09.05.1975
Efri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3715 í B-deild Alþingistíðinda. (2847)

224. mál, tónlistarskólar

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á að það er sveitarfélögunum í sjálfsvald sett í dag hvort þau styrkja eða styrkja ekki tónlistarskóla þá sem fyrir eru. Að vísu hefur skapast sú hefð að sveitarfélögin hafa styrkt tónlistarskóla að því marki sem ríkið sjálft gerir hverju sinni. En það er ekki nein skylda að styrkja eða veita fé til tónlistarskóla.

Ég er ekki með þessum orðum að segja að það sé ekki rétt að styrkja tónlistarskóla. Ég skal viðurkenna að ég hef kannske ekki lesið frv. allt í gegn nógu gaumgæfilega, en ég get ekki fundið í fljótu bragði hvernig á að stofna til skólans og hvernig á að skapa sveitarfélagi skyldu til þess að standa undir rekstri og kannske fjárfestingu líka eins og oft kemur fyrir eins og málin eru í dag. Það er sem sagt hægt að stofna tónlistarskóla hvenær sem er á árinu, hvort sem fjárhagsáætlun sveitarfélaga hefur verið gerð eða ekki eða gerir ráð fyrir tónlistarskóla eða ekki. Að lögum skal sveitarfélagi skylt að taka þátt í ákveðnum kostnaði samkvæmt þessari brtt. sem hér liggur frammi, 60% af launakostnaði bæði skólastjóra og kennara. Ég vil aðeins benda á að þetta getur komið sér afskaplega illa fyrir sveitarfélögin ef tónlistarskóli er stofnaður eftir að fjárhagsáætlun er gerð og sveitarfélagið fær þarna viðbótarbyrði.