09.05.1975
Efri deild: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3666 í B-deild Alþingistíðinda. (2782)

230. mál, hjúkrunarlög

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er um breytingu á hjúkrunarlögum og felur það í sér að tekið er upp starfsheitið „hjúkrunarfræðingur“ og það þar með lögverndað, en jafnframt mega þeir aðilar í þessum starfsgreinum, sem það vilja, bera starfsheitið hjúkrunarkona eða hjúkrunarmaður eftir sem áður. Þetta frv. er flutt að beiðni Hjúkrunarfélags Íslands og þar var yfirgnæfandi meiri hl. fyrir því að fara fram á að þetta nýja starfsheiti, „hjúkrunarfræðingur“, yrði tekið upp. Við í heilbr.- og trmrn. töldum eftir atvikum rétt að verða við beiðni Hjúkrunarfélags Íslands og sömdum því þetta frv. og flytjum það hér með. Það fékk greiðan gang í gegnum Nd. og allir nm. í heilbr.- og trn. voru meðmæltir frv., og ég vona að það fái afgreiðslu einnig hér í hv. þd.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til heilbr.- og trn.