26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

300. mál, endurvarpsstöðvar sjónvarps á Austurlandi

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta koma fram tvennt: Annars vegar að fyrirliggjandi eru hjá útvarpinu — eins og ég raunar var búinn að geta um í sambandi við sjónvarpið, en það á líka við um dreifikerfi hljóðvarps, — ég hygg að ég megi segja mjög myndarlega útfærðar áætlanir um það, sem þarf að gera. Hins vegar eru allar fyrirætlanir um framkvæmdirnar út í hött nema séð sé fyrir fjármagni eins og okkur er öllum ljóst. Í annan stað vil ég minna á það að á sínum tíma voru útvarpsgjöldin nokkuð hliðstæð gjöldum fyrir dagblöð. Þau hafa komist niður í það að vera bara brot af því, sem greiða þarf fyrir áskrift dagblaðs, og þau eru nú í dag miklu lægri, miðað við dagblaðagjöldin, en þau voru í byrjun, þegar þessi stofnun fór í gang, svo að augljóst er að það hefur ekki verið ausið í stofnunina fé.

Ég tel, að fjárveitingavaldið standi í verulega óbættri skuld við þessa stofnun, bæði í sambandi við rekstur almennt og sérstaklega í sambandi við húsbyggingu og fjárveitingar til hennar. Það hefur hvað eftir annað verið leikinn sá leikur að nota fé, sem safnað hefur verið í húsbyggingarsjóð, lána það til annarra hluta. Stofnunin er á töluverðum hrakhólum með húsnæði. En það er önnur saga og kemur þessu ekki við.