09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3682 í B-deild Alþingistíðinda. (2792)

11. mál, launajöfnunarbætur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, var flutt á s. l. hausti til staðfestingar á brbl. frá 24. sept. 1974. Tildrög þessara brbl. eru öllum kunn hér í þessari d. og hafa áður verið rædd hér. Frv. hefur verið lengi til afgreiðslu í fjárh.- og viðskn. og eru fyrir því gildar ástæður. Ekki tókst að afgr. málið endanlega fyrir jólaleyfi, en eftir jólaleyfi var ljóst að nauðsynlegt var að breyta ákvæðum brbl., m. a. með tilliti til ákvæða 5. gr. um launajöfnunarbætur þar sem kveðið er á um það að þær skuli hækkaðar ef vísitala framfærslukostnaðar fari fram yfir 358 stig. Aðilar vinnumarkaðarins náðu samkomulagi um hækkun láglaunabóta og kom sú hækkun til viðbótar þeim láglaunabótum sem voru ákveðnar með brbl. Ég mun nú leitast við að skýra einstakar gr. frv. með þeim brtt. sem meiri hl. n. leggur til að verði gerðar.

Varðandi brtt. við 1. gr. er þess að geta að til þess að taka af tvímæli um það hvaða kjör skuli ríkja frá 1. júní n. k. fari svo að samningar hafi þá ekki tekist milli aðila á vinnumarkaðinum um fyrirkomulag vísitölubindingar launa í framhaldi af bráðabirgðasamkomulaginu, sem í gildi er til þess tíma, er hér gert ráð fyrir, að ákvæðin um launajöfnunarbætur haldi gildi þar til samningar hafa tekist milli heildarsamtakanna á vinnumarkaðinum. Þetta ákvæði má telja í samræmi við venjur í slíkum tilvikum. Í 3. tölul. eru ákvæði um það hvaða grunnkaupsbreytingar eftir 1. okt. 1974 skuli ekki hafa áhrif á launajöfnunarbætur og þau rýmkuð í samræmi við ákvæði 1. málsgr.

Við 2. gr. frv. er engin brtt. og lagt til að hún verði óbreytt.

brtt. er gerð við 3. gr., að lagt er til að hún verði óbreytt, nema hvað gildistímabilið er opnað frá 1. júní 1975 ef til kæmi, sbr. um 1. gr.

Um 4. gr. er það að segja, að samkv. 4. gr. laga nr. 88/1974 um launajöfnunarbætur til bænda, er innheimta skal sem álag á búvöruverð, skulu þær ekki greiðast bændum í hlutfalli við framleiðsluverðmæti, heldur jafnað þannig að gagnist eingöngu hinum tekjulægri í hópi bænda með líkum hætti og launajöfnunarbætur launþega samkv. fyrrnefndum lögum. Þau mörk, sem hér eru sett, afmarka annars vegar rétt bænda til launajöfnunarbóta innbyrðis og hins vegar með hliðsjón af þeim rétti sem launþegum er ætlaður. Réttur launþega til launajöfnunarbóta á tímabilinu 1. okt. 1974 til 31. mars 1975 samkv. fyrrnefndum lögum og reglugerð nr.. 267 1974, um launajöfnunarbætur, er sá að full launajöfnunarbót á dagvinnu kr. 20.20 á stundina greiðist á tímakaup allt að kr. 288.60, en tímalaun á bilinu 288.50 til 308.70 verða kr. 308.70. Launajöfnunarbót greiðist ekki á tímakaup sem er hærra en 308.70. Launajöfnunarbót á tímakaup í yfirvinnu, nætur- og helgidagavinnu greiðist því hærra en nemur hlutfalli þess af dagvinnukaupi. Þær tímakaupstölur sem eru nefndar hér að framan eru miðaðar við kaupgreiðsluvísitölu 106.18 stig.

Samkv. verðlagsgrundvelli landbúnaðarins frá 1. sept. 1974 eru laun bóndans og skylduliðs hans þessi: Laun bónda: Dagvinna 2080 stundir á kr. 234.12. Eftirvinna 412 stundir á 329.15. Nætur-og helgidagavinna 408 stundir á 423.22. Laun húsfreyju: Dagvinna 600 stundir á 207.56. Laun unglinga: Dagvinna 1000 á 127.52. Samkv. fyrrnefndri reglugerð er hámark tímalauna hjá launþegum fyrir skerðingu réttar til launajöfnunarbóta 22.7% hærra en tímalaun bænda ern samkv. verðlagsgrundvelli landbúnaðarins. Bændur með vinnutekjur af búrekstri, sem eru 22.7% hærri en vinnulaunatekjur samkv. verðlagsgrundvelli landbúnaðarins eftir nánari útreikningi, ættu því að koma til greina sem rétthafendur til launajöfnunarbóta. Það bú, sem hér um ræðir, er tæplega 500 ærgildi að stærð eða nánar tiltekið 491 ærgildi. Daglegur vinnutími bóndans á 600 ærgilda búi er samkv. verðlagsgrundvelli landbúnaðarins 9 stundir á dag. Samkv. framansögðu verður réttur bænda til launajöfnunarbóta vart gerður sambærilegur við rétt annarra stétta, séu efri tekjumörk sett lægri en svarar tekjum af 500 ærgilda búi í nautgripum og/eða sauðfé.

Um ofangreindar reglur um greiðslur launajöfnunarbóta til bænda hefur náðst fullt samkomulag við fulltrúa Stéttarsambands bænda og greiðsla þessara launajöfnunarbóta skal framkvæmd af Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Þá er lagt til að 5. gr. falli niður, en 6. gr. verði 5. gr. og er um hana að segja að hér er gert ráð fyrir því að núv. fjárhæð fjölskyldubóta samkv. brbl. um launajöfnunarbætur, bætur almannatrygginga og verðlagsmál, nr. 88/1974, sem gilda til 31. maí 1975, haldist óbreytt til 30. júní, en þá kemur til framkvæmda ákvæði um barnabætur í stað fjölskyldubóta samkv. nýsamþ. lögum um ráðstafanir í efnahagsmálum og fjármálum.

7. gr. verður 6. gr. og um þá grein vil ég segja það, að með þessari gr. eru lögfestar þær breytingar sem orðið hafa á almennum bótafjárhæðum almannatrygginga með brbl. frá 24. sept. og með reglugerð frá 31. des. vegna 3% hækkunar grunnkaups 1. des. 1974. Jafnframt er lagt til, að bótafjárhæðir hækki um 9% frá 1. apríl 1975 til samræmis við hækkun kauptaxta í kjarasamningi ASÍ og vinnuveitenda frá 26. mars s. l., en 9% er sú meðalhækkun sem ætla mætti að yrði á öllum launatöxtum yrðu þessir samningar almenn fyrirmynd. l.oks er gert ráð fyrir hækkun bótafjárhæðar til samræmis við 3% grunnkaupshækkun 1. júní n. k.

Varðandi aðrar tryggingar en lífeyristryggingar, þ. e. bætur sjúkratrygginga og slysatrygginga, þarf með sérstakrar athugunar á afstöðu bótafjárhæða þessara innan tryggingakerfisins eftir þessar breytingar. Það þarf sérstakrar athugunar við, sem sagt um afstöðu bótafjárhæða þessara innan tryggingakerfisins eftir þessar breytingar.

Lagt er til að 8. gr. verði 7. gr., en hún fjallar um ákvæði um tekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega. Með þessari gr. er fyrst gert ráð fyrir að lögfestar verði þær breytingar tekjutryggingar- og viðmiðunarfjárhæða 19. gr. sem tóku gildi 1. okt. og 1. des. s. l. samkv. ákvæðum brbl. frá 24. sept. og reglugerðar frá 31. des. s. l. Þá er lagt til að tekjutryggingarfjárhæðir hækki frá 1. apríl og aftur frá 1. júlí 1976 til samræmis við hækkun kauptaxta í bráðabirgðasamkomulagi ASÍ og vinnuveitenda frá 26. mars s. l. og hækkun grunnkaups um 3% 1. júní n. k.

Þær breytingar, sem felast í till. 7. gr. um fjárhæðir 19. gr. frá 1. apríl, gera í fyrsta lagi ráð fyrir að tekjutryggingarmark elli- og örorkulífeyrisþega, þ. e. þær lágmarkstekjur sem elli- og örorkulífeyrisþegum eru tryggðar með lífeyri og uppbót á lífeyri, hækki til jafns við hækkun lægstu kauptaxta í bráðabirgðasamkomulagi ASÍ og vinnuveitenda sem nam um 13%. Þó hefur þótt rétt að hækka einstaklinga heldur meira eða um 15.l%. Þetta felur í sér um 20% hækkun tekjutryggingar hjóna og einstaklinga um 25%. Lífeyrir einstaklinga sem njóta tekjutryggingar hækkar því úr 256 800 kr. í 315 600. Hækkunin er 4 900 kr. á mánuði. Hækkunin er tvíþætt: Í fyrsta lagi 15.l% hækkun á grunnlífeyri og tekjutryggingu að viðbættum 20 þús. kr. vegna skattafsláttar. Heildarhækkun tekjutryggingar er því, að teknu tilliti til þess sem ég hef áður sagt, um 45.9%. Lífeyrir hjóna, sem njóta tekjutryggingar, hækkar úr 462 300 kr. í 652 700 kr. Hækkun er því um það bil 7 500 kr. á mánuði. Þessi hækkun er einnig tvíþætt, 13% hækkun á grunnlífeyri og tekjutryggingu að viðbættum 30 þús. kr. vegna skattafsláttar. Heildarhækkun tekjutryggingar er því 37%.

Það þótti sem sagt ástæða til að hækka tekjutryggingu einstaklinga meira en tekjutryggingu hjóna. Menn eru almennt sammála um það að í hópi einstaklinga séu erfiðleikar mestir meðal elli- og örorkulífeyrisþega. Sérstaklega á það við um hjón þar sem aðeins annað hjóna nýtur lífeyris. Einstaklingarnir eru einnig flestir, þ. e. a. s. þeir einstaklingar sem njóta þessara bóta, eða um það bil 15 þús., en hjón um það bil 3 300. Það er hins vegar mjög bagalegt að það skuli aldrei hafa farið fram könnun á framfærslukostnaði þessa fólks. Það liggja engar upplýsingar fyrir um neyslumynstur þessa þjóðfélagshóps. N. telur mikla nauðsyn á því að slík könnun verði gerð. Það er því aðeins hægt að taka skynsamlegar ákvarðanir um upphæð bóta einstaklinga annars vegar og hjóna hins vegar að fyrir liggi upplýsingar um framfærslukostnað þessa fólks. N. gerir það að till. sinni að slík könnun fari fram og mun ég koma að því síðar.

Kaupmáttur elli- og örorkulífeyris að viðbættri tekjutryggingu hefur verið reiknaður út fyrir undanfarin ár og þá miðað við sama neyslumynstur og aðrir þjóðfélagshópar hafa. Ef miðað er við töluna 100 hinn 1. jan. 1972 var kaupmáttur þessara bóta að meðaltali þessi: 59.7 1971, 96.4 1972, 93.5 1973 og 96.7 1974. En eftir að þessar breytingar hafa verið gerðar eru samsvarandi tölur 95.8 hjá einstaklingum, en 93.1 hjá hjónum. Kaupmáttur þessara bóta er því mjög svipaður og hann hefur verið á undanförnum árum. Hins vegar er það ljóst að neyslumynstur þessa fólks er allt annað en annarra þjóðfélagsþegna og eru þessar tölur því ófullkomnar um þróun mála. Það er hins vegar líklegt að ef sérstök vísitala væri til fyrir þennan hóp fólks, hefði hlutfallið verið hærra nú og vaxið meira með hækkuðu verðlagi. Úr þessu verður best skorið með sérstakri vísitölu fyrir þennan þjóðfélagshóp.

Ef áætlaður er sá kostnaðarauki sem mundi verða af breytingu bótafjárhæða samkv. þeim till. sem eru í 6. og 7. gr., þá má áætla að hækkun útgjalda vegna 6. gr. sé um það bil 336 millj. á árinu 1975 eða um það bil 455 millj. á heilu ári. Hækkun útgjalda vegna 7. gr. er hins vegar áætluð 210 millj. kr. eða 280 millj. á heilu ári. Við þessa upphæð bætist hækkun tekjutryggingar vegna skattafsláttar, sem áður hefur verið reiknað með í þeim skattalækkunum sem voru samþ. hér á Alþ., u. þ. b. 210 millj. kr., þannig að áætla má að heildarhækkun tekjutryggingar sé um 420 millj. Útgjaldaaukningu má því áætla um 546 millj. kr., og þar að auki er hækkun tekjutryggingar um 210 millj. eins og ég gat um áður.

9. og 10. gr. eru óbreyttar frá l. nr. 88 1974 nema hvað gildistímabilið hefur verið opnað frá 1. júní 1976 ef til kæmi eins og sagt er um 1. gr.

Lagt er til að inn komi ný gr. sem verði 11. gr. og fjallar hún um fjárfestingarlánasjóði. Hér eru í aðalatriðum endurtekin ákvæði 5. gr. l. nr. 75 frá 22. ágúst 1974, um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu. Er hin endurskoðaða grein ítarlegri og tekin af öll tvímæli um það að ákvæðið nái til endurlána erlends lánsfjár. Í 2. málsgr. er nýmæli um árlega endurskoðun á lánskjörum fjárfestingarlánasjóða. 3. og 4. málsgr. eru efnislega eins og 2. málsgr. 5, gr. nefndra laga, nema hér er kveðið á um að stjórn fjárfestingarlánasjóðanna skuli gera till. um lánskjör innan ramma meginreglnanna samkv. 3. málsgr.

Eins og ég gat um áður leggur meiri hl. n. til að inn komi nýtt ákvæði sem verði ákvæði til bráðabirgða og hljóðar það svo:

„Fyrir árslok 1975 skal heilbr.- og trmrh. láta fara fram könnun á framfærslukostnaði elli- og örorkulífeyrisþega og skal könnunin bæði ná til einstaklinga og hjóna er njóta elli- og örorkulífeyris. Hliðsjón af könnun þessari skal höfð við ákvörðun elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar hjóna og einstaklinga.“

Það er mjög mikið nauðsynjamál að slík könnun fari fram og ber vissulega að harma það að slíkt skuli ekki hafa verið gert því að það er augljóst að ekki er hægt að ákvarða skynsamlega skiptingu tekjutryggingar annars vegar einstaklinga og hins vegar til hjóna nema hafa niðurstöður slíkrar könnunar. Þá er lagt til að svipuð könnun fari fram „á framfærslukostnaði barna einstæðra foreldra. Hliðsjón af könnun þessari skal höfð við ákvörðun barnalífeyris.“ Það þótti rétt að einnig færi fram könnun á framfærslukostnaði barna þessa þjóðfélagshóps því að það er álit margra að kostnaður vegna framfærslu barna einstæðra foreldra sé hærri og meiri en framfærslukostnaður barna sem búa hjá báðum foreldrum. Er því mikið nauðsynjamál að úr þessu verði skorið svo að ábyggilegt sé til þess að hafa til hliðsjónar við ákvörðun barnalífeyris.

Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem meiri hl. flytur á þskj. 620 og ég hef nú gert nokkra grein fyrir, en minni hl. skilar séráliti. Jón G. Sólnes var fjarverandi afgreiðslu málsins.