10.05.1975
Sameinað þing: 75. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3765 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

215. mál, hafnaáætlun 1975-1978

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., var nokkuð rætt við afgreiðslu fjárl. á s. l. hausti, og margt af því, sem hér ætti nú að ræða, var þá allítarlega rætt í ræðum margra þm. Ég vil þó segja það um þetta mál að þessi áætlun, eins og hún var þegar hún var lögð fram á s. l. hausti, er að mínu viti á þann veg að hér er slett inn á ýmsar framkvæmdir, a. m. k. á síðari hluta áætlunartímabilsins, tölum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum vegna þess að þær koma ekki til með að þjóna neinum eðlilegum áfanga í framkvæmd verka á ýmsum stöðum. Væri hægt að nefna þar um dæmi.

Það verður hins vegar að segjast að það eru furðuleg vinnubrögð að nú skuli vera lagt til að þetta verði ekki afgr. á Alþ., heldur verði enn slegið á frest allri vitneskju um hvaða framkvæmdir á að fara í á komandi sumri, vitandi það fyrir víst — og það ætti a. m. k. hæstv. samgrh. að vita og fleiri — að víðast úti á landsbyggðinni er það svo að það er tiltölulega mjög stuttur framkvæmdatími, það eru 2–3 mánuðir úr sumrinu, sem hægt er að vinna að hafnarframkvæmdum víðs vegar í kringum landið. Ef það á að vera eins og mér sýnist allt benda til, að þetta mál eigi að vera í skoðun langt fram á sumar, þá þýðir það auðvitað ekkert annað en stöðvun framkvæmda í allflestum tilvikum, þar sem svo háttar um sem hér um ræðir að það er ekki hægt að vinna að framkvæmdum nema á tiltölulega skömmum tíma vegna veðurfars. Ég tek því undir það að það er ófremdarástand að ætla sér að enn verði beðið með ákvarðanir í þessum efnum. Nóg er þegar orðið og sveitarstjórnarmenn víðs vegar í kringum landið verða að fara að fá úr því skorið hvað það er sem á að framkvæma á þessu ári.

Það var raunar ljóst í sambandi við afgreiðslu fjárl. að þar var um stórkostlegan niðurskurð að ræða í framkvæmdamagni frá því sem áður var, og ég tek a. m. k. svör hæstv. samgrh., sem hann gaf áðan við fsp. frá hv. þm. Geir Gunnarssyni, á þann veg að það, sem hér er lagt til, sé ekkert endanlegt, það séu engar endanlegar tölur til framkvæmda, þær geti lent undir niðurskurðarhnífnum eins og hvað annað. Og þá, ef svo er, er um hreina sýndarmennsku að ræða í vinnubrögðum. Ég taldi að það mundi verða svo, fyrst þessi till. er hér lögð fram til umr., að það mætti marka það a. m. k. að þær tölur, sem settar eru á blað fyrir árið 1975, mundu standa í krónutölu. En eftir því sem hæstv. ráðh. sagði áðan, a. m. k. að mínu mati, þá sýnist mér það vera svo að það sé ekkert að marka það, það geti komið til með að lækka eins og hvað annað, þannig að enn þá meiri óvissa ríkir um það í hvaða framkvæmdir verður farið á komandi sumri í hafnarmálum.

Ég skal ekki fara öllu fleiri orðum um áætlunina sem slíka, en mér finnst það miður að svo skuli vera á málum haldið eins og hér er gert ráð fyrir, og mér finnst það fyllilega aðfinnsluvert og ámælisvert að það skuli ekki vera tekið fastara á bæði þessum framkvæmdum og öðrum ef það er meining hæstv. ríkisstj. á annað borð að einhverjar framkvæmdir verði unnar á yfirstandandi ári. Mér finnst það heldur einkennileg skoðun hjá hæstv. samgrh. að lýsa því hér yfir að það sé ekkert betra að hafa áætlun, sem er samþykkt, en áætlun, sem er í lausu lofti. Það ætti þó a. m. k. að vera auðveldara að átta sig á staðfestum áætlunum og ætti að vera a. m. k. meira mark á þeim takandi en áætlunum sem svífa í lausu lofti á milli ráðh. og stofnana dag frá degi og enginn veit hvað kemur til með að standa upp úr að lokum.

Það er hins vegar rétt, sem hæstv. ráðh. kom hér að í lok sinnar ræðu, að heimamenn hafa verið tiltölulega lítið spurðir um hvernig þeir vilji haga niðurröðun á hinum ýmsu þáttum framkvæmda í hafnarmálum. Því var lofað af Vita-og hafnamálastofnuninni á s. l. sumri, þegar gert var ráð fyrir því að slík áætlun yrði gerð, að hinar fyrstu till., sem fram kæmu frá þeirri stofnun, skyldu sendar heimamönnum til umsagnar þannig að þeir hefðu nægan tíma og tækifæri til þess að gera sínar aths. þar við. Þegar hin fyrri áætlun, sem við þm. fengum á borð okkar fyrir áramót s. l., sá dagsins ljós, þá hafði í allmörgum tilfellum a. m. k. ekkert tillit verið tekið til óska heimamanna, einfaldlega vegna þess að þeir höfðu ekki fengið tíma né tækifæri til þess að koma óskum sínum á framfæri við viðkomandi stofnun. Áætlunin var því gerð fyrst og fremst að tilhlutan Vita- og hafnamálastofnunarinnar án þess að sjónarmið heimamanna á hinum ýmsu stöðum kæmi þar nokkuð fram. Ég skal ekki um það segja hvort frekar hefur verið tekið tillit til sjónarmiða heimamanna þegar þessi endurskoðaða áætlun var lögð fram, en vil þó segja það að á þeim stöðum, sem ég þekki til, er tiltölulega lítið betur ástatt um það að tillit hafi verið tekið til sjónarmiða heimamanna. En ég vil sem sagt harma það mjög að ekki skuli mega skoða þessa þáltill., a. m. k. að því er varðar árið 1975, sem till. hæstv. samgrh. og ríkisstj. um að ekki verði breytt til lækkunar þeim tölum sem gert er ráð fyrir að framkvæma fyrir. En mér sýnist að það megi því miður búast við hinu versta í sambandi við þessar framkvæmdir eins og margar aðrar, eftir að búið er að samþykkja hér af stjórnarliðum 3 500 millj. kr. niðurskurð á opinberum framkvæmdum varðandi fjárlög.

Ég skal ekki hafa um þetta öllu fleiri orð, en vil aðeins að lokum lýsa undrun minni á því, sem fram kom í ræðu hv. 12. þm. Reykv., að Reykjavíkurhöfn hafi orðið afskipt af fjárveitingum. En hvaðan kemur það fjármagn sem Reykjavíkurhöfn hefur haft til ráðstöfunar og verið rekin sem gróðafyrirtæki á undanförnum árum? Hvaðan kemur það? Kemur það ekki frá hinum almenna þjóðfélagsþegni vegna þess að þetta er höfuðinnflutningshöfnin sem allt fer í gegnum? Og ég sé ekki að Reykjavíkurhöfn þurfi á einu eða neinu stigi að kvarta um að hún hafi ekki fengið nægjanlega tekjustofna til þess að geta staðið undir framkvæmdum, enda hefur það sýnt sig, a. m. k. allt til þessa, að það er sú höfn í landinu sem langbest hefur staðið sig að því er varðar að standa undir rekstri og sýnt gróða þannig að þessir kveinstafir koma úr hörðustu átt. Þeir hefðu vissulega átt miklu meira rétt á sér frá hinum ýmsu stöðum þar sem sveitarfélög og bæjarfélög hafa þurft að leggja millj. kr. fram úr sínum sjóðum til þess að standa undir hafnarframkvæmdum og þjóna þar með þeirri atvinnugrein sem allt annað byggist á, en það er sjávarútvegurinn. Á sama tíma hafa önnur sveitarfélög, sem eru miklum mun betur sett, ekki þurft að setja eyri úr sínum sjóðum til þess að standa undir þessum framkvæmdum. Mitt viðhorf til þessa máls er því það að engin sanngirni né nein rök mæli með því að Reykjavíkurhöfn fái eyri af fjárframlögum eða fjárveitingum á fjárl. til hafnargerða. Hún er sú höfn í landinu sem getur staðið undir þessu án þess að bein fjárframlög séu veitt vegna þess að hún fær það miklar tekjur í sambandi við innflutning og annað að það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að það er fyrirtæki sem margborgar sig og hefur borgað sig.