25.04.1975
Neðri deild: 73. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3339 í B-deild Alþingistíðinda. (2433)

163. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Hv. félmn. hefur skilað áliti um frv. það sem ég leyfði mér að bera fram á þskj. 301, 163. mál. Frv. þetta var flutt til þess að greiða fyrir því að fasteignir sem væru reistar og notaðar í þágu tómstundaiðju, fengju lægri fasteignagjöld en þau fá nú. Var sérstaklega vitnað til hesthúsa og félagsheimila hestamannafélaga og skyldra fasteigna í grg.

N. fjallaði um þetta frv., fékk umsagnir frá Landssambandi ísl. hestamanna og hestamannafélaga og Sambandi ísl. sveitarfélaga og komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að þrengja nokkuð orðalag greinarinnar eða frv., þannig að ekki færi milli mála hvað við væri átt, og líka breyta frv. á þann veg að hér væri um að ræða heimildarákvæði til handa sveitarstjórnum. Hljóðar þá brtt. svo:

„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt af fasteignum sem einvörðungu eru notaðar til tómstundaiðju sem viðurkennd er af viðkomandi sveitarstjórn.“

Á þessa breyt. féllst n. öll svo og fulltrúar Sambands ísl. sveitarfélaga sem höfðu gert nokkrar athugasemdir við frv. í sinni upphaflegu mynd, af þeirri eðlilegu ástæðu að hér var um að ræða spón úr aski sveitarfélaganna. Það er mat þeirra að þetta sé mjög viðunandi eins og nú er frá því gengið af nefndinni.

Í öðru lagi er bætt inn í þetta frv. breyt. sem felur það í sér að skipbrotsmannaskýli og sæluhús séu undanþegin fasteignagjöldum. Þessi breyt. var talin sjálfsögð og eðlileg og n. leggur til að þetta verði hvort tveggja samþ.