15.04.1975
Sameinað þing: 64. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2928 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

170. mál, afnám flýtifyrningar og skattur á verðbólgugróða

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins árétta það, að það er rétt skilið hjá hv. þm. að ég er mótfallinn því að þær hugmyndir, sem eru á bak við flýtifyrninguna, verði afnumdar. Við skulum aðeins líta á þessar fyrningar, annars vegar almenna fyrningu og hins vegar flýtifyrninguna. Almenn fyrning gerir það að verkum að ef eign er seld innan fjögurra eða sex ára þá skapar hún enga skattskyldu, þ. e. a. s. jafnvel þó að fyrningin hafi ekki verið raunhæf, þá skapar hún enga skattskyldu. Hins vegar er það svo með flýtifyrninguna, að flýtifyrningin er aðeins frestun á skattgreiðslu. Ef eignin er seld, þá skapar þessi sama flýtifyrning í öllum tilfellum skattskyldu, en aðeins ef önnur eign er keypt í staðinn er heimilt að fyrna þá eign um sömu upphæð, þannig að flýtifyrningin er í öllum tilfellum frestun á skattskyldu. (RA: Hún gengur upp í síðari fyrningu hugsanlega.)

Aftur á móti er svo ekki um almennu fyrninguna. Almenna fyrningin á að vera fyrning sem miðast við verðmætarýrnun og slit viðkomandi eignar. Hins vegar er það svo að þegar ákveðin eign er keypt, þá er greiðslubyrðin ávallt langmest fyrstu árin. Til þess að létta þessi kaup, hvort sem það eru fyrirtæki í rekstri samvinnufélaga eða hlutafélaga, þá er þessi flýtifyrning tekin upp og þá finnst mér vera aðalmálið að flýtifyrningin og aðrar fyrningar eigi sem sagt alltaf einhvern tíma að koma til skattgreiðslu ef eignin er leyst upp.

Ég verð að játa það að ég skil ekki alveg hv. þm., þegar hann talar um verðbólgugróða og skatt á verðbólgugróða. En eins og ég skil hans mál, þá er hann að tala um vísitölubindingu á lánum fyrst og fremst, þ. e. a. s. að skatturinn verði greiddur með tilliti til skuldanna. Það hlýtur að vera miklu einfaldara, ef hann vill fara þá leið, að vísitölutryggja lán, ef ég skil orð hans rétt, þá er það það, sem hann er að ræða um, en ekki skatt á verðbólgugróða.