10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

230. mál, hjúkrunarlög

Fram. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á hjúkrunarlögum. Frv. er stutt, það hljóðar þannig:

„1. gr. Rétt til að stunda hjúkrun og kalla sig hjúkrunarfræðing hefur sá einn, sem til þess hefur fengið leyfi ráðh. Þeim, sem þess óska fremur, skal heimilt að nota starfsheitin hjúkrunarkona eða hjúkrunarmaður.

2. gr. Greinar laganna nr. 2–7 breytast þannig, að þar sem orðið hjúkrunarkona eða hjúkrunarmaður koma fyrir, skal nú standa hjúkrunarfræðingur.“

Sem aths. við frv. er þess getið að till. hefur komið frá Hjúkrunarfélagi Íslands þess efnis að tekið verði upp starfsheitið hjúkrunarfræðingur og það verði lögverndað, og enn fremur sú ósk að starfsheitið hjúkrunarkona og hjúkrunarmaður skuli njóta sömu lögverndar og áður.

Þetta frv. hefur farið í gegnum Nd. óbreytt, og heilbr.- og trn. hefur rætt frv. og mælir með samþykkt þess.