22.04.1975
Neðri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2352)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð vegna þess að hv. frsm. meiri hl. n. gat mín og orðaskipta þeirra, sem við áttum í gærkvöldi, í ræðu sinni áðan. Það var drengilega gert af honum að taka fram nú að hann rengdi ekki þær tölur sem ég fór með í gær. En þetta þýðir þá að niðurstöður mínar voru réttar, þ. e. a. s. það er rétt að einstæðir foreldrar beri þyngri skatta en hjón þrátt fyrir sömu atvinnutekjur og sama barnafjölda. Þetta þýðir í raun að einstætt foreldri missir þá fyrr barnabæturnar en hjón, og það mál lít ég alvarlegum augum og átel harðlega þá ábyrgðarlausu afstöðu sem ríkisstj. og stjórnarsinnar tóku í þessu máli í dag.

Hv. frsm. meiri hl. n. taldi sínar reikningsforsendur réttari. Það, sem okkur greinir þá raunverulega á um, er hvernig litið skuli á tryggingargreiðslur, hvort líta skuli á þær sem bætur eftir vinnandi mann, t. d. húsmóður sem hverfur af sjónarsviðinu, svo að við höldum okkur við dæmið sem við ræddum um í gærkvöld, eða hvort litið skuli á þessar bætur sem sældartekjur sem ekkjumaður hafi umfram hinn kvænta mann. Það er þessi síðari skilningur sem ræður gerðum hæstv. ríkisstj. í þessu frv. Þessi skilningur kemur ákaflega vel fram í plaggi sem ríkisskattstjóri hefur útbúið og ég hef hér undir höndum, þar sem bornir eru saman þessir tveir hópar. Rökstuðningur fyrir því að hjón skuli bera léttari skatta en einstætt foreldri þrátt fyrir sömu atvinnutekjur og sama barnafjölda stendur þar skýrum stöfum og er á þessa leið: Hjón, einum fleiri í heimili til framfærslu. — Ég mótmæli því að litið sé á húsmóður sem hún sé á framfæri, en ekki að hún sé vinnukraftur sem vinni heimili sínu gagn.