10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3861 í B-deild Alþingistíðinda. (3003)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur H. Garðarsson:

Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt, þótt liðið sé á kvöld, að fjalla nokkuð um þann misskilning sem hefur gætt af hálfu andstæðinga þessa frv. varðandi það mál sem hér er til umr. Því miður mun hv. 7. þm. Reykv. vera horfinn úr húsinu, þannig að það verður að svara ýmsum atriðum, sem fram komu í ræðu hana, að honum fjarverandi.

Hv. þm. fór mörgum orðum um störf og afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til málefna kvenna innan þeirrar hreyfingar, og margt af því, sem hann sagði, var rétt. En þó vil ég halda því fram að mikið hafi vantað á að sú mynd væri sem heilust og fullkomnust, þannig að hv. þm. gerðu sér raunverulega grein fyrir því hvernig íslensk verkalýðshreyfing hefur þróast og af hverjum íslensk verkalýðshreyfing er mynduð. Hann drap á það að hann hefði fylgst í fjölda ára með baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir fæðingarorlofi handa konum. Ég vil þó segja það að ég hef ekki orðið var við mjög eldlegan áhuga á þessu baráttumáli hjá hinum hefðbundnu verkalýðsfélögum, og það af skiljanlegum ástæðum, því að satt best að segja eru margar þær konur, sem eru í hinum gömlu verkalýðsfélögum, fyrir löngu komnar úr barneign, en það er önnur saga. Þar er einnig mikið um ungar konur sem vert er að taka tillit til.

Ég held að þótt segja megi að hv. 7. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, eigi sér sögulega hefð innan verkalýðshreyfingarinnar og sé þar mikið átorítet, þá geti þó aðrir talað með og þá talað vegna þess hluta verkalýðshreyfingarinnar sem þeir eru í forustu fyrir. Og ég vil leyfa mér í þessu máli að tala fyrir þann hluta, sem að mér snýr sem forustumanni í verkalýðshreyfingunni, þ. e. a. s. fyrir þúsundir kvenna í þjónustugreinum sem þetta mál skiptir miklu.

Það var rétt, sem kom fram hjá hv. 3. þm. Austf., Sverri Hermannssyni, að þessi krafa, fæðingarorlof, hefur lengi verið ein aðalkrafa samtaka verslunarmanna. Minnist ég þess þegar hann hafði forustu í þeirri kröfugerð vegna Landssambands ísl. versinnarmanna, en því miður án árangurs, eins og hv. þm. benti hér á og undirstrikaði. En nú er búið að benda á leið sem við flm. álítum að sé fær í þessu máli og tryggi að það komist í höfn.

Varðandi það atriði hjá hv. 7. þm. þegar hann vildi gefa mér þá ábendingu að það frv., sem ég er flm. að, væri ekki fullnægjandi vegna þeirra kvenna, sem taka laun samkv. töxtum þess félags sem ég er formaður fyrir, vil ég segja þetta:

Það er rétt að vissu marki að þannig geta mál skipast. En ég vil benda á að því fer víðs fjarri að þetta dugi ekki meira en sem nemur um 50% miðað við sama taxta þess félags sem hér um ræðir. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, auk þess sem honum og öðrum, er hafa talað gegn þessu máli, yfirsést það atriði að í kjarasamningum eru nú þegar ákveðin ákvæði um slíkt orlof. T. d. er í kjarasamningum verslunarmanna ákvæði um að konur skuli fá 12 daga orlof, í öðrum samningum er allt að þriggja vikna orlof, þannig að þegar þetta er samanlagt nálgast það það mark að fullt fæðingarorlof í 3 mánuði verði fyrir allar útivinnandi konur, hvar í stétt sem þær eru. En að sjálfsögðu þarf að vinna að því í framtíðinni að tryggja öllum öðrum konum sama rétt. Þetta er baráttumál sem hlýtur að vinnast í áföngum, því að það er, eins og hv. 8. þm. Austf. sagði, staðreynd að öll barátta íslenskrar verkalýðshreyfingra og réttindabarátta yfirleitt vinnst í áföngum, en ekki stórum stökkum.

Þá kem ég að því atriði í ræðu hv. 7. þm. Reykv. þar sem hann talar um að Atvinnuleysistryggingasjóður sé eign verkalýðshreyfingarinnar. Það gætti nokkurrar mótsagnar hjá hv. þm. þegar hann talaði um þetta atriði, að Atvinnuleysistryggingasjóður væri eign verkalýðshreyfingarinnar, því að í sömu andránni talaði hann um að það væri ekki óeðlilegt, vegna þess að 3/4 hlutar tekna sjóðsins kæmu frá ríki og sveitarfélögum, að þá ættu heimavinnandi konur og búandi í sveit einnig sama rétt til greiðslna úr sjóðnum. Samkv. því gefur hann ábendinga um að þessi sjóður sé ekki endilega hrein eign verkalýðshreyfingarinnar, heldur beri einnig að líta til þessara greiðslna frá ríki og sveitarfélögum, þannig að hér sé um, eins og hv. 8. þm. Austf. sagði, sjóð að ræða sem er almenningseign, og ég tek undir þau orð. Hins vegar vil ég einnig segja það, að ef maður ætti að halda sig við túlkun hv. 7. þm. Reykv. um hreina eign verkalýðshreyfingarinnar á Atvinnuleysistryggingasjóði þá hlýtur hin fjölmenna og ég vil segja nýja stétt kvenna, sem vinnur við framleiðslustörf í nútíma hraðfrystihúsum, iðnfyrirtækjum, verslunum, skrifstofum, samgöngufyrirtækjum o. s. frv., þ. e. sú nýja vinnustétt sem hefur verið að myndast og þróast á Íslandi síðustu tvo áratugi, að eiga sama rétt til þessa sjóðs og verkalýðurinn úr hinum gömlu hefðbundnu félögum.

Varðandi umsögn Alþýðusambands Íslands, sem að vísu er umsögn forseta Alþýðusambandsins eins og fram kom í ræðu hv. 7. þm. Reykv., vil ég segja þetta:

Það kom fram einnig í ræðu hv. 7. þm. Reykv., sem ég ætla að undirstrika, að þessi umsögn hefur ekki verið lögð fyrir miðstjórnarfundi í Alþýðusambandinu og bar hv. 7. þm. Reykv. þar við tímaleysi. Hins vegar sagði hv. 7. þm. Reykv. annað. Hann sagði: Björn Jónsson forseti ASÍ bar þessa umsögn undir mig, þ e. a. s. Eðvarð Sigurðsson, formann Dagabrúnar. Hvað skyldu vera margar konur í verkamannafélaginu Dagsbrún í Reykjavík? Ekki bar forseti Alþýðusambands Íslands þetta bréf, sem var lesið áðan, undir okkur, undir formann Verslunarmannafélags Reykjavíkur, sem telur um 3 000 konur innan sinna vébanda, og harma ég það og hlýt að líta þannig á að annað hvort hefur forseti ASÍ ekki náð til mín eða honum hafa orðið á þarna mjög slæm mistök. En miðað við þetta hlýt ég að álykta sem svo að umsögnin hafi mjög takmarkað og lítið gildi sem slík.

Um Atvinnuleysistryggingasjóð er að sjálfsögðu hægt að flytja hér langt mál. Það er hægt að rekja sögu sjóðsins. Það er hægt að rifja upp, bæði hvernig sjóðurinn varð til, en það er einnig hægt að rekja söguna út frá því hvenær einstakar stéttir og hvernig einstakar stéttir öðluðust aðild að Atvinnuleysistryggingasjóði. Við hv. 3. þm. Austf. vitum það gerst hvernig hinar — ég vil segja nýju stéttir, hið nýja fólk í verkalýðshreyfingunni, sem skiptir þúsundum í þjónustugreinum og hinum nýju iðngreinum sem hafa risið upp víðs vegar um landið og þó einkum hér á Reykjavíkursvæðinu og Reykjanessvæðinu, — við vitum hvernig þetta fólk og hvenær það fékk atvinnuleysistryggingar. Það var fyrst og fremst fyrir baráttu þess sjálfs. Það þurfti að fórna töluverðu í samningum til þess að öðlast þennan rétt þótt síðar yrði. Ég get nefnt sem dæmi að Landssamband ísl. verslunarmanna, verslunar- og skrifstofumenn, sem munu vera nú um 7–8 þús. á öllu landinu, öðluðust ekki þennan rétt fyrr en, ef ég man rétt, árið 1965 eða 1966, og þurfti þetta fólk þá að fórna stöðunni í þeim samningum sem þessi réttindi voru til orðin í. Þetta fólk hefur ekki þurft að leita mikið til Atvinnuleysistryggingasjóðs um atvinnuleysisbætur og er það vel. En hins vegar vil ég segja að nú knýr þetta fólk á um það að Atvinnuleysistryggingasjóður komi til móts við þær þarfir sem þúsundir ungra kvenna í þessari stétt og öðrum skyldum stéttum hafa í sambandi við það að fá fæðingarorlof og það sem fyrst.

Ég skal viðurkenna það og styð það sjónarmið að atvinnuframkvæmdir úti á landi séu mjög mikilvægar og í þeim efnum hafi Atvinnuleysistryggingasjóður gegnt veigamiklu hlutverki frá því að sjóðurinn var stofnaður. En ég tel þó að miðað við þá þróun, sem hefur orðið á atvinnuháttum, og miðað við þýðingu kvenna úti í atvinnulífinu sé öllu mikilvægara nú að tryggja konum í atvinnulífinu fæðingarorlof.

Varðandi það atriði, sem mjög hefur verið hamrað á hér af andstæðingum þessa frv., og einnig varðandi þær ýkjur sem ég vil segja að komi fram í umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs um það hvað hér sé um háar fjárupphæðir að ræða, vil ég segja þetta:

Samkv. athugun hefur komið í ljós að árið 1973 höfðu 52.4% allra giftra kvenna einhvers konar tekjur utan heimila. Af þeim voru a. m. k. á aldrinum 50–67 ára, þ. e. a. s. konur sem eru komnar úr barneign. Þetta þýðir að af rúmlega 4 000 fæðingum kæmu ca. 600–700 konur á ári undir það frv. sem hér er til umr. Hvað þýðir þetta í peningum? Lauslega áætlað mundi þetta þýða útgjöld fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð sem næmu um 80–90 millj. kr. á ári og í hæsta lagi 100 millj. Ég vil einnig í þessu sambandi geta þess að samkv. athugunum, sem hafa verið gerðar í Bretlandi varðandi efri og neðri mörk í sambandi við konur og fæðingar, þá er álitið að helmingur þeirra kvenna, sem vinna úti, séu fyrir ofan og neðan þau mörk sem hér eru til umr.

Ég vil einnig taka undir það, sem hefur komið fram hjá stuðningsmönnum þessa frv. og þ. á m. hjá 3. þm. Austf. og get farið hratt yfir sögu varðandi það atriði, að svigrúm er nægilegt í Atvinnuleysistryggingasjóði til að mæta þeim kröfum og þeirri þörf sem við erum að leggja hér áherslu á að komi til framkvæmda í gegnum framlagt frv. Samkv. eigin orðum hv. 7. þm. Reykv. í umr. hér 17. apríl s. l. er áætlað að Atvinnuleysistryggingasjóður hafi til umráða árið 1975 það rúmt og það mikið fjármagn að mismunur á skuldbindingum og tekjum sjóðsins sé um 240 millj. kr., þannig að þótt frv. það, sem hér er til umr., væri samþykkt mundu vera enn eftir um 140 millj. til þeirra þarfa sem hv. 7. þm. Reykv. lagði áherslu á að þyrfti að fullnægja, þ. e. a. s. til sveitarfélaga. Auk þess vil ég vekja athygli á því að vegna breyttra viðhorfa í sambandi við fjármögnun framkvæmda sveitarfélaga utan Reykjavíkur- og Reykjanessvæðisins með tilkomu og eflingu Byggðasjóðs, þar sem sjóðurinn fær um það bil 2% af tekjum ríkissjóðs, þá hafa möguleikar stórbatnað og breyst fyrir sveitarfélögin, þannig að það fjármagn, sem Atvinnuleysistryggingasjóður þyrfti að greiða vegna þessa, 100 millj., skipta í sjálfu sér sáralitlu máli.

Ég vil undirstrika að það, sem við erum hér að berjast fyrir, er sjónarmið um nýjar leiðir til þess að tryggja fólki sem ég vil segja að sé hin nýja stétt verkalýðshreyfingarinnar, þ. e. a. s. konunum úti í atvinnulífinu, — tryggja þessu fólki þau mannréttindi sem aðrar konur hafa hjá hinu opinbera. Ég vil einnig undirstrika það og segja þetta: Hvað skyldi vera búið að greiða mörg hundruð millj. kr. í Atvinnuleysistryggingasjóð vegna vinnu þeirra kvenna úti í atvinnulífinu sem hér um ræðir?

Nei, hv. þm. — sem virðist nú aðallega vera sjálfstæðismenn hér í salnum í augnablikinu, sem betur fer og er það þakkarvert, — sú upphæð, sem hér um ræðir, er smápeningur í þeirri fjármagnssúpu sem hv. Alþ. fjallar um á hverjum tíma. En hjá andstæðingum þessa frv. kemur enn einu sinni fram hinn knappi hugsunarháttur gagnvart konunni. Menn mikla fyrir sér smáupphæðir á mælikvarða Alþ., þessar 100 millj. En fyrir hverja einstaka konu, sem þetta mál snertir, hefur þetta mikla þýðingu, og get ég trútt um talað, sem hef staðið í baráttu innan míns verkalýðsfélags um þetta mál. Ég get fallist á það sjónarmið að eðlilegt og æskilegt sé að greiða þetta í gegnum tryggingakerfi, en sú leið er ekki fær og hefur ekki þótt fær, sbr. örlög þáltill. Bjarnfríðar Leósdóttur í tíð vinstri stjórnarinnar.

Ég skal ekki hafa þessi orð miklu fleiri, herra forseti. En ég vil undirstrika það að framlagt frv. virðist vera eina færa leiðin til að hrinda þessu réttlætismáli í framkvæmd. Við skulum láta hinar ungu konur í verkalýðshreyfingunni njóta þessara sjálfsögðu mannréttinda og samþykkja frv., sem hér er til umr., þannig að þetta mál komist til framkvæmda hið fyrsta.