10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3787 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

43. mál, ljósmæðralög

Við treystum því að hæstv. ríkisstj. taki þetta mál til sérstakrar meðferðar og tryggi réttindi þessa hóps. Hæstv. heilbr.- og trmrh. fór mjög vinsamlegum orðum um þessi mál er hann svaraði fyrirspurn hv. þm. Helga F. Seljans í Sþ, nú fyrir stuttu og vil ég — með leyfi hæstv. forseta — fá að vitna í orð hans. Hann sagði:

„Ég vil aðeins láta það koma fram að ég tel þennan starfshóp og þessa stétt það mikilvæga að ég vil taka alveg fullt tillit til þeirra óska sem þar hafa komið fram. Þó að breytingar séu að verða, sérstaklega í þéttbýli, og breytingar verði óhjákvæmilega allmiklar á komandi árum með byggingu heilsugæslustöðva, þá á það svo langt í land að þessi stétt er nauðsynleg og verður að viðhalda eðlilegri fjölgun í henni, þannig að hún geti innt af hendi þetta starf í strjálbýli. Ég tel alveg sjálfsagt að þetta hafi þessi nefnd í huga. Þegar hún hefur skilað uppkasti að reglugerð verður auðvitað farið yfir þá reglugerð í heilbr.- og trmrn. og þá mun ekki standa á mér að hafa samband við Ljósmæðrafélagið áður en reglugerð verður sett og gefa félaginu tækifæri til þess að gera athugasemdir við væntanlega reglugerð.“

Þessi ummæli hæstv. ráðh. sýna að það er vilji á því að koma þessu í framkvæmd og við treystum því að svo verði gert. En við teljum mái þetta það brýnt að ef ekki gerist neitt í þessu máli á næstunni, þá reiknum við með að við munum endurflytja frv. á næsta þingi.

Ég sagði að þetta mál væri brýnt og hér er um réttindamál að ræða. Hér er um það að ræða að tryggja launakjör skipaðra ljósmæðra og laun þeirra skuli ákveðin með kjarasamningum eða kjaradómi á sama hátt og laun opinberra starfsmanna. Þá er einnig kveðið á um það í frv. að ljósmæður eigi rétt á orlofi ár hvert á sama hátt og aðrir opinberir starfsmenn. Hlýtur að teljast sjálfsagt að þessi réttur sé veittur þessari stétt á sama hátt og öðrum stéttum. En það eru engin ákvæði um þetta efni í núgildandi ljósmæðralögum. Þá er og ljóst að skipting ljósmæðraumdæma, eins og hún er nú í mörgum eða jafnvel flestum sýslum landsins, er miðuð við það að hvert sveitarfélag sé ljósmæðraumdæmi út af fyrir sig. Því teljum við eðlilegt að sú skipting, sem gilt hefur, skuli tekin til endurskoðunar. Þessi skipting var eðlileg þegar samgöngur voru litlar sem engar og því eðlilegt nú að breyta þessari skiptingu.

Það var von okkar í upphafi, þegar þetta frv. var flutt, að það gæti náð fram að ganga og í ljósi þess leggjum við á það mikla áherslu að réttindi þessa hóps verði tryggð með skjótum hætti, og þar með afnumið greinilegt misrétti sem þessi stétt býr við.