07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3542 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Ég vil þá byrja á því að svara hv. 3. þm. Vestf., að þótt framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafi staðið að því að baka einhverjar kökur fyrir nokkrum árum, þá er ekki víst að allir vilji kyngja þeim í dag. Það getur verið að það hafi enginn lystarlaus maður verið í flokkunum á þeim tíma, en ég er ekki reiðubúinn að það sé allt gott sem kemur frá þeirri sambúð og ekki var þetta nú gott. Það getur vel verið rétt að það hafi verið unnið áratugum saman án athugasemda að því að koma á jafnri aðstöðu milli byggðarlaga. En það er nú eins og bæði með negrana, þegar þeir byrjuðu að heimta sitt jafnrétti, og jafnvel má segja í sumum tilfellum kvenfólkið líka nú á þessu ári, að það þarf að fá heldur meira en jafnrétti til þess að það sé ánægt og geti kallast jafnrétti.

Ég vil ekki taka það án athugasemda að hér sé ekki um að ræða að hækka gjöld á íbúa við Faxaflóa ef þessi bensínjöfnun fer fram á þann hátt sem nú er lagt til. Ég held að það séu miklu fleiri sem ferðast út á land frá Reykjavík, reykvíkingar — ekki síður en þeir sem annaðhvort eru að snúa heim til sín eða heimsækja ættingja — sem fara frá Reykjavík út á land og koma þá til baka kannske með öðrum litlum flugfélögum. Og ég vil ekki gera þarna upp á milli þessara flugfélaga, hvort gegni meira hlutverki, lítið flugfélag staðsett úti á landi eða lítið flugfélag staðsett hér í bænum. Ég held þau gegni öll mikilvægu hlutverki. Og ég ætla að biðja hv. þm. Halldór Ásgrímsson, 5. þm. Austurl., að greina þar ekki á milli, ég held þau vinni öll gott og þarft verk. En til viðbótar almennum ferðalögum, sem hann minntist á, og þjónustuferðunum milli landshluta án þess að koma við í Reykjavík, — það er ekki nauðsynlegt, — þá eru flestallir, það eru 90% af íþróttahópum sem skipta þúsundum manns á hverju ári og ferðast með flugfélögunum sem eru staðsett hérna. Og það kom líka fram í framsöguræðu hv. þm. að um 2/3 eða meira af því bensíni, sem notað er, er notað hér í Reykjavík. Það segir sig þá sjálft, það hlýtur þá að koma talsvert á Reykjavík þótt ekki sé nema 1/3 sem jafnast niður í verði. Það er nóg til þess að það er hátt á aðra milljón samkv. upplýsingum frá Vængjum, og það skiptir sköpum fyrir félagið hvort það tapar eða hvort það ber sig. Upphæðin er ekki stór, við höfum ekkert talað þarna um stórar upphæðir, það er bara spursmál um það hvort til viðbótar, hvort eitt fyrirtæki til viðbótar með frjálsan rekstur á að þurfa að fara á framfæri ríkisins eða ekki. Þetta er ósköp einfalt. Og þetta kemur fram í bréfi sem ég veit ekki hvort form. fjh.- og viðskn. hefur fengið.

En það, sem kom mér eiginlega til að standa upp aftur, er að fundir í fjh.- og viðskn. hafa verið svo margir á óreglulegum tíma að ég fyrir mína parta hef ekki hugmynd um hvað er reglulegur fundartími og hvað er ekki reglulegur fundartími. Það hefur mér ekki verið sagt. En það er kannske minn klaufaskapur að hafa ekki leitað eftir því. Ef þessi fundur hefur af hreinni tilviljun verið á þeim eina rétta fundartíma, þá biðst ég afsökunar. En ég vil þá fá stundatöfluna þannig að hér eftir geti ég gengið að fundum þegar þeir eiga að vera úr því þeir eiga að vera svona reglulegir. Það fer þá ekkert á milli mála, því að ég er stundvís maður og stunda þá fundi sem ég þarf að stunda samkvæmt skyldu.

Ég vil að það komi hér aftur fram — og tel ég mig þó ekki þurfa að ítreka það sem ég hafði eftir forstjóra Skeljungs hf. — en ég minnist þess ekki að hann hafi talið það sjálfsagt að verðjafna bensín eins og aðrar vörur. (Gripið fram í.) Það eru aðallega aðrar vörur. Við skulum þá taka sem það eigi að vera aðrar olíuvörur. Ég held, að þeir sem þekkja þann mann, viti að hann er afskaplega mikill sjálfstæðismaður og er á móti þessu kerfi sem við erum að tala um að setja hér á. Ég á erfitt með að leggja honum þessi orð í munn. Það vil ég ekki. Hitt vil ég undirstrika, að það er villandi, eins og það kemur hér fram í nál., þegar bara er sagt frá því að hann hafi komið á fundinn. En ég sagði frá því sem hann vildi við mig segja sem nefndarmann, að hann taldi að þetta væri enn ein aðförin að Reykjavíkurbúum.