07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3628 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð þó að ástæða hefði kannske verið til að segja nokkru meira, en það var út af þeim ummælum hv. 8. þm. Reykv, sem hann lét hér falla áðan og voru í sambandi við lífeyrissjóðsgreiðslur sjómanna. Hann lét að því liggja að vestfirðingar greiddu minna í lífeyrissjóði heldur en þeir togaramenn hér í Reykjavík, Hafnarfirði, Akureyri, Akranesi. En þessir lífeyrisjóðsþegar á þessu svæði, sem borguðu meira, þyrftu eigi að síður að standa undir greiðslum til þessara vestfirsku sjómanna í lífeyrissjóðinn þar. Ég er búinn að leiðrétta þetta við hv. þm., en ég vil eigi að síður að það komist á prent að þetta er rangt. Sjómenn á Vestfjörðum eru með sérstaka lífeyrissjóði sem þeir borga til. Þeir sækja því engar greiðslur til hins almenna lífeyrissjóðs sjómanna, standa sjálfir undir þeim greiðslum sem koma til með að verða úr lífeyrissjóði vestfirðinga eða lífeyrissjóði í Bolungarvík, sem er sér. Þessu vildi ég koma á framfæri, ég vildi ekki láta þessu ómótmælt. Ég þykist vita að hv. þm. hefur sagt þetta vegna þess að hann vissi ekki betur, en ég vil að það komi skýrt fram að vestfirskir sjómenn lifa ekki á neinum lífeyrissjóðsgreiðslum úr hinum almenna lífeyrissjóði sjómanna, hvorki hér á Suðurlandi né á Norðurlandi. Ég vildi að það kæmi fram.