07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3533 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

226. mál, hússtjórnarskólar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Þetta skulu aðeins vera örfá orð. Ég viðurkenni það fúslega að þeir skólar sem hér er verið að fjalla um og hafa gengið undir nafninu húsmæðraskólar, hafa á margan hátt gegnt merku hlutverki í okkar almenna menntakerfi. Síst skal ég gera lítið úr því.

Ég get út af fyrir sig stutt þetta frv., ég tel að það sé þó til bóta svo langt sem það nær. Við vitum af hverju þetta frv. er fyrst og fremst flutt, það er flutt fyrst og fremst vegna þess hvað miklir örðugleikar hafa steðjað að þessum skólum að undanförnu, ekki aðeins fjárhagsörðugleikar þeirra aðila sem þessa skóla hafa rekið, heldur ekki síður þeir örðugleikar sem að þeim hafa steðjað varðandi aðsókn að skólunum. Þessir skólar hafa sem sagt misst aðdráttarafl sitt af þeirri einföldu ástæðu að þeir hafa ekki, eins og hv. frsm. tók fram áðan, lagað sig að kröfum tímans. Þeir hafa verið smám saman að verða eins konar nátttröll í skólakerfimu. Það er bara það sem ég er örlítið hræddur um að kunni að verða áfram, þrátt fyrir þessa nafnbreytingu og þrátt fyrir ýmislegt það sem hér er þó sett fram til bóta. Ríkið á nú samkvæmt þessu að taka á sig allar fjárhagsskuldbindingar og það er án efa nauðsynlegt því að þeir aðilar, sem hafa staðið að rekstri þessara skóla, hafa hreinlega ekki getað gert það sem skyldi.

En það, sem ég vildi vekja aðalathygli á hér og ég hef reyndar komið að áður og sakar ekki að gera enn einu sinni, er það, hve mikil nauðsyn er orðin á því að setja samræmda heildarlöggjöf um allt nám á framhaldsskólastigi og fella þá þessa skóla inn í þá heildarlöggjöf á sem eðlilegastan hátt. Það segir að vísu í 6. gr. frv. að eins árs nám í heimilisfræðaskóla skuli veita sömu réttindi til framhaldsnáms og eins árs nám í almennum framhaldsskóla að loknu skyldunámi. Þetta er vissulega til bóta því að áður hafa húsmæðraskólarnir verið algerlega úr tengslum við allt okkar skólakerfi og nemendur þaðan ekki notið í raun neinna réttinda til framhaldsnáms. Hins vegar kem ég ekki auga á það með óbreyttu fyrirkomulagi framhaldsmenntunar í landinu, hvernig þetta á í raun að gerast eða inn í hvaða skóla og inn í hvaða námsgreinar eða valgreinar eða kjörsvið eða hvað við köllum það þessir nemendur eiga að fara að loknu þessu námi. Þetta sem sagt sannar okkur betur en nokkru sinni fyrr nauðsynina á því að fá heildarlöggjöf um framhaldsstigið og þá finnst mér sjálfsagt um leið að huga að þessum nauðsynlega þætti og gera þá þessum nemendum kleift að ganga eðlilega braut í menntakerfinu og þá þær brautir sem þeir helst koma til greina með að kunna að kjósa. En eins og nú standa sakir kem ég hreinlega ekki auga á það hvernig og í hvaða framhaldsnám þessir nemendur eiga að fara. Það stafar einfaldlega af því að hér vantar okkur löggjöf um framhaldsstigið sjálft á sama hátt og grunnskólastigið hefur áður verið tekið fyrir. Þetta þarf að gerast og um leið þarf auðvitað að sjá svo til að eitt reki sig ekki á annars horn eins og ég óttast að verða muni þó að þetta frv. nái fram að ganga og margt sé þar vissulega til bóta og ég get út af fyrir sig þar af leiðandi stutt það.

Ég vildi aðeins koma þessum athugasemdum á framfæri. Ég er hræddur um það, því miður, að þrátt fyrir þessa breytingu, vegna þess hve allt er hér óákveðið ennþá um framhaldsstigið yfirleitt, þá muni erfiðleikarnir fyrir þessa skóla verða þeir sömu og áður, aðsóknin muni verða dræm og standa þeim fyrir þrifum áfram vegna þess að nemendurnir, sem fara í þessa skóla, sjá ekki þá námsbraut sem þeir eiga að fara eftir að þeir hafa lokið þarna námi.