23.04.1975
Efri deild: 71. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3245 í B-deild Alþingistíðinda. (2393)

204. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal verða við ósk hæstv. forsrh. og tefja ekki málið mjög. Þó get ég ekki á mér setið að vekja athygli á því að þessi hv. d. hefur verið svo að segja verkefnalaus á meðan tugir mála hafa legið fyrir Nd. Eru það ekki starfshættir sem til fyrirmyndar eru og ekki til þess hægt að ætlast að við hér hlaupum í gegnum stór mál, e. t. v. hvert á fætur öðrum, þegar að þingslitum verður komið. Slíka starfshætti ber að varast.

Í þessu máli hef ég í huga nokkur atriði sem ég vil ekki þegja um og tel rétt að koma á framfæri.

Ég er þeirrar skoðunar að gengisfellingin síðasta í febr. hafi verið óhjákvæmileg fyrst og fremst vegna þess að gjaldeyrisstaðan var slík að þá varð að grípa til skjótra aðgerða og aðrar aðgerðir hafi ekki verið fljótvirkari en gengisfelling. Ég er yfirleitt mjög tregur til þess að samþykkja gengisfellingar, en ég sannfærðist um það að hún var nauðsynleg í þessu tilfelli. Hins vegar hygg ég að við séum allir sammála um að gengisfelling er raunar ekkert annað en leiðrétting sem fljótlega rennur út í sandinn ef ekki er gripið til fleiri markvissra ráðstafana í beinu framhaldi. Af því er fengin löng og sár reynsla í okkar efnahagslífi.

Ég gerði mér því vonir um að þessu fylgdu ákveðnar aðgerðir og ég skal aðeins nefna fáeinar, sem ég fyrir mitt leyti lagði áherslu á í umræðum um það mál.

Þessi gengisfelling var fyrst og fremst nauðsynleg vegna gjaldeyrisstöðunnar. Þegar þannig er ástatt er eðlilegt að draga jafnframt úr innflutningi með beinum aðgerðum. Á ég þar við aðgerðir eins og t.d. danir gripu til þegar þeir hækkuðu tolla um 10%, aðgerðir sem raunar ýmsar þjóðir í viðskiptabandalögum Evrópu hafa beint eða óbeint gripið til og dregið úr innflutningi. Ég vil einnig vekja athygli á þeim tilmælum Félags ísl. iðnrekenda að reglur um þróun fríverslunar verði endurskoðaðar með tilliti til þeirrar staðreyndar að íslensk framleiðsla hefur ekki búið við þær aðstæður upp á síðkastið sem gert hafa henni kleift að búa sig sem til var ætlast undir þá samkeppni sem vaxandi mun fara. Ég taldi því rétt að stíga jafnvel skref til baka í þessari þróun. Ég lít svo á að það sé að sjálfsögðu tímabundið. Ég er fylgjandi þeirri meginstefnu að koma hér á fríverslun í svo viðtækum mæli sem okkar litla þjóðfélag og að mörgu leyti erfiða með tilliti til gjaldeyristekna getur og hefur efni á.

Það skiptir mig engu máli þó að slíkar aðgerðir séu nefndar höft. Ég lít ekki á það sem höft þegar ein stór fjölskylda verður vegna fjárskorts að draga úr ákveðnum innkaupum og jafnvel að setja vissa hluti á bannlista.

Ég lít einnig svo á að vísitölugrundvöllurinn sé þannig að hér fáist aldrei viðunandi jafnvægi í efnahagsmálum fyrr en hann er leiðréttur, og raunar hygg ég að allir séu sammála um það þótt ekki séu þeir sammála um hitt, á hvern máta beri að leiðrétta vísitölugrundvöllinn. Út í það skal ég ekki fara tímans vegna. Þó vil ég nefna að mér sýnist ófært að tekjur til opinberra framkvæmda, við skulum segja álagning skatta til þess að byggja sjúkrahús, eigi að leiða sjálfkrafa til launahækkunar. Vitanlega er ljóst að slík hringrás getur aldrei staðist. Nú er að vísu orðið samkomulag um það að þetta verði endurskoðað og því fagna ég. Ég vona að af því verði einhver árangur og get með tilliti til þess samkomulags fallist á að Alþ. hinkri við. Hins vegar vil ég leggja á það ríka áherslu að ríkisstj. þarf sjálf að undirbúa markvissar aðgerðir að þessu leyti og vera tilbúin að hrinda þeim í framkvæmd með lögum frá þinginu, jafnvel þótt ekki náist um það samkomulag á vinnumarkaðinum.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að eyðslufé lífeyrissjóða, ef ég má kalla svo það fé lífeyrissjóða sem rennur í stórum mæli til alls konar neyslu, verði að koma undir öruggari heildarstjórn í fjármálum ríkisins. Ég er raunar hlynntur því að lífeyrissjóðirnir verði sameinaðir í einn, en það er stærra mál. Hitt er mál, sem hægt er að grípa á með miklu minni fyrirvara, að koma í veg fyrir óþörf útlán lífeyrissjóðanna til alls konar neyslu. Ég er með þessu alls ekki að ráðast að þeim sparnaði sem lífeyrisþegar hafa náð. Raunar tel ég að hagur þeirra sé betur tryggður með vísitölutryggðri ráðstöfun tekna lífeyrissjóðanna til atvinnuuppbyggingar og ekki síst til húsnæðismálakerfisins en nú er. Ég held að við höfum af því reynslu að viðunandi samkomulag við lífeyrissjóðina um þessi mál næst ekki.

Ég vil loks nefna að ég er þeirrar skoðunar að skipulagskerfi atvinnuveganna þurfi að skoðast frá rótum. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi verulegan þátt í því jafnvægisleysi, sem ríkir í okkar efnahagsmálum og vil í því sambandi sérstaklega nefna sjávarútveginn. Þar er sjóðakerfið og tilfærslan á milli fjölmargra þátta orðið slíkt að ég efast um að nokkur maður botni þar í. Þetta er brýnt að endurskoða og raunar eflaust hjá öðrum atvinnuvegum einnig.

Þá tel ég að verðlagsákvæði, sem nú eru í gildi og eru í endurskoðun, beri að endurskoða þannig að verðlagsákvæðin stuðli að hagkvæmari innkaupum.

Ég hef nefnt 5 atriði og gæti talið upp fleiri, en ég skal ekki gera það tímans vegna. Þessar aðgerðir er ekki að finna í frv. til l. um ráðstafanir í efnahagsmálum. Í raun og veru er fyrst og fremst verið að lögbinda þau ákvæði sem Alþýðusamband Íslands hefur orðið ásátt um að gera að mikilvægum þætti í lausn kjaradeilu. Það er góðra gjalda vert og eðlilegt að ríkisstj. og þm. hlusti á það sem launþegar hafa fram að færa í slíkum málum. En ég vara eindregið við því að í svo mikilvægum málum gerist Alþ. lítið meira en afgreiðslustofnun fyrir ákvarðanir sem utan Alþ. hafa verið teknar. Ég held að þetta frv. nái ákaflega skammt í því að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Ég held raunar að nefna mætti það fremur frv. til l. um lausn kjaradeilu.

Mér er ljóst að nokkur samdráttur er eðlilegur í okkar þjóðarbúskap vegna minnkandi tekna. Sjálfsagt er að viðurkenna það að á undanförnum árum fórum við nokkuð geyst. En við, sem studdum fyrrv. ríkisstj., töldum það nauðsynlegt, ekki síst með tilliti til þess atvinnuástands sem ríkti víða á landsbyggðinni. Þar var sannarlega þörf á að rösklega væri tekið til höndum. Það er einnig staðreynd að erlendar verðhækkanir hafa átt mjög verulegan þátt í þessari þróun, ekki síst hækkun olíunnar og raunar flestra annarra nauðsynja. Einnig er það rétt að náttúruhamfarir hafa orðið okkur dýrar. Að lokum vil ég nefna verðfall á okkar meginútflutningsafurðum á sviði sjávarútvegsins, sérstaklega fiskblokkinni, þótt ég geti tekið undir það að ef til vill hefur verið gert meira úr því en efni standa til. Það er engu að síður mjög tilfinnanlegt og einnig sú sölutregða sem orðið hefur vart við á vissum sviðum.

Allt leiðir þetta til þess að nokkur samdráttur er nauðsynlegur og er eðlilegt að honum sé dreift eins og frekast má vera.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta hlýtur að leiða til samdráttar í útlánum stofnlánasjóðanna, og sömuleiðis tel ég ekki óeðlilegt að ríkisframkvæmdir verði að einhverju leyti endurskoðaðar. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að verulegum samdrætti er ákaflega erfitt að koma við í skyndi og með litlum fyrirvara. Fjölmargt er þegar í framkvæmd og er nauðsynlegt að slíkum framkvæmdum verði lokið. Aðrir hafa gert ráð fyrir og gert markvissar ráðstafanir til þess að hefja framkvæmdir á þessu ári. Fyrir slíka aðila er mjög erfitt ef út af þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið, er brugðið svo skyndilega og á svo afgerandi máta eins og virðist gert ráð fyrir.

Einnig verðum við að fara mjög varlega með tilliti til atvinnuöryggis sem við leggjum höfuðáherslu á. Við viljum ekki með samdrætti stofna til atvinnuleysis víða um landið en ég óttast að að því geti stefnt, ekki aðeins með samdrætti stofnlánasjóðanna, heldur engu síður og raunar fyrst og fremst með þeim mikla samdrætti sem boðaður er og framkvæmdur í útlánum bankanna. Rekstrarfjárskortur gerir ákaflega mikið vart við sig, jafnvel svo að menn efast um að nema örfá íbúðarhús verði byggð utan Reykjavíkur á þessu ári. Ég held að skoða þurfi hina ýmsu þætti framkvæmda og rekstrarfjárþarfar mjög vandlega með það meginmarkmið í huga að atvinna verði næg og þessi samdráttur, sem kann að vera nauðsynlegur, komi smám saman, verði ekki svo snöggur að hann valdi meiri háttar röskun á þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað.

Um frv. skal ég ekki fara mörgum orðum fyrir utan þessi almennu orð sem ég hef nú mælt. Ég vil þó hlaupa yfir greinar þess. Ég tel ekki raunhæft að skera niður opinberar framkvæmdir um 3 500 millj. kr. og get tekið undir það, sem hér hefur verið sagt, að slíkar ákvarðanir eftir að fjárlög hafa verið samþykkt, eru ákaflega hvimleiðar. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík ákvörðun er tekin. Það hefur verið gert áður bæði með brbl. og ákvörðunum Alþ. og jafnvel aðeins miðað við ákveðinn hundraðshluta af fjárlögum og án þess að samþykki fjvn. þurfi til. Ég tel það til bóta að nú er svo ákveðið að samþykki fjvn. skuli koma til. Ég treysti fjvn.- mönnum til þess að skoða hvern slíkan niðurskurð mjög vandlega og þá ekki síst með þau atriði í huga sem ég nefndi áðan, atvinnuöryggi og eðlilegt framhald þeirrar uppbyggingar sem á sér stað um land allt.

Kaflinn um tekjuskatt og eignarskatt er aðalatriði þessa frv. Er þar fyrst og fremst um lögbindingu samkomulagsatriða að ræða í samningum verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur. Ég er ekki fylgjandi lækkun skatta og mig furðar á því að Alþýðusambandið og verkalýðsfélögin skuli beita sér fyrir þessum samdrætti í tekjuöflun hins opinbera. Menn verða að gera sér grein fyrir því að slíkur samdráttur hlýtur að leiða til þess að opinberar framkvæmdir dragast saman. Það verður ekki framkvæmt fyrir meira en tekjur leyfa. Hér er raunar um miklu viðtækari ákvörðun að ræða, stefnumarkandi ákvörðun. Með þessu móti er verið að færa neysluna í þjóðfélaginn frá samneyslu yfir til einkaneyslu. Er það í raun og veru vilji verkalýðshreyfingarinnar? Ég er þeirrar skoðunar að samneysla í okkar þjóðfélagi verði að vera mikil. Ég tel að við búum við þær aðstæður í litlu og að mörgu leyti erfiðu landi að hið opinbera þurfi á fjölmörgum sviðum að hlaupa meira undir bagga en gerist hjá stóru þjóðunum. Tekjusöfnun hins opinbera í okkar þjóðfélagi er minni en víða í nágrannalöndum okkar, en ég tel að okkur beri að stefna að því að samneyslan aukist og vil þá fremur, þegar um samdrátt er að ræða, draga úr einkaneyslunni. Því er ég, eins og ég sagði, undrandi á þeirri stefnu sem mörkuð er með þeim samningum, sem verkalýðshreyfingin hefur nú gert við atvinnurekendur, og er ekki samþykkur þeirri skattalækkun sem gert er ráð fyrir. Ég hlýt þó að líta á þetta sem lið í lausn annars mikilvægs máls, þ. e. a. s. þeirrar kjaradeilu sem staðið hefur og gat leitt til meiri háttar vandræða, og ég mun skoða þennan kafla í ljósi þeirrar staðreyndar.

Ég fagna því að dregið hefur verið úr þeim tollalækkunum og söluskattslækkunum sem ráðgerðar voru í upphaflegu frv.

Ég get tjáð mig fylgjandi flugvallagjaldinu því ég tel að draga beri úr utanferðum á meðan svo er ástatt sem nú er í okkar gjaldeyrissjóðum. Þó efast ég um að þetta flugvallagjald nái í raun og veru tilætluðum árangri.

Ég get tjáð mig fylgjandi skyldusparnaði á hærri tekjur, ekki síst þegar dregið hefur verið úr sköttum jafnvel af hátekjum.

Ég vil að, lokum segja örfá orð um VIII. kafla frv. „Lántökuheimildir vegna opinberra framkvæmda og Framkvæmdasjóðs“. Ég fagna því að heimild til erlendrar lántöku er aukin í meðferð Nd. Þetta er nauðsynlegt með tilliti til minnkandi tekna ríkissjóðs með þeirri lækkun skatta sem gert er ráð fyrir í þessu frv. og ég hef gert að umræðuefni. Þetta er nauðsynlegt ef framkvæmdir eiga að haldast á viðunandi stigi. En ég hef lýst nauðsyn þess að svo verði. Ég vona að með þessu móti sé séð fyrir viðunandi ráðstöfunarfé stofnlánasjóðanna.

Í þessu frv. kemur ekki fram sundurgreining á fjáröflun til orkumála að upphæð 3 milljarðar 520 millj. kr. Ég vil mjög óska eftir því að þetta verði sundurliðað betur og n. afli sér upplýsinga um þessa sundurliðun og að sú sundurliðun liggi fyrir við 2. umr. málsins.

Ég vona að ég teljist ekki hafa tafið þetta mál um of. Ég vildi fyrst og fremst lýsa þeirri skoðun minni að ég tel þetta frv. ekki fjalla um lausn á efnahagsmálum okkar og vafasamt að það stuðli að jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Hins vegar er ljóst að það stuðlar að lausn í kjaradeilu. Það er einlæg von mín að hæstv. ríkisstj. bretti upp ermarnar og komi fljótlega fram með markvissar aðgerðir í efnahagsmálum.