15.04.1975
Sameinað þing: 63. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2914 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

227. mál, erlend sendiráð á Íslandi

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir að hafa lagt það á sig að tína þetta allt saman á eitt blað. Ég mun að sjálfsögðu alls ekki fara út í neinar umr. um þær upplýsingar sem hér komu fram, enda lit ég eingöngu á þetta sem almennar upplýsingar og ég tel að þær hafi sitt frétta- og upplýsingagildi og að það sé frá almennu sjónarmiði gagnlegt að þessar upplýsingar liggi fyrir. Hins vegar mun ég ekki á nokkurn hátt gera tilraun til að fara að leggja út af þessum upplýsingum sem hafa komið fram, enda sé ég ekki að til þess sé nein ástæða, og síst af öllu vil ég að þessar upplýsingar verði til þess að menn fari að gera einhverjar — hvað ég vil segja? — hvatvíslegar ályktanir um starfsemi erlendra sendiráða hér á landi, heldur megi þetta einmitt verða til þess að upplýsa menn nánar um hvað hér er um að ræða. Ég held líka að þetta geti haft gildi fyrir okkur og vakið upp skynsamlegar hugsanir hjá okkur sjálfum um það hvar við stöndum í alþjóðasamstarfi og þá ekki síður það kannske hversu utanríkismál eru stór þáttur í þjóðmálum íslendinga og þáttur sem menn verða að gefa gaum að og rækja ekki síður en önnur mál. En ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör og endurtek það, að ég álit að þessar upplýsingar hafi almennt upplýsinga- og fréttagildi. Þannig met ég þetta mál.