09.05.1975
Neðri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (2863)

82. mál, orkulög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. neitt úr hófi. Menn hafa lýst hér skoðunum sínum og það hef ég gert, og þær umr., sem fram hafa farið eftir að ég talaði, hafa ekki breytt hinu minnsta í sambandi við mína skoðun á þessu. Hæstv. dómsmrh. lýsti sinni skoðun, sem hefur nú raunar verið landskunn í mörg ár um þetta efni, og þó að hann sé form. Framsfl. og sá sem hann er, þá vil ég minna á það að hans einkaskoðanir geta náttúrlega ekki orðið, síst af öllu í lögfræðilegum efnum, skoðanir hvers einasta framsóknarmanns. Ég ætla ekki að hefja hér neinar rökræður, enda stend ég ekki það vel að vígi að ræða við hæstv. dómsmrh. lítt við búinn um lögfræðileg efni eins og skilin á milli almennrar takmörkunar eignarréttar og ég vil segja þjóðnýtingar eða sviptingar eignarréttar eða annarrar slíkrar eignarskerðingar. Ég ætla ekki að fara út í það. Hins vegar held ég að það sé æskilegt að menn reyni að gera sér grein fyrir því hvar skilin liggi þarna á milli. Og vissulega er það rétt, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh. og allir þm. vita, að það er hægt að setja ýmiss konar takmarkanir á eignarrétt án sérstakra bóta. Það hefur verið gert margsinnis. Hins vegar held ég að við megum ekki leika okkur neitt að því að gera slíkt og það verður að fara með mikilli gát að því. Við verðum að átta okkur á því hvar mörkin liggja á milli almennra takmarkana á eignarréttinum og svo á því að beita eignarnámi. Ég tel að í þessu tilfelli væri miklu eðlilegra að byggja á eignarnámsheimildinni eins og hún er fyrir hendi í lögum þar um og eins og hún er fyrir hendi í orkulögunum sjálfum, og þess vegna get ég ekki fellt mig við það frv. sem hér er, vegna þess að þarna er að mínum dómi verið að ganga á eignarrétt manna.

Ég tel, að þetta frv. sé þannig úr garði gert að í reyndinni muni það snerta þá hagsmuni sem 67. gr. stjórnarskrárinnar verndar og þess vegna þurfum við að skoða þetta mál miklu betur. Vissulega er rétt að það er hægt að bera mál sín undir dómstóla. Það þarf ekki að segja mér það og það vita allir. En ég held hins vegar að það sé ekki æskilegt að við séum að stofna til þess, sem þetta frv. stefnir að, án verulegra umr. því að það hafa engar umr. í rauninni farið fram um þessi mál — a. m. k. sáralitlar umr. farið fram um þetta mál. Það hefur verið reynt að keyra þetta í gegn með ákafa, hvaðan sem hann er kominn. Hv. 3. þm. Reykv. segir að hann hafi ekki haft minnsta áhuga á þessu, enda hafi hann gert þetta fyrir Orkustofnun. En einhvers staðar að er ákafinn kominn og ákefðin, og ég held satt að segja að hv. þm. Magnús Kjartansson hafi flutt þetta mál nú a. m. k. tvívegis af nokkuð miklum ástríðuhita, einkum nú tvívegis, vil ég segja. Við skulum segja að hv. þm. hafi gert þetta fyrir Orkustofnun í upphafi, en ég held að nú í tvö síðustu skiptin hafi þetta verið hans eigið frumkvæði og áhugaefni.

Ég er alveg sammála hæstv. dómsmrh. og hv. 3. þm. Reykv. um að það er nauðsynlegt að hafa almennar reglur um þessi efni. Ég er ekki á móti því. En mér er ekki sama hvaða aðferð er notuð til þess að setja þessar reglur. Á því er dálítill munur. Og ég er alveg sannfærður um að hv. þm. almennt hafa ekkert skoðað þetta mál. Þeir hafa ekki skoðað þetta mál til neinnar hlítar. (Gripið fram í.) Þeir hafa ekki gert það til neinnar hlítar, og það er einmitt það sem ég er að biðja hv. þdm. að gera, að skoða þetta mál, skoða það í grandvallaratriðum og sjá hvaða agnúar eru á því. Ég sé á því agnúa. Ég sé á því bæði pólitíska agnúa og lagalega agnúa, og á meðan þeir agnúar eru ekki sléttaðir út, máðir burt, þá verð ég á móti þessu máli. E. t. v. á ég eftir að sannfærast um að þetta hafi gildi, en til þess vil ég fá betri tíma og fá að skoða þetta mál betur.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, hæstv. forseti. Ég hef greint alveg nákvæmlega frá því hverjar eru mínar skoðanir á þessu máli eða hver er afstaða mín til þessa frv. — og það skiptir höfuðmáli. En ég vil endurtaka áskorun mína til hv. þdm. að taka undir þá till., sem ég og samnm. mínir í meiri hl. iðnn. hafa lagt fram, að málinu verði vísað til ríkisstj. Það felur það m. a. í sér, að tækifæri gefst til þess að skoða þetta mál betur, og þá kann vel að vera að menn sannfærist um að það, sem ég hef verið að segja hér, sé í eðli sínu rangt, en ekki rétt, og er þá ekkert við því að segja. En ég held að það liggi ekki svo á að ákveða þetta að við getum ekki haft þá aðferð, sem meiri hl. iðnn. leggur til, sem sé að vísa því til hæstv, ríkisstj. Hún fær þá málið til frekari skoðunar og það verður hægt að ræða það betur innan þingfl., og þá getur hver og einn hv. þm. rabbað við sjálfan sig í einrúmi um efni frv. og komist að niðurstöðu eftir sína eigin athugun, en ekki látið segja sér neitt fyrir verkum um svo stórt mál sem hér er um að ræða.