsakast í þessum tilvikum af eðlilegum og gleðilegum orsökum. Ekki síður veldur þó þetta atvinnuleysi þennan tíma tekjumissi ef ekki koma til sérstakar ráðstafanir. Ég tel tvímælalaust að það sé nauðsynlegt að leggja kapp á að konur í verkalýðsfélögunum fái greitt fæðingarorlof ekki síður en aðrar konur sem vinna fyrir launum í landinu.

Það hafa verið uppi hugmyndir um það að öðrum stofnunum eða öðrum sjóðum bæri að greiða slíkt fæðingarorlof, og þá hafa menn aðallega staðnæmst við Tryggingastofnun ríkisins. En á það ber að líta að Tryggingastofnunin og hennar sjóðir nema slysatryggingasjóðir, eru hér um bil að öllu leyti fjármagnaðir af ríkinu og að nokkru leyti af sveitarfélögunum. Ég get ekki séð að það liggi beint við að ríkissjóður standi undir greiðslu á fæðingarorlofi til kvenna sem vinna hjá ýmsum öðrum aðilum en ríkinu sjálfu. Það er sjálfsagður hlutur að ríkið greiði fæðingarorlofið til kvenna sem hjá því vinna, en mun eðlilegra er að atvinnurekendur sjálfir ég er sammála því, — greiði fæðingarorlof til þeirra kvenna sem hjá þeim vinna. En eina framkvæmanlega leiðin til þess að svo megi verða er að það komi úr sameiginlegum sjóði sem þeir greiða í, og þess vegna er það sem hugur okkar, sem þetta frv. flytjum, hefur staðnæmst við Atvinnuleysistryggingasjóð. Á það er líka að líta að Atvinnuleysistryggingasjóður er öflugur sjóður og menn hafa hneigst til þess á undanförnum árum að bæta á hann ýmsum böggum. Mér er ljóst að hann hefur viðamikil verkefni, en það breytir ekki því að við teljum að það verkefni sem við leggjum til að sjóðurinn taki að sér samkv. þessu frv., ef það verður samþ., sé í fyllsta máta eðlilegt.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og trn. og leyfi mér jafnframt að vænta þess að það fái fljótan og greiðan framgang, þannig að þetta mál nái samþykki nú á þessu þingi, því að ég hygg að það megi ekki öllu lengur dragast, ef við eigum að geta borið höfuðið hátt, að sá vandi, sem um er fjallað í þessu máli, verði leystur.